Stórum spurningum um hnúðlax ósvarað

Kjetil Hindar flytur erindi sitt á ráðstefnu SRI í Vopnafirði. …
Kjetil Hindar flytur erindi sitt á ráðstefnu SRI í Vopnafirði. Hann segist hnúðlaxinn geta verið árásargjarnan í garð Atlantshafslaxins. Tölur í Noregi sýna að stofninn hefur tífaldast á tveimur árum. Hvað gerist 2025? Ljósmynd/Einar Falur

Hnúðlaxinn getur verið mjög árásargjarn og jafnvel útilokað Atlantshafslax og sjóbirting frá hrygningarsvæðum. Þetta upplýsti Kjetil Hindar, einn fremsti vísindamaður Noregs þegar kemur að rannsóknum á hnúðlaxi. Kjetil var gestur á ráðstefnu Six Rivers Iceland, sem haldin var um mánaðamótin í Vopnafirði undir yfirskriftinni  „Saving the Atlantic Salmon.“ 

Kjetil rakti með hvaða hætti Rússar fluttu inn hnúðlaxaseiði úr Kyrrahafinu, þar sem eru hans upprunalegu heimkynni. Þessar aðgerðir og tilraunir Rússa hafa staðið frá því á miðri síðustu öld. Fyrst urðu Norðmenn varir við hnúðlaxa í kringum 1960 en svo hvarf hann aftur. Síðar hafa komið tímabil þar sem vart hefur orðið við hnúðlaxagöngur af og til. Sprenging varð hins vegar árið 2017 þegar hann allt í einu mætti í miklu magni í norskar ár. Þetta er hinn svokallaði oddatölustofn. Lífsferill hnúðlaxins er tvö ár þannig að hnúðlaxahrygning 2017 skilar fullvöxnum einstaklingum tveimur árum síðar eða 2019 og þeirra afkvæmi komu aftur 2021 og svo koll af kolli.

Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. …
Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. Hún er þekkt sem gjöful laxveiðiá en hnúðlax hefur gengið í hana í miklu magni síðustu oddatöluár. Þessi mynd var tekin í fyrra þegar sjálfboðaliðar reyndu að hreinsa burt hluta af hnúðlaxinum. Ljósmynd/Ríkisstjóri í Tromsfylki og Finnmörku

Hnúðlax hefur margfaldast í norsku ánum og nefndi Kjetil í fyrirlestri sínum að nú hefði hnúðlax orðið vart í svo gott sem öllum löndum Evrópu sem liggja að sjó. Meira að segja hafa þeir fundist við Grænland og Labrador, sem er á NA strönd Kanada, síðustu ár. Þeir eru þá að leggja að baki lengri vegalend frá Hvíta hafinu við Rússland til Grænlands, heldur en ef að þeir syntu í Kyrrahafið.

50 þúsund hnúðlaxar í Tana

Norskir vísindamenn hafa reynt að meta fjölda hnúðlaxa sem hafa verið að ganga í norskar ár undanfarin oddatöluár. Tölurnar eru hreint út sagt ótrúlegar og hefur stofn hnúðlaxa tífaldast á tveggja ára fresti. Í ánni Tana virkaði ekki gildrubúnaður sem settur var upp til talninga en Kjetil giskaði á að bara í Tana einni saman hefðu verið allt að fimmtíu þúsund hnúðlaxar sem gengu í ána í fyrra.

Hnúðlaxinn er að laga sig að aðstæðum í norskum ám. Yfirleitt er hann að hrygna tveimur mánuðum á undan laxinum og sjóbirtingi. Dæmi hafa hins vegar sést að hnúðlaxinn hafi seinkað hrygningu í nyrstu ánum og að hrygningin teygi sig orðið yfir á tíma laxins. Hið alþekkta er að hnúðlaxaseiði koma upp úr mölinni og eru 3,5 sentímetrar að lengd og fara þegar að huga að útgöngu til sjávar. Nú hafa hins vegar komið upp dæmi um seiði sem eru tvöfalt stærri eða sjö sentímetrar, sem bendir til þess að þau dvelji lengur í ánni og éti þar það sem er í boði. Hvaða áhrif þetta getur haft á vöxt og næringu laxaseiða er ekki vitað.

Sjálfboðaliðar háfa hnúðlax úr laxastiga í Jakobselva, sumarið 2021. Á …
Sjálfboðaliðar háfa hnúðlax úr laxastiga í Jakobselva, sumarið 2021. Á einni viku háfuðu þau 3600 hnúðlaxa. Í fyrra neyddust menn til að loka ánni og hætta að selja í hana veiðileyfi. Ljósmynd/Hanne Wilhelms/NRK

Og meira um þéttleikann. Í ánni Varzuga sem er sunnarlega á Kólaskaga í Rússlandi hafa menn séð ótrúlegan þéttleika af hnúðlaxi. Venjulega mæla menn fjölda seiða á tilteknu svæði en Kjetil upplýsti að eitt árið hefðu mælst þar hátt í sextíu hnúðlaxar á hverja hundrað fermetra.

Kjetil leiddi hóp vísindamanna í Noregi sem fékk það hlutverk að meta hver áhættan af hnúðlaxinum gæti verið með tilliti til Atlantshafslaxins. Það fyrsta sem hópurinn staldraði við var þetta gríðarlega magn sem getur gengið í eina og sömu ána.

Hnúðlaxinn árásargjarn

Þá segir Kjetil að hnúðlaxinn geti verið árásargjarn í garð Atlantshaflaxins og hann hefur séð myndbönd úr skoskum ám þar sem hnúðlaxinn hrekur villta laxinn í burtu og ræðst á hann. Sporðaköst þekkja slík dæmi hér á landi þar sem sést hefur til hnúðlaxa að veitast að villta laxinum. Annað sem norski vísindamaðurinn nefndi er að hnúðlaxinn getur hreinlega fyllt hrygningarsvæði þannig að villti laxinn kemst ekki að fyrr en sá bleiki er búinn að hrygna og drepast í kjölfarið.

Hnúðlax úr Sléttuá í fyrra. Þessi veiddist á stöng. Síðan …
Hnúðlax úr Sléttuá í fyrra. Þessi veiddist á stöng. Síðan var dregið á hylinn og þá náðust aðrir fimm. Sumarið 2025 er stórt spurningamerki hvað varðar hnúðlaxamagn á Íslandi. Ljósmynd/Marinó H. Svavarsson

Hvert framhaldið verður á þessari stærstu umhverfistilraun, eins og Kjetil kallar framgöngu hnúðlaxins í boði Rússa, er erfitt að segja til um. Eigum við hér á landi eftir að sjá viðlíka sprengingu eins og varð í Noregi? Það er alls ekki víst en getur hins vegar líka alveg gerst. Það er staðfest að hnúðlax hefur hrygnt í fjölmörgum ám á Íslandi síðasta haust og þau seiði eru gengin til sjávar. Þannig að hér á landi er orðinn til stofn sem getur sprungið út og að sama skapi leitar hnúðlaxinn frá Rússlandi og Norður–Noregi á nýjar og framandi slóðir. Aftur á móti þá hefur hnúðlax risið og horfið svo aftur á fyrri tímum í Noregi. En aldrei hefur neitt sambærilegt magn sést og verið hefur síðustu oddatöluár.

Í Rússlandi er hnúðlaxaveiðinni háttað þannig að settir eru kvótar í einstökum ám og þegar þeim fjölda er náð eru gildrurnar eða netin tekin upp og hnúðlaxinn gengur óhindrað upp árnar.

Kvíða sumrinu 2025

Það er til hnúðlaxastofn í Rússlandi sem gengur í ferskvatn á þeim árum sem ber upp á slétta tölu. Sá stofn hefur ekki náð sér á strik með sama hætti og oddatölustofninn. En hver segir að Rússar séu hættir tilraunum sínum? Og mun sá stofn einnig springa út?

Veiðimenn og aðrir þeir sem fylgjast með laxi á Íslandi geta verið rólegir í sumar þar sem árið í ár ber upp á slétta tölu. Rétt er hins vegar að fylgjast með og tilkynna alla hnúðlaxa. Hins vegar þegar kemur að sumrinu 2025 þá geta menn átt von á hverju sem er, þegar hnúðlaxinn er annars vegar. Norðmenn hafa séð hnúðlaxinn margfaldast milli oddatöluáranna og víst er að margir kvíða árinu 2025, sérstaklega nyrst í Noregi.

Ráðstefnan sem Six Rivers Iceland efndi til í lok maí er sú fjórða sem félagið heldur. Að þessu sinni var hún haldin í Vopnafirði og þangað var stefnt nokkrum af helstu sérfræðingum í heiminum á sviði rannsókna um Atlantshafslaxinn. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert