Laxveiðin í sumar - „Í góðu meðallagi“

Fyrsti laxinn mun væntanlega veiðast í Urriðafossi í Þjórsjá eftir …
Fyrsti laxinn mun væntanlega veiðast í Urriðafossi í Þjórsjá eftir hálfan mánuð. Hér fagna Stefán Sigurðsson og Harpa Hlína Þórðardóttir þeim fyrsta sumarið 2022. Einmitt úr Urriðafossi. Landeigandinn Haraldur Einarsson er sáttur. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Færustu vísindamenn Hafrannsóknastofnunar á sviði ferskvatnsfiska gerðu grein fyrir horfum í laxveiði í sumar á fundi stofnunarinnar í morgun. Yfirskriftin var Upptaktur að veiðisumri og niðurstaðan, þegar allt er tekið inn í myndina er, „Í góðu meðallagi,“ sagði Hlynur Bárðarson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun í niðurlagi kynningar sinnar um Laxveiði og veiðihorfur sumarið 2024.

Vissulega er þessi samantekna niðurstaða fyrst og fremst þegar horft er til smálax á Vesturlandi en raunin hefur verið síðustu ár að fjöldi þeirra ræður því gjarnan hvar veiðiárið flokkast í samanburði við önnur ár. 

Skýrasta vísbendingin sem vísindamenn eru að horfa til er hitastig sjávar úti fyrir suðvesturlandi síðastliðinn júlímánuð. Við höfum fjallað um einmitt þessa stöðu í Sporðaköstum og í fyrra voru skilyrði hagstæð fyrir gönguseiði sem héldu til fæðuleitar á þetta svæði. Hitastigið var það hagfelldasta í nokkur ár og gefur vonir um að smálax skili sér í meira magni en undanfarin ár.

Í ljósi samhengis milli smálaxafjölda og fjölda stórlaxa ári síðar er ekki útlit fyrir mikið stórlaxaár í sumar og að sama skapi eru margir með hóflegar væntingar þegar kemur að vorveiðinni. En það er svo skrítið með þessi fræði að þau skýrast aldrei fyrr en eftir á. Við eigum því að búast við þokkalegri veiði en vonast eftir því að hún verði góð, já jafnvel bara mjög góð. Vonin er sterkasta vopn veiðimannsins.

Leó Alexander Guðmundsson flutti erindi um Strokulaxa úr kvíaeldi, þar sem hann fór meðal annars yfir stóru slysasleppinguna í fyrra, þegar á fjórða þúsund laxar sluppu úr kví Arctic Fish í nágrenni Patreksfjarðar.

Eitt af því sem Leó brýndi fyrir veiðimönnum er að vera vakandi fyrir því í sumar hvort fiskar með eldiseinkenni veiðist. Hika þá ekki við að koma þeim til Hafrannsóknastofnunar til greiningar. Var helst að skilja á Leó að svo gæti verið að von væri á þessum löxum í sumar. Kemur það heim og saman við það sem norsku kafararnir sögðu í samtali við Sporðaköst í fyrrahaust að þessir fiskar hegðuðu sér með ýmsu og jafnvel ólíku móti og þegar horft er til villta laxins. Veiðimenn ættu því að skoða fiskana sína vel með þetta í huga áður en þeir fá frelsi á nýjan leik.

Hrygningarstofn smálax er kominn niður fyrir þau mörk sem teljast ásættanleg og er það í fyrsta skipti. Þetta ætti að verða veiðimönnum og öðrum þeim sem að laxveiðinni koma að endurhugsa hvort rétt sé að sleppa smálaxinum líka. Víða er miðað við að drepa megi einn smálax á dag á stöng en sleppa öllum stórlaxi. Þegar hrygningarstofn smálax er orðinn undir viðmiðunarmörkum er það áhyggjuefni og kallar á að endurhugsa þetta. 

Vel var mætt á fund Hafrannsóknastofnunar í morgun. Hér flytur …
Vel var mætt á fund Hafrannsóknastofnunar í morgun. Hér flytur Hlynur Bárðarson, líffræðingur erindi sitt um veiðihorfur fyrir sumarið 2024. Ljósmynd/Sporðaköst

Í á sem við tökum sem dæmi eru tíu stangir. Einungis er heimilt að drepa einn smálax á dag á stöng. Segjum að allar stangir fái smálax á hverjum degi í þriggja daga holli. Þeir eru allir drepnir. Það jafngildir þrjátíu smálöxum. Tíu á dag. Veitt er í níutíu daga. Fullnýttur kvóti er níu hundruð smálaxar. Ef þessu yrði breytt í einn lax á stöng í þriggja daga holli myndi fullnýttur kvóti fara úr níu hundruð niður í þrjú hundruð laxa. Eitthvað sem er umhugsunarvert í besta falli.

Staða Atlantshafslaxins er alvarleg. Fjölmörg línurit voru birt á fundinum og þau voru um ýmiskonar hluti frá mörgum löndum. Öll sýndu þau sveiflur og jafnvel miklar sveiflur hin síðari ár. Það sorglega er hins vegar að þau vísa öll niður á við til lengri tíma litið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert