Opnunardagurinn í Norðurá fór fram úr björtustu vonum flestra. Nítján löxum var landað og þó nokkrir misstust, eins og gengur og gerist í vorfiski í miklu vatni.
Fossasvæðið var að gefa vel. Brotið, Skerin og Eyrin loksins þegar menn komust yfir. Stokkhylsbrotið heldur töluverðu magni af fiski og gaf sá staður sex fiska í gær. Eftir hádegi fengu þeir sem áttu Stokkhylsbrotið þrjá laxa nánast strax og allt voru það lúsugir um og yfir áttatíu sentímetra fiskar. Þá kom einn lax úr Stekkjarfljóti.
Mikið af þessu var tekið á Sunray, bæði í yfirborði og með þyngingu. Tveir fiskar fengust á smáflugu og Rafn Valur Alfreðsson rekstraraðili sagðist sannfærður um að hitchið hefði virkað ef vindur hefði ekki verið svona mikill. Þessi fyrsti dagur fór fram úr hans væntingum og sagði hann að fyrirfram hefði hann verið ánægður með fimmtán til átján laxa opnunarholl.
Stærstu laxarnir í gær mældust 84 sentímetrar og eins og við sögðum frá þá var smálax í aflanum og vakti það mikinn áhuga. Kenningin er að þegar mikið er af þeim mæti þeir snemma. En rétt er að hafa í huga að fá sport státa af jafn mörgum kenningum og laxveiði.
Veðrið í opnun er eins og allir vita ekki það besta en slíkt er bætt upp með því að Norðuráin er í góðu vatni og laxinn er mættur. Seinniparturinn í gær gaf níu laxa og komu þeir allir snemma á vaktinni. Þegar leið fram á daginn hækkaði aðeins í henni og vart varð við smá lit. Hækkandi vatn hefur aldrei verið ávísun á veiði, svo við vitnum í fleiri kenningar.
Við gerum upp opnunarhollið og berum það saman við fyrri ár, þegar því lýkur.
Í dag opnar Blanda en skilyrði þar eru erfið. Hún er verulega lituð og rok og skítakuldi. En menn eru að reyna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |