Það var góð veiði á veðurbörðum veiðimönnum í opnunarhollinu í Norðurá í morgun. Minnsti fiskurinn sem veiddist er líklegast sá sem gleður mest. Smálax veiddist á Stokkhylsbroti og mældist hann sextíu sentímetrar. Þau ár sem smálax kemur í töluverðu magni er oft fyrsta vísbendingin að undanfararnir mæta snemma. Auðvitað getur verið um tilviljun að ræða en Sporðaköst trúa ekki á tilviljanir.
Tíu laxar veiddust á þessari fyrstu vakt. Fimm á Brotinu og Skerunum. Þrír á Stokkhylsbroti. Einn á Bryggjum og svo fékkst einn á Eyrinni, þegar menn loksins komust yfir ána á bát. Annar misstist þar en veiðimenn sem fóru yfir á Eyrina þurfa líkast til að bíða eftir að lægi til að komast í hús á nýjan leik. Hvenær það verður er ekki gott að segja en spáð er langvinnu norðanhreti.
Við höfum flutt fréttir af spálíkani sem Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur og sérfræðingur í laxagöngum á Vesturlandi hefur skapað. Aðstæður síðasta sumar voru hagfelldari en þær hafa verið lengi. Líkur á góðum smálaxagöngum eru því meiri en verið hefur undanfarin ár. Hægt er að lesa frétt um þetta sem við birtum fyrr á árinu.
Eins og staðan er núna vitum við um tíu laxa í morgun. Til samanburðar voru þeir sjö á fyrstu vakt í opnun i fyrra. Veiðimenn voru líka að missa töluvert af fiski. Þrír misstust á Stokkhylsbrotinu og líkast til sluppu jafn margir og landað var. Fyrsti lax sumarsins kom af Bryggjunum og var þar að verki Ævar Örn Úlfarsson.
Þegar nokkuð var liðið á morgun var það mál manna að töluvert væri af fiski á Stokkhylsbrotinu. Staðarhaldinn Brynjar Þór Hreggviðsson setti þar í sjötíu sentímetra lax og var sá með halalús. Það er ótvírætt merki um að sá fiskur hefur farið undir Borgarfjarðarbrú í gær. Brynjar setti svo strax í annan og landaði. Sá var líka lúsugur.
Auðvitað er of snemmt að draga ályktanir en miðað við skítakulda og rok, sem frekar ætti að draga úr veiðimönnum, er þetta áhugaverð fyrsta vakt. Það vottaði fyrir snjókomu á köflum í morgun í Norðurárdalnum og ljóst að veiðimenn þurfa að taka fram haustgallann ætli þeir sér að haldast við úti heilan dag.
Hér að neðan er linkur á viðtal við Sigurð Má Einarsson fiskifræðing í Sporðakastaspjallinu þar sem hann fer yfir þetta spámódel sem margir eru að horfa í þessi árin. Viðtalið var birt í fyrrahaust en í því gerir Sigurður Már vel grein fyrir módelinu og tilurð þess ásamt að lesa í tölur fyrir sumarið í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |