Fundu óvart nýja veiðistaði í Stóru

Magnús Stephensen klöngrast niður í gljúfrið til að veiða Uppgöngugil. …
Magnús Stephensen klöngrast niður í gljúfrið til að veiða Uppgöngugil. Þeir vissu að þeir áttu að fara niður lækjarfarveg. En þeir voru komnir allt of langt upp með ánni. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

Laxar sem veiddust í september í fyrra í Stóru–Laxá eru líkast til þeir laxar sem veiðst hafa lengst frá sjó á Íslandi. Veiðistaðurinn var óþekktur og villtust veiðimenn ofar en áður hefur verið farið. Laxana veiddu þeir í 108 kílómetra fjarlægð frá sjó, nokkuð fyrir ofan Uppgöngugil á efsta svæði Stóru–Laxár.

Það hefur verið viðtekin venja að tala um að hvergi veiðist lax ofar en á Tvídægru þar sem Kjarrá á upptök sín. Veiðistaðirnir Svartistokkur og Starir hafa verið sveipaðir þessari dulúð um langa hríð. Svo eftir að Jökla fyrir austan varð tær hafa laxar veiðst þar allt að áttatíu kílómetra frá sjó. Þær fregnir eru ekki staðfestar en trúlegar.

Það heyrir sögunni til að nýir veiðistaðir finnist í rótgrónum laxveiðiám á Íslandi. Vissulega geta vorflóð breytt stöðum en þeir eru þá á áður þekktu svæði. En að finna nýjan veiðistað og það sem meira er, nýtt veiðisvæði er liðin tíð. Nema í Stóru–Laxá.

Þeir lentu í fínni veiði og lönduðu fimm bolta löxum. …
Þeir lentu í fínni veiði og lönduðu fimm bolta löxum. Sá stærsti var 103 sentímetrar en sá minnsti 74. Svo var mikið af fínum urriða. Þeim fannst skrítið að sjá engin fótspor. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

Þeir Haraldur Eiríksson, kenndur við Kjósina og félagi hans Magnús Stephensen fóru upp á gamla fjórða svæðið í Stóru þann 10. september í fyrra. Ferð var heitið í Uppgöngugil sem er efst á svæðinu. Þeir fengu leiðbeiningar og var leiðin stikuð og svo áttu þeir að koma að læk þar sem hægt er að klöngrast niður að ánni í hin djúpur Laxár gljúfur þar efra. Slitrótt símasamband er þarna upp frá og þegar þeir höfðu ekið í drjúga stund var hringt og leitað eftir betri upplýsingum um hvar þeir ættu að fara niður. Eins og fyrr segir var sambandið slitrótt en þó fór svo á endanum að þeir komu að læk sem féll niður gljúfrið og í Stóru–Laxá. Þeir töldu sig hafa fundið staðinn þar sem hægt er að komast til veiða í Uppgöngugili.

Hér er smá útúrdúr. Fyrir þá sem þekkja veiðiþættina sem sýndir voru á Stöð 2 á sínum tíma og heita Sporðaköst, má finna þátt þar sem farið er til veiða í Uppgöngugili í Stóru–Laxá. Í þættinum er farið hinu megin niður miðað við það sem menn gera nú.

Áin var óvenju vatnsmikil eða 25 rúmmetrar. Þeir komust því …
Áin var óvenju vatnsmikil eða 25 rúmmetrar. Þeir komust því bara á tvo veiðistaði. Áttu ekki möguleika á að komast upp gilið og því síður niður. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

„Já. Við fundum þetta loksins,“ hlær Halli í samtali við Sporðaköst. „Eða við héldum það. Það verður bara að viðurkennast að þetta var all svakalegt að fara þarna niður. En þegar við komum að ánni blöstu við okkur tveir mjög flottir veiðistaðir. Við sáum töluvert magn af fiski í þeim báðum og þarna var líka mikið af urriða. Við lönduðum þarna fimm flottum löxum. 103 sentímetra hæng, 90 sentímetra hrygnu og síðasti laxinn sem við lönduðum var minnstur. Það var smálax sem mældist 74 sentímetrar.“

Halli og Maggi eru báðir hluthafar í Bergsnös ehf sem leigir Stóru–Laxá. Stærsti hluthafinn er Finnur Harðarson og sá sem sér um reksturinn. Var það fyrst og fremst tal Finns um flotta staði þarna allra efst í ánni sem dró þá félaga af stað í þennan leiðangur. En þeir gátu sem sagt staðfest að Uppgöngugil er magnaður veiðistaður. Vissulega mjög erfitt að fara þarna niður. Hér fyrir neðan er linkur á fréttina sem flutt var af hundraðkallinum sem Magnús veiddi í Uppgöngugili en annað átti eftir að koma á daginn.

Svo gerðist það í vor eftir að stórfiskasegullinn Hrafn H. Hauksson var ráðinn staðarhaldari í Stóru–Laxá að Halli fór að ræða við Hauk um Uppgöngugil. „Kennileitin sem við vorum að tala um pössuðu bara alls ekki. Við vorum ekki að tala sama tungumál. Ég hafði tekið mikið af myndum þegar við Maggi veiddum svæðið. Þegar við fórum að bera þær saman við loftmyndir og aðrar myndir sem við höfðum kom í ljós að við höfðum verið að veiða miklu ofar og ofan við foss sem við höfðum talið ólaxgengan. Þetta náttúrulega kveikti í okkur öllum og nú er komið í ljós að við vorum að veiða það sem heitir að öllum líkindum Svartagljúfur, rétt neðan við Fögrutorfu. Þar nokkuð fyrir ofan er svo ólaxgengur foss.“ Hér er Halla orðið mikið niðri fyrir. 

„Við vorum einmitt að furða okkur á því að það voru engin spor sjáanleg þarna upp frá. Ólaxgengi fossinn sem við héldum, er efst í Uppgöngugilinu en við vorum langt fyrir ofan það.“

Þarna niður fóru þeir. Það er ekki hægt að velja …
Þarna niður fóru þeir. Það er ekki hægt að velja úr leiðum og virkar á þessari mynd eins og þetta sé bara fyrir fuglinn fljúgandi eða fiskinn syndandi. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

Sporðaköst settu sig í samband við Finn og Esther Guðjónsdóttur formann veiðifélagsins og báðu þau um að finna út hvað þetta væri löng leið fyrir laxinn að fara. Esther sendi svo nokkru síðar að frá ósi Ölfusár/Hvítar upp að ósi Stóru–Laxár við Iðu væru 64 kílómetrar. Frá Iðu að Fögrutorfu eru 45 kílómetrar eða samtals 109 kílómetrar. Staðurinn sem Halli og Maggi veiddu er um kílómetra fyrir neðan Fögrutorfu. Eða í 108 kílómetra fjarlægð frá sjó.

„Ef þetta er met, sem ég er viss um þá mun það ekki standa lengi. Ég ætla mér að komast í Fögrutorfu í sumar,“ hlær Finnur. Hann segist hafa heyrt af mönnum sem fengið hafi lax í Fögrutorfu en það sé ekki staðfest. „En hver fer að búa svona sögur til? Örugglega verið veiðiþjófar á sínum tíma.“

Þegar niður var komið voru þetta magnaðir veiðistaðir. En þeir …
Þegar niður var komið voru þetta magnaðir veiðistaðir. En þeir voru ekki að veiða Uppgöngugil. Líkast til er þetta Svartagljúfur töluvert langt fyrir ofan Uppgöngugil. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

Finnur ætlar sér að selja veiðileyfi á þetta „nýja svæði“ í sumar. Seldar verða tvær stangir og fylgir leiðsögumaður með. Þarna verður byrjað að veiða 10. júlí og fram í lok september. „Við stillum verðinu í hóf og erum mikið að horfa til jafnvel yngri veiðimanna sem eru fyrst og fremst í silungi af því að laxveiðileyfin eru það dýr.“

Verð á stöng á dag er 75 þúsund krónur og innifalið í því er leiðsögumaður á stangirnar tvær. Veitt er frá 9 til 20 og ekkert hlé tekið. Eingöngu er veitt á flugu og öllum fiski sleppt. Þá tekur Finnur fram að milli holla er svæðið hvílt í einn dag.

Enn ofar er svo þessi staður. Fagratorfa. Allar líkur eru …
Enn ofar er svo þessi staður. Fagratorfa. Allar líkur eru á að lax fari þangað. Enn þá ofar er svo foss sem sannarlega er laxgengur og þar vill Finnur setja upp fiskveg. Ljósmynd/Finnar B. Harðarson

En Finnur er með frekari hugmyndir til lengri tíma á svæðinu. Hann vill gera fossinn ofan við Fögrutorfu fiskgengan og þá opnast víðáttumikið svæði til margra átta, alveg upp að Grænavatni í nágrenni Kerlingafjalla og einnig áhugaverðar hliðarár eins og Leirá sem 25 kílómetra löng. Heildarlengd Stóru–Laxár frá Grænavatni að Iðu þar sem hún sameinast Hvítá eru 90 kílómetrar. En þær langtímaáætlanir eru enn ekki fullmótaðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert