Sjaldan eða aldrei hefur upptaktur að veiðisumri verið sleginn jafn ákaft og nú. Enda eru fjölmargir aðilar að taka þátt og veðurguðir skorast ekki undan. Veiðihornið í Síðumúla slær á sínar trumbur með útkomu veiðiblaðsins Veiði XIII og er þetta þrettánda árið í röð sem blaðið kemur út.
Sú breyting varð á í fyrra að blaðið gekk í endurnýjun lífdaga og fór úr því að vera sölubæklingur yfir í að vera ríkulegt veiðimagasín. Blaðið er hnausþykkt af efni og ríða þar hetjur um síður. Tóti tönn, Ásgeir Heiðar, Caddis bræður, Arnar trymbill Rósenkranz, Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku eru viðmælendur svo einhverjir séu nefndir.
Þá má finna í blaðinu tæknilegar upplýsingar þegar kemur flugustöngum, línum, og hvernig á að bera sig að við að gera þetta allt á sem bestan máta.
Óli og María eru að vonum stolt af blaðinu og voru strax í morgun að stafla því í Veiðihorninu fyrir gesti og gangandi. Þá verður Veiði XIII dreift á sýningunni Flugur og veiði sem hefst á laugardag undir stúkunni á Laugardalsvelli. Þar verður ekki boðið upp á fótbolta en engu að síður verður þar á ferðinni landslið íslenskra hnýtara sem munu spila sinn besta leik.
En af hverju að fara þessa leið, að gefa út fullvaxið tímarit?
„Já. Það eru alveg nokkrar ástæður fyrir því. Þetta er þrettánda árið og við erum með þessu að segja takk og um leið gleðilegt veiðisumar. Veiði XIII kemur út í dag, sumardaginn fyrsta og verður dreift til viðskiptavina okkar að vanda í þakklætisskyni fyrir tryggðina í bráðum þrjá áratugi.
Við erum afar stolt af blaðinu nú og erum þeirrar skoðunar að Veiði XIII er glæsilegasta tímaritið okkar til þessa. Fjöldi skemmtilegra viðtala við áhugavert fólk, umfjallanir um veiðiklúbba og veiðitengd málefni auk ógrynni fróðleiks fyrir veiðiþyrsta. Við höfum í raun alltaf verið afar stolt af þessu verkefni. Ég viðurkenni að það voru efasemdir fyrstu tvö árin því auðvitað er stafræni heimurinn að taka yfir og prentið að víkja. En eftir að fyrstu tveir árgangar Veiði fóru í dreifingu fundum við að það var gríðarleg eftirspurn og mikið þakklæti fyrir svona útgáfu.
Nú eftir að blaðið varð að tímariti fannst okkur við alls ekki geta hætt þessu. Þetta er náttúrulega rándýrt verkefni og við leggjum mikinn metnað í útgáfuna í samstarfi við fólk í fremstu röð. Þegar miklir fjármunir eru settir í verkefni sem þetta, blóð, sviti, tár og ómældur metnaður kemur ekki til greina að birta blaðið bara á tölvuskjá. Við viljum fara alla leið og gera útgáfuna þannig að lesandinn finni gæðin með fingurgómunum þegar hann flettir vönduðu tímariti sem Veiði XIII er.“
Eldri kynslóðir muna hið hnausþykka og litskrúðuga Napp och Nytt sem dreift var hér á landi á síðustu öld. Þar mátti sjá endalausar myndir af veiðistöngum, hjólum, spúnum og öllu því sem hægt var að láta sig dreyma um. ABU gaf út blaðið en nokkuð er langt liðið frá því að hætt var að dreifa því hér á landi, þó að það komi raunar enn út á vegum ABU Garcia. Þegar Veiði hóf sína göngu var fyrirbærið því þekkt en hafði ekki fyrr sést á íslensku, skrifað fyrir íslenskt veiðifólk.
„Fyrstu árin var blaðið vörubæklingur með myndum, vörulýsingum og verði. Blaðinu var alltaf vel tekið sem slíku enda lögðum við alltaf mikið í það. Uppsetningin alltaf fagmannleg og mikið af fróðleik í bland við vörurnar. Síðustu árin var orðið erfitt að gefa út vörubækling og lofa föstu verði í tólf mánuði því krónan okkar er svolítið á floti og efnahagurinn allur óstöðugur. Það er þó merkilegt hvað okkur tókst að halda óbreyttu verði á þessum árum en það reyndi oft á verð ég að viðurkenna. Það var svo í hitteðfyrra að við gáfumst upp á því. Okkur fannst leiðinlegt að gefast upp og hætta blaðaútgáfunni enda þúsundir veiðimanna sem biðu árlega eftir blaðinu og alltaf var verið að spyrja; „Hvenær kemur blaðið?“
Þá vaknaði sú hugmynd að breyta vörubæklingnum í vandað tímarit með úrvalsefni þar sem við auglýstum vörur okkar með QR kóðum. Blaðið var sem sagt hugsað sem brú yfir á vefinn okkar. Hugmyndin þróaðist og úr varð glæsilegt tímarit verð ég að segja. Fjöldi umfjallana og viðtala var í blaðinu í fyrra auk mikils fróðleiks en hjá Veiðihorninu starfa fjöldi veiðimanna með gríðarlega reynslu af hverskyns veiði.
Blaðið er frábrugðið öðrum tímaritum að því leiti að engin bakskíða er á blaðinu heldur prýða það tvær forsíðu þar sem önnur leiðir lesandann inn í skotveiðihluta blaðsins og hin í stangveiðihlutann.“
Ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins er Ólafur Vigfússon en auk hans sitja í ritnefnd, María Anna Clausen, Eggert Skúlason og Heimir Óskarsson. Heimir Óskarsson á veg og vanda að öllu útliti blaðsins. Kjartan Þorbjörnsson (Golli) á báðar forsíðurnar og fjölda glæsilegra
mynda sem prýða blaðið. Einar Falur á flottar veiðimyndir í blaðinu auk þess sem það prýðir fjölda mynda úr einkasöfnum. Blaðið er prentað á vandaðan, umhverfisvænan pappír hjá Litlaprenti en blaðið hefur alltaf verið prentað hér á landi. Veiði XIII er prentað í 7.000 eintökum og hefst dreifing í Veiðihorninu Síðumúla 8 í dag, sumardaginn fyrsta.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |