Veiði hófst í Þverá í Borgarfirði í morgun. Opnunin í Þverá er alltaf spennandi dagur. Norðurá hefur farið ágætlega af stað og nokkuð er liðið frá því að fyrsti laxinn sást í Klettsfljóti í Þverá.
Fjórir laxar veiddust í morgun. Þann fyrsta fékk Andrés Eyjólfsson yfirleiðsögumaður í Þverá. Fáir þekkja Þverá jafn vel og Andrés og fór vel á því að hann setti í og landaði fyrsta laxinum í sumar. Fiskurinn var fallegur stórlax sem mældist 87 sentímetrar og veiddist í Ármótakvörn.
Egill Ástráðsson, staðarhaldari í Þverá sagði nokkurn lit í ánni og sólina í essinu sínu. Hófstilltar vonir eru hjá veiðimönnum um seinni vaktina enda nokkur snjóbráð við þessar aðstæður.
Lúsugur smálax veiddist í Brennunni í morgun og snemmgenginn smálax er alltaf áhugaverð veiði. Brennan er ósasvæði Þverár þar sem hún mætir Hvítá. Hafi smálaxinn ekki verið einn á ferð gætu félagar hans glatt veiðimenn í Þverá í fyrramálið. Þá eru fjórar laxveiðiár formlega búnar að opna. Norðurá, Blanda, Urriðafoss og nú Þverá.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |