Regnbogar úr eldi veiðast í Vatnsdalsá

Regnbogasilungur sem veiddist á silungasvæði Vatnsdalsár um helgina. Hann er …
Regnbogasilungur sem veiddist á silungasvæði Vatnsdalsár um helgina. Hann er nú í frosti hjá Hafrannsóknastofnun og verður rannsakaður strax eftir helgi. Ljósmynd/Aðsend

Á fyrstu dögum veiðitímans á silungasvæðinu í Vatnsdalsá hafa veiðst þrír regnbogasilungar. Einn þessara fiska er kominn í hendur Hafrannsóknastofnunar og niðurstöður úr rannsókn á honum mun liggja fyrir í næstu viku.

Guðni Guðbergsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun staðfestir að til stofnunarinnar hafi borist regnbogasilungur sem veiddist á silungasvæði Vatnsdalsár. „Já. Það fer ekki á milli mála að þessi fiskur er ættaður úr eldi. Það er ekki vitað til þess að regnbogasilungar tímgist í ám hér á landi,“ segir Guðni í samtali við Sporðaköst.

Í framhaldi af þessu tilkynnti Guðni þetta til bæði Fiskistofu og Matvælastofnunar eða MAST. Þar á bæ hafa þegar verið sendar fyrirspurnir til þeirra fyrirtækja sem ala regnbogasilung í sjókvíum.

Björn K. Rúnarsson sem er í forsvari fyrir leigutaka Vatnsdalsár segir að vissulega hafi það komið fyrir að regnbogasilungur hafi veiðst í ánni. Það hafi þó gerst afar sjaldan og þá verið stakir fiskar og liðið ár á milli slíkrar veiði. „Nú eru þeir þrír á sex dögum. Þá hrekkur maður í kút og allar viðvörunarbjöllur fara í gang. Við vitum ekki stöðuna.

Tveir fiskar veiddust í fyrsta holli á silungasvæðinu og einn í næsta holli. Áin fór í vöxt og litaðist og vitum ekki hvert framhaldið verður. Þetta voru allt hrygnur og auðvitað er líklegast að þetta sé úr eldi hér við land. Þetta staðfestir enn og aftur það sem allir vita að fiskur í sjókvíum sleppur reglulega. Nú er ekki verið að veiða í nema örfáum ám en maður spyr sig eru þessir fiskar komnir víðar? Þetta er algerlega óþolandi staða svo ekki sé nú fastar að orði kveðið," upplýsti Björn í samtali við Sporðaköst.

Regnbogasilungarnir sem veiddust í opnunarhollinu á silungasvæðinu í Vatnsdalsá. Allir …
Regnbogasilungarnir sem veiddust í opnunarhollinu á silungasvæðinu í Vatnsdalsá. Allir þessir fiskar eru af svipaðri stærð. Í kringum sextíu sentímetrar, að sögn veiðimanna. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Guðbergsson segir að ekki sé hægt að rekja uppruna regnbogasilunga með sama hætti og þegar um lax í sjókvíum er að ræða. „Regnboginn er vorhrygnandi og þeir eiga að vera geldir. Hrognin koma frá Danmörku og hafa verið þrýstimeðhöndluð til að tryggja það. Þá eiga þessir fiskar að sama skapi að vera hrygnugerðir þannig að þó að sjáist í þeim hrogn þá þroskast þau ekki.“

Guðni segist ekki vita til þess að tilkynnt hafi verið um slysasleppingu á regnboga, en segir að oft sé eldur þar sem reykur sjáist. „En við munum rannsaka fiskinn og fáum vonandi hina tvo líka og málið er komið í farveg hjá réttum aðilum,“ og vitnar þar til þess að Fiskistofa og MAST eru upplýst um málið.

Grannt verður fylgst með stöðu mála í Vatnsdalsá næstu daga. 

Sporðaköst óska einnig eftir því ef að netabændur, hvar sem er við ströndina eða í vötnum með aðgangi að sjó, sem veiða slíka fiska, komi upplýsingum um þá og myndum til Sporðakasta á netfangið eggertskula@mbl.is. Rétt er að benda á að allir sem veiða regnbogasilunga ættu að koma þeim til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka