Hver lax sem Tóti tönn landar bætir óopinbera heimsmetið sem hann á í fjölda veiddra Atlantshafslaxa. Enginn veiðimaður kemst í námunda við Tóta hvað fjölda laxa varðar, nema ef vera kynni Árni Baldursson.
Tóti tönn, Þórarinn Sigþórsson tannlæknir, upplýsir í blaðinu Veiði XIII sem Veiðihornið gaf nýverið út, hver heildartala veiddra laxa hjá honum er. „Ég er búinn að veiða 21.077 laxa, að mér telst til. Þetta er svona heldur rólegra yfir þessu síðustu ár,“ segir Tóti í viðtalinu.
Hann hefur haldið nákvæmt bókhald um alla veidda laxa og færir nýja tölu inn á dagatal í lok hvers árs. Eins og fyrr segir er hann nú kominn með 21.077 laxa. Viðbúið er að hann nái að fylla hundraðið í sumar miðað við það sem hann hefur þegar bókað. Aðspurður í viðtalinu hvort hann ætli að veiða mikið í sumar svarar Tóti. „Já. Ég býst við að ég verði nokkuð duglegur. Það er af sem áður var þegar maður var síveiðandi allt sumarið. Veiðibakterían er þó alltaf á sínum stað og ég þarf að sinna henni.“
Tóti mun líkast til fara í Eystri–Rangá eins og hann hefur gert undanfarin ár og oft gert þar hörku veiði. Þá hefur Urriðafoss í Þjórsá einnig verið á dagskrá og síðast en ekki síst Kjarrá.
Þessi lifandi goðsögn meðal veiðimanna er orðinn 84 ára gamall. Hann er vel á sig kominn og við hestaheilsu. Veiðibakterían er það sterk að hann var fyrsti maðurinn í heiminum sem tók formlega við nýju Sage Spey R8 tvíhendunni sem kom á markað í vetur. Þetta var í janúar og hann beið ekki boðanna heldur fór með hana á Klambratún og prufaði hana.
Eina ógnin sem er til staðar varðandi met Tóta er Árni Baldursson, atvinnuveiðimaður. Hann er að nálgast nítján þúsund laxa og samkvæmt heimildum Sporðakasta stefnir hann á tuttugu þúsunda laxinn árið 2030. Árni er rúmum tuttugu árum yngri en Tóti. Að sama skapi í flottu formi og við hestaheilsu.
Gefum okkur það að Árni nái markmiði sínu um lax númer 20 þúsund árið 2030. Þá vantar hann enn rúma þúsund laxa og líklegast nær 1.500 til að slá Tóta út. Útlitið er ekki bjart fyrir Árna ef við skoðum niðurlag viðtalsins í Veiði XIII. Þar segir hann. „Við erum komin á þann stað að þessi laxastofn okkar er bara leifarnar. Alls staðar í kringum okkur sjáum við hrun í laxastofnum. Mér verður bara hugsað til Árna Baldurssonar vinar míns. Hann var búinn að vera samfellt í hátt í þrjár vikur í fyrra í Skotlandi og á Írlandi áður en hann fékk fyrsta laxinn. Svo eyddi hann öðrum eins tíma í að fá annan. Þetta er ekki orðin nein veiði. Þetta eru bara leifarnar. Því miður.“
Þarna nefnir Tóti vin sinn og keppinaut og víst er að Tóti veit upp á hár hvað Árni Baldursson er að gera þegar kemur að veiði. En vissulega er það rétt hjá Tóta að veiðin er vart svipur hjá sjón nú miðað við það sem var þegar best lét. Besti möguleiki Árna til að bæta metið er að Rússland opnist á nýjan leik og hann komist þar í einhver ævintýri. Nú eða laxastofnar í Atlantshafi hressist en sá möguleiki er því miður ólíklegur.
Báðir þessir magnveiðikappar eru þekkt nöfn í hinum alþjóðlega veiðiheimi. Allir sem stunda laxeiði hafa heyrt um tannlækninn, eða The Dentist. Að sama skapi vita allir hver mister Baldursson er.
Hægt væri að setja þessa miklu veiði þeirra félaga í margvíslega flokka. Hvor hefur fengið fleiri á maðk, eða flugu eða fleiri yfir tuttugu pund? En við höldum okkur bara við heildartöluna og þar er Tóti með afgerandi forystu þó að Árni veiði miklu fleiri daga á ári en sá fyrrnefndi.
Veiðisumarið leggst ekkert sérlega vel í Tóta. Ekki mjög bjartsýnn. Segist raunar ekkert hafa fyrir sér í því. Hann horfi bara til undagenginna ára.
Eins og ávallt þegar viðtöl við Tóta tönn birtast kennir þar margra grasa. Fyrir áhugasama sem vilja lesa viðtalið við meistarann er einfaldast að leggja leið sína i Veiðihornið og ná sér í eintak. Viðtalið er prýtt myndum sem Einar Falur tók í ferð með Tóta í Kjarrá.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |