Hnúðlax líklegast hrygnt í fjölmörgum ám

Friðþjófur Árnason með tvö hnúðlaxaseiði úr Botnsá í Hvalfirði. Þetta …
Friðþjófur Árnason með tvö hnúðlaxaseiði úr Botnsá í Hvalfirði. Þetta er annar árgangurinn sem staðfest er að klekst út í Botnsá. Hrygning var líka staðfest vorið 2022. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Hnúðlaxaseiði hafa veiðst í þremur ám í vor. Þetta eru Selá í Vopnafirði, Miðfjarðará í Bakkafirði og Botnsá í Hvalfirði. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar munu fara í fleiri ár á næstunni til að meta stöðuna. Ljóst virðist að hnúðlaxahrygning hafi tekist í fjölmörgum ám á Íslandi.

Hnúðlaxinn virðist kominn til að vera í íslensku lífríki. Nú snýst spurningin kannski fyrst og fremst um hversu sterkur stofninn verður og hvaða áhrif hann mun hafa.

Starfsmenn á vegum Hafrannsóknastofnunar hafa undanfarna daga verið með seiðagildru í Botná í Hvalfirði. Fyrsta daginn kom eitt seiði í gildruna og daginn eftir veiddust tvö. Seiðin eru um þessar mundir að ganga til sjávar og munu svo vitja heimkynna sinna á næsta ári. Þessu seiði eru úr hrygningu frá síðasta hausti, en lífsferill hnúðlaxins er tvö ár og koma fullvaxnir fiskar úr þessum stofni á oddatöluárunum.

Seiðin tvö sem komu í gildruna í Botnsá í gærmorgun. …
Seiðin tvö sem komu í gildruna í Botnsá í gærmorgun. Þetta eru óttalegir prjónar en lífseig með afbrigðum. Þessi seiði eru úr hrygningu frá því í haust. Seiðin ganga strax til sjávar ólíkt því sem gerist með Atlantshafslaxinn. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Guðni Guðbergsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sagði í samtali við Sporðaköst í gær að þetta væri í annað skipti sem seiðagildra er sett upp í Botnsá en það var gert síðast vorið 2022 og þá veiddust hnúðlaxaseiði. Þar með var staðfest hrygning frá þessum framandi stofni sem er í grunninn Kyrrahafslax, en Rússar fluttu þessa fiska til Kólaskaga á síðustu öld. Hugmyndin var að ala hann til manneldis. Hnúðlaxinn er landnemi í þeim skilningi að hann leitar gjarnan í ný vatnakerfi og hefur hann dreift sér um nánast alla Evrópu og til Nýfundnalands þó að mestur þéttleiki sé enn í norðanverðum Noregi.

Eydís Njarðardóttir kannar það sem kom í gildruna í Botnsá.
Eydís Njarðardóttir kannar það sem kom í gildruna í Botnsá. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Stefnt er að því að kanna stöðuna í fleiri ám á næstunni. Guðni Guðbergsson var spurður hvaða ályktanir hann og hans fólk væri að draga af vettvangsrannsóknum nú í vor. „Þetta er frekari staðfesting á að hnúðlax er að sér hér og líklega er það að gerast í mjög mörgum ám.“

Er hætta á stóru hnúðlaxaári 2025?

„Við búumst við því, já.“

Hnúðlaxaseiði. Þau eru pínulítil þegar þau halda til sjávar. Vöxturinn …
Hnúðlaxaseiði. Þau eru pínulítil þegar þau halda til sjávar. Vöxturinn er gríðarlegur á þessum fiski og hnúðlaxinn mun mæta fullvaxinn að ári í íslenskar ár sem eru orðnar heimkynni hans. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Þó svo að hnúðlaxagengd hafi vaxið verulega í íslenskar ár síðustu oddatöluár þá er það ekkert í líkingu við það sem sést hefur í Noregi. Nyrstu árnar í Noregi hafi bókstaflega verið stífalaðar af hnúðlaxi og hafa þeir skipt þúsund og í sumum ám tugþúsundum.

Vandséð er að hnúðlaxinn verði í svo miklu mæli hér, en það er nákvæmlega það sem landeigendur og umráðamenn laxveiðiáa sögðu í Noregi fyrir nokkrum árum.

Matvælaráðuneytið hefur sett aukna fjármuni í að rannsaka hnúðlaxinn og hefur það orðið til þess að Hafrannsóknastofnun er nú að kanna útbreiðslu gönguseiða á hnúðlaxi.

Seiðagildra í Botnsá til að fanga hnúðlaxaseiði. Markmiðið er ekki …
Seiðagildra í Botnsá til að fanga hnúðlaxaseiði. Markmiðið er ekki að ná þeim öllum. Eingöngu að staðfesta að þau séu til staðar og sú staðfesting er fengin. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Ekki er von á hnúðlaxi í sumar nema ef kynni að vera í litlu mæli en til er annar stofn sem Rússar fluttu inn á slétta árinu. Sá stofn hefur ekki náð viðlíka útbreiðslu enn sem komið er. Rétt er þó að veiðimenn og veiðifélög fylgist með ástandinu og tilkynni slíka fiska.

Næsta ár getur hins vegar orðið skrautlegt á þessu sviði ef hnúðlax hefur náð að hrygna í flestum laxveiðiám landsins.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert