Listinn yfir þá stærstu í sumar tilbúinn

Hundraðkallar 2024. Listinn er tilbúinn að við bíðum spennt eftir …
Hundraðkallar 2024. Listinn er tilbúinn að við bíðum spennt eftir þeim fyrsta. Veiðimenn og við ætlum að vanda okkur sérstaklega mikið í ár. Það er ótrúlega merkilegt að landa laxi á Íslandi sem nær hundrað sentímetrum. Sporðaköst / Samsett mynd

Það er komið að því. Við höfum útbúið listann fyrir 2024, þar sem hundraðkallar sem veiðast í sumar verða færðir til bókar. Við viljum biðja veiðimenn um að hafa nokkra hluti í huga þegar slíkur fiskur veiðist.

Við mælum laxana okkar frá trjónu og aftur í miðjan sporð. Ekki í sporðhorn. Í miðjan sporðinn í sjálft vaffið.

Hafa vitni. Ef ekki er vitni til staðar er hægt að taka mynd af laxinum og leggja málband ofan á hann þannig að ekki fari milli mála að allur fiskurinn sjáist og hægt sé að staðfesta mælinguna með því að skoða myndina. Mikilvægt er að allur fiskurinn sjáist og málbandið á honum.

Vanda myndatöku. Það veiðast um þrjátíu svona fiskar á Íslandi á ári. Stundum fleiri og stundum færri. Margir veiðimenn upplifa aldrei að handleika svo stóran lax. Gefið ykkur tíma í að taka mynd sem gefur raunsanna mynd af stórlaxinum. Ekki halda út höndunum í átt að myndavélinni. Lax sem nær hundrað sentímetrum er það langur að flestir eru í vandræðum með að halda honum beinum.

Sigurður Héðinn, eða Haugurinn með stórlax úr Hnausastreng í september …
Sigurður Héðinn, eða Haugurinn með stórlax úr Hnausastreng í september 2021. Þessi mældist 102 sentímetrar. Veiðiugginn er risastór og Haugurinn nær ekki utan um stirtluna. Við mælum með svona sporðtaki þegar mynd er tekin. Ljósmynd/HH

Nokkur atriði sem allir skoða á þessum myndum. Stærð veiðiugga er það fyrsta. Þessi stærðarflokkur laxa er með myndarlegan veiðiugga. Sporðtakið er mikilvægt. Haltu um sporðinn þannig að lófinn vísi að myndavélinni og fingurnir sjáist. Ef handarbakið snýr að myndavélinni sést sporðurinn ekki eins vel. Ef þú nærð utan um sporðinn á honum, mældu hann þá aftur. Reglan er að fiskar í þessum stærðarflokki hafa svo svera stirtlu að venjulegt fólk nær ekki utan um hana. Ekki beygja puttana þannig að þeir sjáist varla. Leyfðu einmitt sjást að þeir ná ekki utan um stirtluna.

Af hverju erum við að setja fram þessar leiðbeiningar eða kröfur? Jú vegna þess að veiðimenn er metnaðarfullir og býsna margir eru fljótir að draga í efa myndatöku og mælingu. Við höfum heyrt og fengið háðsglósur og jafnvel leiðindi vegna myndbirtinga. Við skulum því vanda okkur þannig að líka þeir sem gera mestu kröfurnar skilji og sjái hversu stór hann er.

Hér má sjá dæmi um stórlax sem var mældur 96,8 …
Hér má sjá dæmi um stórlax sem var mældur 96,8 semtímetrar. Málbandið liggur yfir fiskinn og áhugasamir geta stækkað myndina og séð nákvæmlega mælinguna. Þetta er fyrirmyndar og tekur af allan vafa um stærðina. Laxinum var sleppt og hann jafnaði sig. Við birtum ekki endilega svona myndir en þær staðfesta stærð. Ljósmynd/Sporðaköst

Leiðsögumenn bera hér líka ábyrgð. Passa upp á viðskiptavininn að hann geri þetta allt rétt. Það er fátt skemmtilegra en að segja fréttir af þessum stærstu fiskum Íslands og einmitt þess vegna viljum við vanda okkur. Fiskurinn er oft nokkra stund að jafna sig eftir átökin og ef viðstaddir eru rólegir er nægur tími í myndatöku og mælingu.

Þetta er fimmta árið sem Sporðaköst taka saman þennan lista. Í fyrra skráðum við 29 laxa í þessum flokki. Sumarið 2022 voru þeir 30 og árið áður 31. Veiðitímabilið 2020 rötuðu 44 hundraðkallar inn á listann. Auðvitað er þetta misjafnt milli ára og gaman hefði verið að sjá sumarið 2016 hversu margir fiskar veiddust þá hundrað sentímetrar eða stærri. En það ár var eitt mesta stórlaxaár sem sögur fara af.

Flesta hundraðkallana á þessu tímabili höfum við skráð úr Laxá í Aðaldal eða samtals 23. Víðdalsá er með 13, Miðfjarðará og Stóra–Laxá 10, Vatnsdalsá, Laxá í Dölum og Blanda 5 hver á. 

Stórlax bíður eftir að vera sleppt við Deildará. Endilega taka …
Stórlax bíður eftir að vera sleppt við Deildará. Endilega taka mikið af myndum og ekki bara þar sem veiðimaður heldur á fiskinum. Allt í kringum þetta er svo skemmtilegt. Ljósmynd/Aðsend

Rétt er að hafa í huga að Sporðaköst hafa sleppt því að skrá laxa á listann þó að þeir séu bókaðir 100 sentímetrar ef ekki hefur verið hægt að senda mynd eða staðfesta mælingu. Við skráum ekki fiska sem veiðast í klakveiði, nema í undantekningartilvikum. Listinn lokar þegar veiðitíma í viðkomandi á lýkur.

Að lokum. Munum að lax sem mælist 99, 98 eða 97 sentímetrar eru líka stórkostlegir fiskar og mikið gleðiefni hverjum veiðimanni. Sporðaköst hlakka til að heyra frá ævintýrum sumarsins og átökum við þessa allra stærstu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert