Fyrsti laxinn í opnunarhollinu í Norðurá kom á land klukkan 8:44. Ævar Örn Úlfarsson setti í hann á Bryggjum og landaði 81 sentímetra laxi eftir snarpa viðureign. Eins og sjá má myndinni er um að ræða frábært eintak.
Mikið líf var á Stokkhylsbroti þar sem fyrstu laxarnir sáust í vor. Ingvar Svendsen veitingamaður dró Stokkhylsbrotið enn eitt árið. Hann og hans félagar settu í tvo laxa í morgun en misstu þá báða. Þá hafa þeir verið að reisa fiska og ef að líkum lætur mun einn eða tveir detta þar áður en morgunvaktinni lýkur.
Sökum mikils hvassviðris komust menn ekki yfir á Eyrina en sá staður er oftar en ekki einn besti vorveiðistaður í Norðurá.
Rafn Valur Alfreðsson, rekstraraðili Norðurár segir vatnið í ánni frábært, var í þrjátíu rúmmetrum í morgun þegar menn byrjuðu að veiða og hafði þá fallið gríðarlega síðustu daga, en á sunnudag var vatnsmagnið í Norðurá um áttatíu rúmmetrar.
Brynjar Þór Hreggviðsson staðarhaldari í Norðurá var á þönum í morgun og tók hann í sama streng að vatnið væri hreinlega geggjað til að veiða en afskaplega kalt. Langvinna norðanáttin sem spáð er fram í miðjan mánuð er ekki að spara sig í Norðurárdalnum og tekur flugið niður af Holtavörðuheiðinni.
En þetta er góðs viti. Fiskur á Bryggjunum gefur til kynna að hann sé að skríða upp. Áhugavert verður að heyra hvernig dagurinn gerir sig í þessari fyrstu opnun í Borgarfirðinum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |