Veisla í Mývatnssveitinni í opnun

Árni Friðleifsson með glæsilegan urriða úr Lambeyjarstreng í Laxá í …
Árni Friðleifsson með glæsilegan urriða úr Lambeyjarstreng í Laxá í Mývatnssveit. Veiði hófst þar í morgun og mönnum hefur gengið vel. Ljósmynd/Jonni

Opnunarhollið í Laxá í Mývatnssveit hóf störf í morgun. Aðstæður eru góðar og veiðin lét ekki á sér standa. „Skilyrðin eru góð. Hér eru sex gráður og dumbungur og norðan gola,“ sagði Bjarni Júlíusson í samtali við Sporðaköst þar sem hann var staddur í Hofstaðaey í Mývatnssveitinni. Hann var nýbúinn að landa enn einum hlunknum. Ríflega sextíu sentímetra urriða, hnausþykkum og dæmigerðum stórfiski úr þeim fallega og gjöfula veiðistað Skriðuflóa.

„Ég og Guðni Bridde, mágur minn byrjuðum í Garðsenda og fengum þar fjóra í beit. Allir svona þykkir og flottir. Stærsti var 68 sentímetrar. Það er blettur í Garðsendanum sem ég rakst á fyrir tilviljun á sínu tíma og það bregst ekki að þar er fiskur og hann tekur. Þetta er bara alger dásemd,“ sagði Bjarni og var að njóta í botn.

Bjarni Júlíusson fékk þennan flotta urriða í Skriðuflóa. Hann segir …
Bjarni Júlíusson fékk þennan flotta urriða í Skriðuflóa. Hann segir fiskinn vel haldinn og ótrúlega þykkur. Þeir voru komnir með sjö góða urriða um klukkan 11 í morgun. Ljósmynd/Guðni Bridde

Framundan var svo hjá þeim félögum að rölta yfir eyjuna og kasta á annan magnaðan veiðistað. Sjálfan Vörðuflóa sem er ótrúlega spennandi að kasta á, að maður tali nú ekki um að mæta þar fyrstur að vori.

Bjarnasynir hafa veitt með honum í opnun í Mývatnssveit en nú er skarð fyrir skyldi. Annar er í útskriftarferð í hita og sól og hinn stressaður á fæðingardeild. Gamli er hins vegar slakur í Mývatnssveitinni. Rektorinn og Holan höfðu gefið þeim fiska.

Jonni tók fjóra í Lambeyjarstrengnum. Það er frábær staður til …
Jonni tók fjóra í Lambeyjarstrengnum. Það er frábær staður til að veiða andstreymis með púpu. Ljósmynd/Árni Friðleifsson

„Hér er bara veisla“

Aðeins ofar, eða á Helluvaði voru þeir Árni Friðleifsson og Jóhann Jón Ísleifsson í veiðiveislu. „Já. Hér er bara veisla. Við erum búnir að landa fimmtán fiskum og þetta er bara frábært,“ sagði lögregluforinginn í samtali við Sporðaköst. Þeir byrjuðu daginn á að rölta niður Lambeyjarstreng en gáfu sér fyrst tíma til að fylgjast með félögum sínum kasta á Sauðavaðið og taka strax tvo fallega urriða þar. „Við bara skiptumst svo á í Lambeyjarstrengnum. Fyrst tók ég svo Jonni og svo ég og bara sitt hvorir fjórir. Svo fórum við í Stekkjarskerjapollinn og tókum þrjá þar. Nú liggur leiðin upp í Sauðavað. Þetta er nú með því besta sem við höfum gert á fyrstu vakt í opnun,“ upplýsti Árni.

Skóstærð 48. Fiskurinn í Mývatnssveitinni er upp á sitt best …
Skóstærð 48. Fiskurinn í Mývatnssveitinni er upp á sitt best þetta vorið. Þessi mældist 60 sentímetrar. Það þykir ágætur smálax, svona til samanburðar. Kvóti er tveir fiskar á stöng á dag. Ljósmynd/Bjarni Júlíusson

Þeir hafa verið fá þessa fiska á púpur og straumflugur. Babbinn var að virka vel og svo gaf Rektorinn. 

Árni hafði orð á því hversu seint vorið væri á ferðinni fyrir norðan. Snjóskaflar nánast niður undir á og ófært á Brettingsstaði sökum bleytu. Allur gróður enn í vetrarbúningi og engin fluga á ferðinni. „Sem betur fer,“ hló Árni.

Rektorinn virkar vel í Mývatnssveitinni. Oft er gott að hafa …
Rektorinn virkar vel í Mývatnssveitinni. Oft er gott að hafa þá stóra. Þessi fiskur tók einn slíkan og magnað að sjá hversu þykkur og stór hann er. Það eru ekki margir staðir í heiminum sem bjóða betri urriðaveiði en Laxá. Ljósmynd/Bjarni Júlíusson

Til marks um hversu veturinn hopar hægt þá sáu menn í gær sem voru í vorverkum að ekki voru nema tíu sentímetrar niður í frosinn jarðveg.

Ef að líkum lætur þá verður þetta opnunarholl með áhugaverða tölu þegar upp er staðið. Bara þessi tvö pör sem Sporðaköst ræddu við voru komin með á þriðja tug fiska og enn lifði nokkuð af veiðitíma.

Uppfært klukkan 14:00

Við hlupum aðeins á okkur í fyrstu útgáfu fréttarinnar. Laxárdalurinn opnar á föstudag en ekki morgun eins og sagt var. Spennandi verður að heyra af henni því oftar en ekki eru meðalstærðin þar meiri en upp frá í Mývatnssveitinni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert