Opnunardagurinn í Urriðafossi gaf fimmtán laxa. Það er fínn opnunardagur í samanburði við fyrri ár. Besti opnunardagurinn til þessa hefur gefið nítján laxa. Vissulega er sagan stutt í Urriðafossi því ekki eru mörg ár frá því að svæðið komst á kortið fyrir almenning. Áður var þar stunduð netaveiði en slíkt heyrir nú sögunni til í Urriðafossi.
Það er ekki hægt að draga neina afgerandi ályktun af góðum opnunardegi, annað en að laxinn er mættur. Vissulega eru menn fljótir til ef opnun er léleg en eins og Stefán Sigurðsson, leigutaki að Urriðafossi sagði í gær, þetta gefur þessi veiði manni tilefni til að vera bjartsýnn. Vissulega er það rétt hjá Stefáni og það eru jákvæð teikn á lofti, hvernig sem spilast svo úr þeim þegar líður inn í sumarið og myndin verður skarpari.
Önnur jákvæð teikn eru að laxinn er að sjást víða og margir ráku upp stór augu af fréttum úr Laxá á Ásum um lax sást í þeim þekkta veiðistað Dulsum og það óvenju snemma. Sturla Birgisson sem rekur og heldur utan um Ásana segist ekki muna eftir honum svona snemma.
Laxinn er mættur í Blöndu og Norðurá og í gær fengum við fréttir af því að Erik Koberling stjórnandi hjá Störum, sem leigir Þverá og Kjarrá var ásamt fleirum að huga að slóðum og stígum við Þverá. Þegar þeir komu að Klettsfljótinu gáfu menn sér tíma til að rýna í staðinn. Grænleit slikja var á ánni og erfitt að sjá almennilega ofan í hana. „Við vorum þarna, Andrés, Baldur og ég og við vorum sammála um að hún væri of lituð til að sjá nokkuð. Sem við vorum að fara að segja þetta gott þá velti sér silfraður lax alveg neðst í hylnum. Þetta var fallegt augnablik og gott að vita að þeir eru komnir,“ sagði Erik í samtali við Sporðaköst.
Enn er nokkuð í að Þverá opni en fyrsti dagur þar er 10. júní og svo hefst veiði í Kjarrá fimm dögum síðar. Í því góða vatni sem nú er getur laxinn straujað fram án mikillar fyrirhafnar.
Veiðihornið í Síðumúla er með sumarhátíð þessa helgi og hefur gert í rúman áratug. Þar eru kynntar nýjungar á borð við Sage R8 stangirnar og íslensk hönnuðu flugulínuna frá Rio sem ber það ljúfa nafn Þytur. Gaman að sjá flugulínu sem merkt er með íslensku heiti. Fleiri nýjungar eru kynntar og á þessari sumarhátíð sem hófst í gær og líkur í dag er happdrætti þar sem dregnir eru út tíu vinningar.
Í ljósi þess að margir hafa skrúfað frá bjartsýniskrananum innra með sér verður spennandi að sjá hvað opnanir á næstu dögum gera. Vissulega er mikið vatn og víða litað en það hefur líka sína kosti eins og við þekkjum. Á þriðjudag opnar Norðurá og Blanda á miðvikudag.
Veiðihornið er samstarfsaðili SporðakastaLengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |