Það var kaldur gluggaveðursdagur sem Ólafur Hilmar Foss og Jose Alvarado fengu á Torfastöðum í Soginu í gær. Það kom þeim ekki á óvart enda Ólafur vel kunnur svæðinu og kallar það sinn heimavöll. Frískleg norðaustanáttin, beint í andlitið var áminning um að veturinn er nýbúinn að segja af sér.
Þetta er annað skiptið sem þeir félagar hafa vitjað bleikjumiða á Torfastöðum. Um miðjan mánuðinn gerðu þeir félagar fína veiði á svæðinu. Lönduðu þá nítján fiskum og var nánast allt bleikja. Stöku birtingur.
Vindkælingin í gær var hressileg. Og það var haft fyrir hlutunum. „Við vorum ekkert að flýta okkur. Byrjuðum ekki fyrr en um hádegi og vissum að þetta yrði kaldur dagur. Vatnsstaðan er óvenju lág miðað við árstíma og rennslið er um 90 rúmmetrar þegar eðlilegt væri allt að 120 rúmmetrar. Við þurftum að hafa svolítið fyrir hlutunum en erfiðinu fylgir yfirleitt ávinningur,“ upplýsti Ólafur í samtali við Sporðaköst.
Ólafur þekkir svæðið afskaplega vel og hans reynsla, sérstaklega á þessum tíma er að minnstu púpurnar gefa helst veiði. Það reyndist þeim félögum vel og þeir fóru alveg niður stærð tuttugu í púpum. Atlas, Blóðormur og heimatilbúin afbrigði gáfu þeim fljótlega fiska. Stærstu púpurnar sem voru að virka voru stærð sextán. Stærri púpur fengu ekki athygli.
Þegar upp var staðið lönduðu þeir félagar fimmtán bleikjum og tveimur fallegum sjóbirtingum. Þykkir geldfiskar. Ekkert mjög stórir en sterkir. Aðspurður um ástandið á bleikjunni svaraði Ólafur því til að hún væri frekar straumlínulöguð á þessum tíma en það vantaði ekki í hana kraftinn eða orkuna.
Fyrstu bleikjunni á Torfastöðum, svo vitað sé landaði Ólafur fimmta apríl. Hann og Jose voru aftur á ferðinni þann 14. og þá lönduðu þeir nítján fiskum. Svo í gær voru þeir með sautján.
Einn hjallur sem veiðimenn þurfa að komast yfir er að nota nógu smáar púpur. Það getur verið erfitt, sérstaklega fyrir byrjendur að hafa trú á þessum agnarsmáu púpum. En það er fiskurinn sem er dómari þessum málum. Þegar púpurnar eru orðnar þetta smáar getur verið gott að þær séu hnýttar á sterka öngla. Bleikjustofninn í Soginu er öflugur og innan um eru alvöru hlussur. Þegar sett er í slíka getur verið gott að vita að krókurinn er öflugur.
Með hlýnandi veðri á næstunni kemst meira líf í bleikjuna og þekkt er að veiðisvæðin Ásgarður og Bíldsfell gefa oft fanta bleikjuveiði á þessum tíma árs. Bestu dagarnir þar hafa í gegnum árin komið þegar vindur er hægur en það er ekki einhlítt. Þá má ekki gleyma Torfastöðum, sem fengið hafa minni athygli í gegnum árin en ljóst að þar getur verið hægt að gera góða hluti.
Veiðin hjá Ólafi og Jose í gær var frábær. Kaldir puttar og dofnar tær, en gleðin og allt hitt var á sínum stað.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |