Veiðifólk á öllum aldri fagnaði sumri við Elliðavatn í morgun. Fjölmargir veiðimenn voru byrjaðir að veiða snemma í morgun og vegleg dagskrá var í boði á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur, Veiðikortsins og Veiðifélags Elliðavatns, í tilefni af opnun vatnsins.
Sérfræðingar voru mættir í bunkum og voru ósparir á ráðleggingar til yngri og óreyndari veiðimanna. Sporðaköst heyrðu á spjall tveggja veiðimanna. „Sástu eitthvað líf,“ spurði sá eldri. „Ég sá svona brúnar púpur í yfirborðinu,“ svaraði sá yngri. Örn Hjálmarsson hafði heyrt þetta og kom með innskot. „Þá er það Langskeggur sem gæti virkað.“ Svona var andrúmsloftið við Elliðavatnsbæinn.
Morguninn byrjaði með stafalogni og hitastigið var komið í átta gráður þegar hafgolan mætti á sínum hefðbundna tíma rétt fyrir klukkan tíu. En þá voru einmitt Caddisbræður og Ólafur Tómas, kenndur við urriða, að gera sig klára í að halda örnámskeið um lífríkið og veiðina. Þessir sérfræðingar fjölluðu um hvernig hornsílin haga sér og sitthvað fleira. Fjölmenni hlustaði á þá félaga og var þétt setinn bekkurinn.
Þeir tóku þetta alla leið og áður en Óli fjallaði um hornsílin fór hann og tók ferskt sýni úr botni vatnsins til að setja í smásjá og sýna viðstöddum. Þeir þremenningar kalla sig Tökustuð. Það hafði þó ekki smitast yfir í silunginn í vatninu og það var lítið að gerast á meðan að Sporðaköst stöldruðu við og fylgdumst með veiðimönnum. „Þú verður að hugsa eins og fiskur,“ hvíslaði Örn Hjálmarsson. „Hann er að taka klakið á morgnana en svo kemur hafgolan og ýtir því í burtu. Svo þegar lægir með kvöldinu þá er aftur matartími.“
Nokkrir veiðimenn voru komnir langt út í vatn. „Hvað með þessa? Þeir eru ekki að hugsa eins og fiskar,“ spurði ungur veiðimaður og benti. „Jú. Sjáðu til. Þeir eru að veiða með straumflugum.“
Svona var umræðan og margir mátuðu sig við fréttir frá öðrum. Árni Kristinn Skúlason var í Vífilsstaðavatni í gær og fékk þessa líka hlussu bleikju. „Nei. Ég mældi hana ekki en hún var mjög flott og ég bara var steinhissa hvað hún var stór. Hún tók Killer bug númer sextán.“
Ingimundur Bergsson Veiðikortaforingi fékk að sjá myndina. „Já. Það eru oft stórar bleikjur og góð veiði í Vífilsstaðavatni. Það er vatnmetið af mörgum. Við höfum drónað yfir vatnið og það er fullt af flottri bleikju þarna.“
Árni Kristinn var rokinn að aðstoða tvær ungar konur við köst. Sem hann labbaði í burtu kallað hann, „Félagi minn fékk líka flotta bleikju í Brúará í gær. Ég skal senda þér mynd. Það var í landi Sels og hún tók Pheasant Tail númer fjórtán, bara stóra,“ hló hann og var farinn að sinna flugukastkennslu. Himbrimapar í ástarleik söng eða gólaði öllu heldur og var það enn einn bónusinn sem viðstaddir nutu þennan fyrsta veiðidag.
Umgjörðin við Elliðavatn í morgun var til fyrirmyndar. Boðið var upp á kaffi og kleinur og einnig kleinuhringi sem er uppfærsla frá í fyrra. Þá er sérstaklega vert að hrósa þeim sem sér um malarveginn inn að Elliðavatni að hann var til fyrirmyndar. Undanfarin ár hefur þessi vegur verið eitt hryllings þvottabretti en nú var hann eins og best verður á kosið.
Veiðin fór rólega af stað í vatninu en þó hafði frést af fiski sem var tekinn í Helluvatni og oft berast þessar fréttir nokkru síðar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |