Laxavaktin: „Þeir eru komnir“

Svona lítur Blanda út í dag. Vatnsmikil og græn slikja …
Svona lítur Blanda út í dag. Vatnsmikil og græn slikja á henni. En vel veiðanleg. Sá fyrsti sást í Dammi suður áðan. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson

Höskuldur B. Erlingsson, veiðimaður, veiðileiðsögumaður og lögregluþjónn, eða Höski lögga eins og hann er gjarnan kallaður tók sér göngutúr síðdegis upp með Blöndu að sunnanverðu. „Bara um leið og ég kom fram á bakkann þá sé ég flottan fisk lyfta sér upp og sá greinilega bak og sporð. Hann hefur verið fjórtán til sextán pund. Þetta var í Dammi suður, einmitt á þeim stað þar sem maður sér þá oftast fyrst á vorin. Þeir eru mættir,“ sagði skælbrosandi og kátur Höskuldur í samtali við Sporðaköst nú síðdegis.

Fyrsti veiðidagur í Blöndu er þann 5. júní þegar neðsta svæðið opnar. Það er bara eftir nokkra daga eða miðvikudag í næstu viku. Í millitíðinni opnar Urriðafoss og þann fjórða opnar Norðurá.

Afar forvitnilegt verður að fylgjast með opnun í Blöndu en hún hefur átt undir högg að sækja síðustu ár og ekki komið það gott sumar frá því að maðkurinn var bannaður. Margir sakna þess tíma meira en orð fá lýst.

Blanda er vatnsmikil og græn slikja á henni. En mjög veiðileg.

Dulsar í Laxá á Ásum þann 29. maí. Sturla sá …
Dulsar í Laxá á Ásum þann 29. maí. Sturla sá tvo laxa í veiðistaðnum þann dag og hann man ekki eftir að hafa séð lax svo snemma í Ásunum. Ljósmynd/Sturla Birgisson

Óvenju snemma í Ásunum (29. maí)

Fyrstu laxarnir sáust fyrr í dag í Laxá á Ásum. Sturla Birgisson, sem sér um rekstur Ásanna var ásamt tveimur öðrum að skoða stöðuna á ánni þegar hann og ferðafélagar sáu tvo laxa. „Þeir voru í Dulsum að vestanverðu. Annar var um 18 pund og hinn örlítið minni. Við Alli og Freyja skutum á 16 pund,“ sagði Sturla í samtali við Sporðaköst.

Mikið vatn er í Laxá á Ásum og hún er aðeins grænleitt vegna snjóbráðar. 

„Ég hef ekki séð laxa hér í Ásunum svona snemma vors,“ svaraði Sturla aðspurður hvort þetta væri hefðbundinn tími.

Við stöndum vaktina ef sést til laxa þá er gaman að frétta af því. Hér að neðan er frétt frá í dag um fyrstu staðfestu laxana í Norðurá. 

Þó svo að laxar séu að mæta snemma er það ekki örugg vísbending um að mikið verði af honum. En þetta eru góðar fréttir og mun betri en ef ekki sæist til þeirra. Veiði í Laxá á Ásum hefst ekki fyrr en á sjálfan þjóðarhátíðardaginn 17. júní.

Stokkylsbrotið áðan. (29. maí). Vatnsmikil Norðurá og grængrár snjóbráðar litur …
Stokkylsbrotið áðan. (29. maí). Vatnsmikil Norðurá og grængrár snjóbráðar litur gerir erfiðara að sjá hann. En hann er mættur. Ljósmynd/Brynjar Þór Hreggviðsson

Mættur á Stokkhylsbrotið

Það er spennandi iðja sem margir stunda á þessum tíma árs, í aðdraganda opnanna laxveiðiáa, að kíkja eftir laxi. Brynjar Þór Hreggviðsson sem verður veislustjóri í veiðihúsinu Norðurá í sumar er búinn að vera á hlaupum upp og niður ána að skyggna og skoða og það bar árangur nú síðdegis. 

„Ég sá einn á hefðbundnum stað eftir nokkra þolinmæði. Skyggnið í henni er lítið en sá greinilega sporhreyfingu. Svo beið ég aðeins lengur og sá þá fyrir utan mið skelluna fallegan og áberandi fisk að spegla sig,“ upplýsti Brynjar í samtali við Sporðaköst og var nánast óðamála.

Norðurá er vatnsmikil og í henni er grængrá snjóbráð en góð birta  gerði það að verkum að þessir fiskar eru staðfestir.

„Þeir eru fleiri miðað við að þetta var á sitthvorum legustaðnum. Það er ofboðslega góð tilfinning á sjá þá mæta.“

Brynjar, blöndum ekki saman óskhyggju og staðreyndum.

„Rétt. Tveir staðfestir. En ég veit að þeir eru fleiri,“ hlær hann.

Veiði í Norðurá hefst eftir sex daga eða þann 4. júní.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert