„Þetta er allt að smella. Ég held að ég sé sá eini sem á eftir græja básinn minn,“ hlær Sigurður Héðinn í samtali við Sporðaköst. Sýningin Flugur og veiði opnar í fyrramálið undir stúkunni á Laugardalsvelli og sýnendur eru að leggja lokahönd á frágang.
„Áhuginn er ótrúlega mikill og það er engu líkara en eigi að fara að hleypa beljum út úr fjósi. Ég á von á að þetta verði eins og á góðri lestarstöð í Evrópu á annatíma,“ svarar hann kátur aðspurður um áhuga meðal veiði– og útivistarfólks.
Sýningin mun skarta ýmsu. Kynning verður á mörgum veiðisvæðum hjá veiðileyfasölum og væntanlega hægt að kaupa veiðileyfi á „sérstöku sýningarverði.“ Jeppinn hans Ratcliffes, INEOS Grenadier (sem hann lét hanna, öllu heldur) verður til sýnis. Þá verður bátur frá Veiðiportinu til sýnis og hægt er að fá sér húðflúr til styrktar baráttunni fyrir framtíð laxins.
„Þessi sýning er sú fyrsta sem haldin hefur verið í fjölda ára og er hugsuð fyrir áhugafólk um veiði og hnýtingar sem eiga að geta séð, upplifað og notið nærveru áhugaverða hnýtara, sýnenda, hlustað á fyrirlestra og tekið þátt í hinum ýmsu uppákomum.
Markmiðið okkar er að vera með metnaðarfulla sýningu sem tekur á flestum þáttum veiðinar og er gert ráð fyrir fjölda gesta á sýninguna sem á að vera upphafið á vertíðinni," segir Sigurður Héðinn stoltur. Hann spyr því næst hvort hann megi telja upp þátttakendur.
Bara endilega. Gjörðu svo vel.
„Vona að ég gleymi engum en þeir eru: Veiðihornið, Veiðiflugur, Flugubúllan, Veiðiportið og Veiðifélagið. Fly Fish Europe, Guideline og fulltrúar frá Loop og Vision verða á svæðinu. Kormákur og Skjöldur verða með sína línu. Friggi, Reiða Öndin og Haugur verða þarna líka. Six River Iceland verða þarna og kynna það sem þeir eru að gera. Einnig verður sýndur verður INEOS Grenadier jeppinn sem er geggjaður veiðibíll, Veiðiportið er með bát á svæðinu. Á sýningunni verður fjöldi veiðileyfissala. NASF verður og bíður uppá að gestir geta fengið sér tattú og rennur allur ágóðinn til þeirra.“
Þeir sem eiga SIMMS Gore-tex vöðlur geta nýtt tækifærið ef þeir þurfa að láta gera við. Fly Fish Europe sem er umboðsaðili SIMMS er með fimm manna teymi á sýningunni sem tekur við vöðlum til viðgerðar. Auðvitað þurfa þær að vera hreinar, merktar og SIMMS.
Búast má við góðum tilboðum á sýningunni á alls konar, hvort sem eru stangir, vöðlur eða hvaða græjur sem er. Þá er rétt að hafa í huga að Silli kokkur mætir með vagninn sinn (veitingastaðinn) og mun selja sinn margverðlaunaða skyndimat.
Kaffi Haugur verður sett upp og þeir sem þurfa sterkara geta komist í það eftir klukkan 15. Haugurinn er nefnilega búinn að hugsa fyrir öllu.
Átján fluguhnýtarar verða á sýningunni og munu sýna og kynna hvað þeir eru að gera.
Sýningin stendur bæði laugardag og sunnudag og opnar klukkan 10 báða daga og er opin til klukkan 18 á morgun laugardag en til klukkan 17 á sunnudag. Miða er hægt að kaupa á stubb.is en einnig verður posi við innganginn.
Flugur og veiði, eða The Icelandic Fly Fishing Show er tileinkuð minningu Jimmy Sjöland, fósturpabba Sigga Héðins sem lést fyrsta dag aprílmánaðar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |