Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar var stærð hrygningarstofns villta laxins við Ísland um tuttugu þúsund fiskar í haust, að afloknum veiðitíma. Það er einn minnsti hrygningarstofn sem mælst hefur og töluvert undir meðaltali aftur til ársins 1971, sem er tæpir fjörutíu þúsund laxar. Stofnunin kynnti þetta mat sitt á aðalfundi Landssambands Veiðifélaga sem haldinn var í Húsafelli síðari hluta aprílmánaðar. Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun staðfesti þetta mat í samtali við Sporðaköst og bætti við. „Við töldum þá ekki en þetta er okkar mat að gefnum ákveðnum forsendum,“ upplýsti Guðni.
En hvernig líst Guðna á nýtt frumvarp um fiskeldi í sjó, sem nú er í meðförum þingsins?
„Það er eins og alltaf er, þegar menn leggja af stað með góða meiningu. Það á eftir að koma í ljós hvernig til tekst með framkvæmdina. Það er verið að bæta í og auka heimildir eftirlitsaðila. Það er verið að auka ábyrgð eldisaðilanna sjálfra. Það er verið að setja inn refsiákvæði í lögin. Langtímareynslan frá öðrum löndum er að sýna að hátt í einn fiskur á hvert framleitt tonn er að sleppa úr sjókvíum. Reynslan hér, á Vestfjörðum held ég að sé 0,54 fiskar sem tilkynnt hefur verið um af fyrirtækjunum sjálfum,“ segir Guðni í samtali við Sporðaköst.
Hann segir jákvætt í alla staði, bæði fyrir greinina og hið villta umhverfi að verið sé að uppfæra regluverkið í kringum sjókvíaeldi. Hann bætir við. „Hversu langt það dugar til veit ég ekki og það á eftir að koma í ljós. En reynslan sýnir að þegar fiskar eru í netpokum í sjó að þá er alltaf ákveðin áhætta til staðar.“
Hlutfallið í Noregi hefur verið að lækka, það er hlutfall strokulaxa miðað við hvert framleitt tonn af laxi. Síðustu ár er hlutfallið talið vera í kringum 0,3 lax á hvert tonn. Þar hefur verið hert á reglum en á sama tíma getur slíkt virkað sem hvati til að segja ekki frá sleppingum. Rétt er að hafa í huga að hlutfallið einn lax eða 0,54 er tölfræði og byggir á meðaltali.
Framleiðsla á laxi í sjókvíum við Íslandi stefnir í ríflega fjörutíu þúsund tonn í ár og uppi eru hugmyndir um að auka framleiðsluna verulega. Jafnvel meira en að tvöfalda hana.
Miðað við mat ykkar á hrygningarstofninum, um tuttugu þúsund fiskar í haust sem leið, þá getum við átt von á að tvöfalt fleiri laxar sleppi úr sjókvíum árlega?
„Já. Ef að við lendum í sömu tölfræði og við höfum verið að sjá í öðrum löndum. En þetta hlutfall hefur verið lækkandi í Noregi vegna betri búnaðar og meira aðhalds. Við höfum verið í hlutfallinu 0,54 per framleitt tonn þegar miðað er við tilkynnt strok á Vestfjörðum. Og miðað við það þá erum við í svipaðri tölu og heildar hrygningarstofninn, já.“
Þetta er galin staða.
„Þín orð.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |