Hundruð dauðra fiska í þurrum farvegi

Farvegur Grenlæks er þornaður upp á löngum kafla og mikið …
Farvegur Grenlæks er þornaður upp á löngum kafla og mikið af sjóbirtingi drepist eins og gefur að skilja. Hér rann Grenlækur. Enn eru pollar á víð og dreif og í þeim má finna birtinga sem drepast ef fram heldur sem horfir. Ljósmynd/Maros Zatko

Grenlækur er þornaður upp á stórum kafla og hundruð sjóbirtinga hafa drepist. Víða eru fiskar í litlum pollum sem munu þorna og fleiri fiskar drepast á næstu sólarhringum. Þetta er umhverfisslys sem endurtekur sig nokkuð reglulega og síðast gerðist þetta vorið 2021 og þar áður 2016.

Vorið 2021 kom þessi staða upp undir lok maí mánaðar eða í byrjun júní. Á þeim tíma sögðu menn að miklu máli skipti að mikið af stærri fiskinum hefði verið gengið til sjávar og því mögulega hefði hluti stofnsins þá bjargast. Nú er þetta að gerast mánuði fyrr og ljóst að gríðarlegt tjón hefur orðið og líklegast hundruð fiska drepist.

Myndband sem Sporðaköst hefur séð sýnir fiska út um allt dauða í þurrum farvegi. Líklegt er að tjónið nú kunni að vera meira en blasti við vorið 2021.

Sjóbirtingur í grunnum polli í Grenlæk. Maros hefur þegar bjargað …
Sjóbirtingur í grunnum polli í Grenlæk. Maros hefur þegar bjargað nokkrum fiskum en varð frá að hverfa. Þessi fiskur mun drepast á næstu dögum. Einhver rigning er í kortunum en vandséð að hún dugi. Ljósmynd/Maros Zatko

Verra en það var þá

Maros Zatko er staddur við Grenlæk en hann er leiðsögumaður og hefur aðstoðað veiðimenn víða í sjóbirtingsám í vor, eins og hann hefur gert undanfarin ár. 

„Vatnsstaðan nú er lægri en var vorið 2021. Ástandið er verra en það var þá. Ég var að bjarga fiskum þá úr grunnum pollum og hef verið að reyna að gera það hér á hlaupum nú. Nú er tjónið meira óttast ég,“ sagði Maros í samtali við Sporðaköst.

Hann hefur ekki fengið neinn sér til aðstoðar við að bjarga því sem bjargað verður en hvetur áhugamenn um sjóbirting að koma austur ef þeir hafa tíma. Einhver rigning er í kortunum en óvíst hvað hún gerir mikið.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun í júní 2021 á eins vel við nú og þá. Vinsamlegast athugið að þetta er tilkynning frá 2021 en staðan nú er svipuð og jafnvel verri að mati Maros Zatko sem var við björgunarstörf þá og nú. Í júní 2021 skrifaði Hafrannsóknastofnun:

„Und­ir lok maí­mánaðar bár­ust Haf­rann­sókna­stofn­un fregn­ir af vatnsþurrð í Gren­læk í Land­broti. Við vett­vangs­skoðun á Gren­læk, 3. júní kom í ljós að efstu 11 km Gren­lækj­ar á svæðinu ofan við Stóra­foss eru þurr­ir. Þegar er ljóst að vatna­líf hef­ur orðið illa úti vegna vatnsþurrðar­inn­ar nú, hafa þör­ung­ar, smá­dýr og fisk­ar drep­ist á öllu því svæði sem þornaði. Sér­stak­lega hef­ur sjó­birt­ings­stofn­inn orðið illa úti, þar sem nær öll seiði á svæðinu hafa drep­ist og þar með 2-3 seiðaár­gang­ar.

Síðar mun koma í ljós hve al­var­leg­ur skaði hef­ur orðið á full­orðnum sjó­birt­ing­um, en lík­ur eru til að hluti stærri fiska hafi náð að forða sér neðar í læk­inn þar sem vatn er enn til staðar. Far­veg­ur lækj­ar­ins var að mestu skraufþurr og sást lítið sem ekk­ert vatn utan ein­staka þorn­andi smá­polla. Í stöku polli var að sjá lif­andi fiska og ljóst að þeir eiga ekki langra lífdaga að vænta, taki vatn ekki fljót­lega að renna að nýju.

Fiskur kominn í háfinn hjá Maros og svo er honum …
Fiskur kominn í háfinn hjá Maros og svo er honum skellt í poka með vatni og sleppt neðar í læknum þar sem vatn rennur enn. Ljósmynd/Maros

Einn stærsti stofn landsins

Gren­læk­ur er frjó­sam­ur lind­ar­læk­ur með ríku­legu líf­ríki. Þar er einn stærsti sjó­birt­ings­stofn lands­ins og þar eru mjög verðmæt veiðihlunn­indi. Vatns­bú­skap­ur Gren­lækj­ar er háður því að nægi­legt vatn flæði úr Skaftá og út á Eld­hraunið en ef svo er ekki þá á rennsli Gren­lækj­ar til með að þrjóta. Rennsl­inu út á Eld­hraun er stýrt.

Á því svæði sem nú er á þurru eru ein helstu hrygn­ing­ar- og upp­eld­is­svæði sjó­birt­ings í lækn­um. Árið 2016 var sam­bæri­leg vatnsþurrð í Gren­læk en þá var hluti sjó­birt­ings­stofns­ins geng­in til sjáv­ar og skilaði sér til baka síðsum­ars og um haustið til hrygn­ing­ar eft­ir að vatn var aft­ur tekið að renna. Í Gren­læk er starf­rækt­ur fisktelj­ari sem mun svara þeirri spurn­ingu hversu marg­ir fisk­ar koma til með að skila sér og þar með hversu al­var­legt ástand stofns­ins er.

Finna þarf leiðir sem til fram­búðar tryggja háa grunn­vatns­stöðu í hraun­um á svæðinu svo vatns­rennsli til lind­ar­vatna verði nægt til að viðhalda vatns­rennsl­inu og því ríku­lega líf­ríki og fisk­gengd sem þar er að finna.“

Notast við það sem hendi er næst. Svartur ruslapoki dugði …
Notast við það sem hendi er næst. Svartur ruslapoki dugði að þessu sinni. Maros segir ljóst að ekki sé hægt að bjarga öllum fiskinum en allt hjálpar að hans mati. Ljósmynd/Maros

Eins og fyrr segir var þetta skrifað 2021 og virðist eiga við einnig núna. Ekki hefur tekist að finna leiðir til frambúðar til tryggja háa grunnvatnsstöðu.

Það sem gerir þetta mögulega alvarlegra nú en árið 2021 er að þetta gerist fyrr að vori og því mikið af fiski enn í læknum og ekki gengið til sjávar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert