„Það er okkar helsta stefna að setja árnar á heimsminjaskrá UNESCO; ég veit að þetta er löng vegferð en þetta endar þar,“ sagði Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, við setningu Elliðaánna í morgun.
Spurð út í þessi ummæli sín segir Ragnheiður: „Þetta er ekkert fjarri lagi, vegna þess að það að það sé laxveiðiá í miðri höfuðborg er algjörlega með eindæmum.“
Hún bendir á að margar ár sem renna í gegnum borgir heimsins á borð við Thames í London og Signu í París hafi verið laxveiðiár á sínum tíma en séu það ekki lengur af mannanna völdum.
„Við verðum að passa upp á þessa perlu sem við eigum hérna og passa að árnar fái að vera í friði,“ segir Ragnheiður.
Fyrirséð er að eitthvað verður um rask við Elliðaárnar í sumar en í Víðdal stendur yfir vinna við Höfðabakkabrú og þar mun sömuleiðis fara fram hestamannamót í byrjun júlí.
Ragnheiður segir að stangveiðifélagið hafi verið í samtali við Fiskistofu varðandi framkvæmdirnar en henni hefði þótt ráðlegt að hefja þær fyrr svo þær teygðust ekki inn á veiðitímabilið.
„Þetta verður til óþæginda fyrir veiðimenn og það er ekki gott að þegar árnar eru komnar á stað að verið sé í framkvæmdum við þær,“ segir Ragnheiður.
Varðandi hestamannamótið segir Ragnheiður stangveiðifélagið hafi verið í góðu samstarfi við Fák sem stendur að mótinu.
„Við ætlum bara að vinna þetta saman því veiðimenn og hestamenn geta alveg verið vinir,“ segir Ragnheiður.
Spurð hvernig sumarið leggist annars í hana segir Ragnheiður: „Veiðimenn eru náttúrulega alltaf svo hræðilega bjartsýnir og mér líst bara hrikalega vel á sumarið, það byrjar vel.“
Hún tekur þó fram að hún hafi sagt það sama fyrir síðasta sumar en veiðin þá var ekki með besta móti.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |