Barist fyrir björgun laxins - myndband

Six Rivers Iceland, félagið sem heldur utan um helstu laxveiðiár á norðausturlandi og er í eigu Jim Ratcliffe standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um stöðu og aðgerðir til verndar Atlantshafslaxinum. Ráðstefnan verður haldin á Vopnafirði og er það nýlunda. Þetta er fjórða ráðstefnan um málefnið en fram til þessa hefur hún farið fram í Reykjavík.

Með þessari frétt fylgir mynd sem SRI lét gera um stöðu laxins, þær aðgerðir og rannsóknir sem verið er að ráðast í til að bjarga þessum einstaka fiski – Atlantshafslaxinum. Myndin er allt í senn fræðslumynd, náttúrulífsmynd og heimildamynd um stöðu og aðgerðir. Myndin er á ensku enda rætt við alþjóðlegan hóp sérfræðinga og vísindamanna. Myndin er birt með leyfi SRI.

Félagið Six Rivers Iceland flokkar sig nú orðið sem náttúruverndarsamtök en félagsskapurinn var stofnaður af Sir Jim Ratcliffe, stofnanda og stjórnarformanni INEOS.

Alþjóðlega ráðstefnan á Vopnafirði verður 31. maí næstkomandi. Umfjöllunarefnið verður eins og fyrr segir, staða og aðgerðir til verndar Atlantshafslaxinum. Í fréttatilkynningu frá SRI um ráðstefnuna segir.

„Ráðstefnan, sem er sú fjórða í röðinni og hefur til þessa verið haldin í Reykjavík, fer nú í fyrsta sinn fram á Vopnafirði. Verður þar fjallað um verndaraðgerðir á Íslandi í alþjóðlegu ljósi.

Á ráðstefnunni koma saman allir helstu hagaðilar, bæði heimamenn og aðrir innanlands auk fremstu laxasérfræðinga frá Íslandi, Noregi og Bretlandi. Fjallað verður um hnignun laxastofnsins hvarvetna við Norður-Atlantshaf, en stærð stofnsins er komin niður í fjórðung af því sem var á áttunda áratugnum.

Horft verður til aðgerða Six Rivers Iceland til að vernda og styðja við afkomu laxins hér í ljósi þessarar alþjóðlegu hnignunar og nýrra þátta sem ógna afkomu stofnsins – með áherslu á fyrirliggjandi verkefni um að bjarga laxinum frá brún útrýmingar.

Af umfjöllunarefnum má nefna: „Spegla íslenskir laxastofnar hnignunina á heimsvísu?“, „Verndun sem nær yfir vatnasvið hjá Six Rivers Iceland og í Norðvestur-Skotlandi“ og „Hver er reynsla Norðmanna af nýjum hættum sem að villta laxinum steðja, frá sjókvíaeldi og hnúðlaxi?“.

Á meðal þeirra sem til máls taka eru leiðandi sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun, Norsku náttúrufræðistofnuninni (NINA), Norska vísinda- og tækniháskólanum (NTNU), og umhverfissamtökunum Atlantic Salmon Trust, auk fremstu sérfræðinga Six Rivers Iceland. Sir Jim Ratcliffe, stofnandi og stjórnarformaður INEOS, hefur um árabil verið einn öflugasti bakhjarl verndunar laxa á Íslandi, en hann stofnaði til verndarstarfs Six Rivers Iceland árið 2019.

Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe opna Selá sumarið 2019. …
Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe opna Selá sumarið 2019. Félag Ratcliffe boðar til ráðstefnu um alvarlega stöðu laxins í Atlantshafi. Einar Falur Ingólfsson

Sir Jim Ratcliffe, stofnandi og stjórnarformaður INEOS:

„Tilvist Atlantshafslaxins er ógnað. Með því að leiða saman fremstu sérfræðinga heims á sviði verndunar sem vinna að sama marki ætlum við að deila þekkingu og úrræðum til að grípa inn í hnignun laxins áður en það verður um seinan. Six Rivers Iceland var stofnað með það í huga að vinnan myndi halda áfram árum saman með áframhaldandi samstarfi – en meira þarf til að koma.“

Six Rivers Iceland leggur áherslu á verndun bæði lands og vistkerfis nokkurra áa Norðurausturlands og að styðja viðgang laxastofna þeirra. Verkefnið er metnaðarfullt að umfangi og felur í sér umtalsverða fjárfestingu bæði í beinum verndaraðgerðum og langtímarannsóknum svo staðinn verði vörður um eitt af síðustu svæðunum þar sem Atlantshafslaxinn dafnar. Vonir vísindamanna sem vinna að verndarverkefni Six Rivers Iceland standa til þess að uppgötva hvernig styðja má við og efla stofn Atlantshafslaxins. Starfið á Norðausturlandi fer fram í óspilltum ám svæðisins, en bæði árnar og vatnasvæði þeirra eru þannig frá náttúrunnar hendi að það auðveldar rannsóknir á laxinum. Lærdómur sem dreginn er af rannsóknum hér styður svo við aðgerðir til að snúa við heildarhnignun laxastofnsins í heiminum. Þekkingu héðan er deilt víðar og kemur að gagni um heim allan. Öll vinna verndarstarfsins fer fram í nánu samstarfi við bændur og nærsamfélagið. Starfsemi Six Rivers Iceland er fjármögnuð beint af Sir Jim Ratcliffe auk tekna af einstakri stangveiðiupplifun, þar sem reglan er að öllum veiddum fiski er sleppt aftur.

Feðgar í laxveiði í Hofsá. Þeir Gísli Ásgeirsson og Óskar …
Feðgar í laxveiði í Hofsá. Þeir Gísli Ásgeirsson og Óskar Hængur dást að laxi í þann mund sem hann fær frelsi á ný. Ljósmynd/Gísli Ásgeirsson

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Iceland: „Six Rivers Iceland er langtímaverkefni sem ætlað er að hafa til framtíðar jákvæð áhrif á bæði svæði og samfélag. Vinnan hefur farið vel af stað en vitanlega er mun meira sem gera þarf. Okkar von er því að stjórnvöld víðast hvar bregðist við þeim ógnunum sem að laxinum steðja og leggist á árar með okkur.““

Six Rivers Iceland eru með á leigu og reka árnar, Selá, Hofsá, Sunnudalsá, Vesturdalsá, Miðfjarðará í Bakkafirði og Hafralónsá. Viðamikil uppbygging er ýmist hafin eða ráðgerð í tengslum við þessi vatnasvæði. Bygging veiðihúsa og breyttar veiðireglur eru hluti þess sem veiðimenn verða varir við. Rannsóknarstarf fer orðið fram í og við hluta þessara áa árið um kring.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka