Örn Hjálmarsson og félagi hans fengu allt litrófið, bæði í veiði og veðri þegar þeir veiddu Hlíðarvatn í Selvogi í gær. Þeir byrjuðu að kvöldi miðvikudags og fréttu að menn hefðu verið að gera góða veiði og sérstaklega var Blóðormur nefndur við þá. En einmitt þegar þeir voru að byrja var hann farinn að blása og ekkert gerðist. „Þegar fer að blása og ætið fer frá landi þá fer hún bara dýpra og kíkir á kuðunga og eitthvað svoleiðis,“ sagði Örn Hjálmarsson í samtali við Sporðaköst um hádegi í gær.
Morguninn var frekar erfiður en þeir kroppuðu upp nokkra fiska og ein falleg bleikja tók Langskegg. „Ég var búinn að kasta Pheasant Tail og Króknum og ýmsu. Svo setti ég undir Langskegg með kúlu og hún negldi hann. Ég hef það fyrir sið að sleppa alltaf fyrsta fiskinum sem ég fæ í Hlíðarvatni og þessi var óheppin. Hún var númer tvö. Vigtaði 2,2 kíló og svona líka fullkominn fiskur.“ Örn var sáttur með veiðina en sagði að þeir ætluðu bara aðeins að prófa fram til fimm því að þá þyrftu þeir að standsetja húsið og skila af sér klukkan sex.
Það var einhver tilfinning í gangi hjá blaðamanni þannig að hann kvaddi Örn með þeim orðum að skila fréttum þegar þeir væru hættir.
Rétt um klukkan sex hringdi Örn til baka. „Þetta endaði með ósköpum.“
Hvað ertu að segja? Eitthvað vesen?
„Nei. Við lentum bara í moki.“
Það var enn töluverður vindur þegar þeir lögðu í lokahnykkinn og við Mosatanga fóru þeir undan vindinum. Sem þeir fikruðu með ströndinni braust sólin í gegn og aðeins hægði. Örn sá uppítökur fljótlega og skellti undir flugu sem hann hannaði. Teppahreinsarinn heitir hún og er eftirlíking af toppflugupúpu. „Það var bara strax. Ég var með langan taum og dró örhægt í yfirborðinu og þær negldu þetta. Eftir að ég var búinn að landa þremur vildi félagi minn fá svona flugu. Hann er mikill Pheasant Tail maður en vildi prófa Teppahreinsarann og við voru bara í stanslausri veiði þar til við hættum. Lönduðum þarna á stuttum tíma 28 bleikjum. Þetta var svo æðislegt. Það eru oft bestu túrarnir sem byrja erfiðlega og svo gengur þetta upp í lokin.“
Örn var alveg í skýjunum með túrinn. En hvaðan kemur þetta undarlega nafn Teppahreinsarinn. Örn fer að hlæja og segir að það eigi Tómas Skúlason í Veiðiportinu skuldlaust. „Við vorum einhvern tímann að fara að veiða og Tommi var seinn fyrir. Ég hringdi í hann til að tékka á honum. Þá hafði komið viðskiptavinur inn í búðina í olíuskítugum skóm. „Ég hangi bara hérna á teppahreinsaranum að reyna að laga þetta,“ sagði Tommi. Ég sagði honum að ég hefði verið að hnýta nýja púpu og við þyrftum að prófa hana. „Já. Hún heitir Teppahreinsarinn,“ hló Tommi. Og það nafn bara festist við hana.“ Erni leiðist ekki þessi saga.
En þetta er raunar ekki eina flugan eftir Örn Hjálmarsson sem Tommi hefur gefið nafn. Þegar Örn hafði hnýtt Langskegg í fyrsta skipti býsnaðist Tommi mikið yfir því að skeggið væri allt of langt. Þetta þýddi ekkert og væri bara vitlaus hönnun. „Þar til að hann fékkst til að kasta henni. Þá rótveiddi hann á hana í fyrstu ferðinni. Eftir það var ekki við annað komandi en hún fengi nafnið Langskeggur.“
Vatnaveiðin er nú víða komin á fullt og veiðimenn keppast við að birta myndir af fallegum silungum. Elliðavatnið hefur verið að gefa fallegar bleikjur innan um og sömu sögu er að segja af Vífilsstaðavatninu. Vorveiðin í silungnum efst í Elliðaánum er hafin og þeim fjölgar sífellt svæðunum þar sem veiðimenn er byrjaðir að ná sér í soðið eða ekki.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |