Fyrsta veiðivaktin laxveiðisumarið 2024 var í morgun í Urriðafossi í Þjórsá. Tíu laxar veiddust og er það með betra móti. Fimm veiðimenn skiptu sér tveimur stöngum í rólegheita veiði og allir fengu fisk.
Það var flottar aðstæður í morgun. Níu gráður beggja vegna Hellisheiðar og dumbungur fyrir austan, þó þannig að það var allt að því lágskýjað. Úði og mildur morgun, heilt yfir. Á meðan að margir tóku fram betri fötin til að fara á kjörstað og kjósa forseta tóku aðrir fram bestu fötin og skelltu sér í vöðlur og veiðijakka.
Þegar Sporðaköst röltu niður tréstigann að Urriðafossi mátti sjá á líkamstjáningu veiðimanns að það var eitthvað að gerast. Þegar neðar dró í stigann var auðséð að veiðistöng var í keng og höggin gáfu fyrirheit um góðan lax.
Við veiðar voru landeigendur, Haraldur Einarsson og Birna Harðardóttir, bændur að Urriðafossi. Leigutakar, þau Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir voru ásamt Matthíasi syni sínum með hina stöngina.
Birna bóndi var með hann og landaði fljótlega fyrsta laxinum í opnun. Ekki maríulaxinn hennar því hún hefur áður fengið lax á sínum heimavelli. 74 sentímetra hængur. Lítill tveggja ára.
Næst var komið að Haraldi bónda. Hann fór á sama stað og Birna og renndi í holuna efst í Lækjarlátri. Hann varla kom maðkinum út í þegar rifið var í af krafti og línan söng í sundur. „Sleistu?“ spurðu viðstaddir í nokkurri undran. „Vinur minn var búinn að fara yfir græjurnar og þetta átti allt að vera upp á tíu,“ sagði Haraldur. Fólk leit ýmist niður eða kíkti á hvort ný skilaboð hefur borist í símann. Samt er ekkert símasamband við ána.
Matthías rauf vandræðalega þögnina. „Taktu þessa stöng.“ Haraldur lét ekki segja sér það tvisvar og valdi stæðilegan skoskan ánamaðk sem spriklaði kátur í lófa hans. Flestir vildu setja tvo maðka. Bóndinn taldi ekki þörf á því.
Hann renndi aftur í holuna og það leið ekki löng stund þar til tekið var kröftuglega á móti. Allt gekk eins og í sögu og nú háfaði Matthías 74 sentímetra hrygnu við fagnaðaróp. Aftur lítill tveggja ára.
Hvað finnst þér um þessa stærð Stebbi?
„Litlir en eigum við ekki að sjá aðeins til,“ glotti hann á meðan að nýr skoskur var settur á aðra stöng. Nú leið nokkur stund og Stefán veiddi Lækjarlátrið fet fyrir fet. Á einum stað taldi hann sig hafa fengið vott um áhuga. Hann færði sig á nýjan leik á upphafreit og fljótlega sagði Harpa. „Hann er með hann. Ég þekki hvernig hann lætur.“ Og það var rétt. Matthías var á háfnum. Það var meiri kraftur í þessum laxi og hann reif sig út í strauminn og virtist ætla að halda áfram upp úr. Hann mældist líka aðeins stærri eða 79 sentímetrar. Stebbi kinkaði kolli. „Einmitt. Þetta er stærðin.“
Stefán hefur sjö ár í röð landað fyrsta laxinum á Íslandi, einmitt í Urriðafossi. Nú var búið að fremja þann verknað, eftir að Mikael Marinó landaði þeim fyrsta í Skugga í Borgarfirði fyrr í vikunni.
Matthías var orðinn óþolinmóður. Hann viðurkenndi það. Loks kom röðin að honum og eftir nokkra stund var hann búinn að setja í og landa fallegum laxi. Þá var bara Harpa eftir. Hún þurfti heldur ekki að bíða lengi. Setti í lax og hann hagaði sér illa og var sterkur. 87 sentímetra hængur var niðurstaða. „Hvað segirðu? Er ég með þann stærsta?“ sagði hún og blikkaði Birnu.
Þegar upp var staðið og farið í pásu voru komnir á land tíu laxar. „Ég er bara spenntur fyrir seinnipartinum. Fyrst í morgun vorum við ekki að fá fiska í Huldunni heldur bara fyrir ofan. Svo þegar leið á morguninn þá fór hann að veiðast líka í Huldunni. Besta sem við höfum gert hérna á fyrsta degi eru átján eða nítján laxar. Bestu morgnarnir hafa verið tólf laxar. Þannig að ég upplifi þetta sem bara fína byrjun. Maður er líka að frétta af löxum sem eru að sjást eins og til dæmis í Laxá á Ásum. Það er mjög snemmt og maður leyfir sér að fyllast af bjartsýni.“
Sporðaköst taka undir þetta með bjartsýnina með Stefáni. Eftir að hafa skrifað endalausar fréttir af hnignun laxastofna og lélega veiði í löndunum í kringum okkur og slæmar horfur. Þá skulum við bara leyfa okkur að fyllast bjartsýni. Hann er mættur og hann er að taka.
Við fáum lokatölur frá veiðihópnum í kvöld og munum gera þeim skil.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |