„Þetta er því miður eitthvað sem við getum við búið eftir nokkur ár, þó að okkar laxastofnar séu almennt ekki komnir á þennan stað í dag,“ voru fyrstu viðbrögð hjá Gunnari Erni Petersen framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga þegar undir hann voru bornar fregnir af mögulegri lokun flestra laxveiðiáa í Noregi á næstunni.
„Auðvitað þurfa landeigendur og veiðiréttarhafar að huga að sínum heimavelli og hvernig við getum sem best gengið um þessa stofna. Það sjá það hins vegar allir sem vilja sjá að langstærsta ógnin við villta laxastofna í dag er sjókvíaeldi. Norska vísindaráðið hefur komist að þeirri niðurstöðu undanfarin ár að stærsta ógnin við norsku stofnana er sjókvíaeldið. Lúsin og erfðamengunin og svo eru það sjúkdómar. Við sáum í vor að sýktir fiskar sluppu úr eldiskvíum og það getur haft alvarlegar afleiðingar,“ sagði Gunnar Örn.
Hann bendir á að þetta sé hinn nýi raunveruleiki. „Þetta er svo ofsaleg ógn. Við erum að tala um sjötíu milljónir eldislaxa í kvíum hérna við landið á meðan að hrygningarstofninn okkar í villta laxinum hefur farið niður í tuttugu þúsund fiska. Þegar stofninn er orðinn svona lítill þá má hann ekki við neinu og þá þurfum við landeigendur að fara að spyrja okkur, getum við verið að veiða úr þessum stofni. Sennilega væri það ekki vandamál ef ekki væri fyrir ógnina af sjókvíaeldinu.“
Gunnar Örn bendir á að þegar hrygningarstofninn hefur minnkað jafn mikið og tölur sýna með villta íslenska laxinn þá sé hann útsettari fyrir erfðamengun og hvers konar áföllum. Hann bendir á að veiðiréttarhafar á Vestfjörðum hljóti að spyrja sig hvort verði ekki að hætta að drepa fiska í þeim ám vegna nálægðar við sjókvíar. Innspýting af strokulaxi geti hreinlega þurrkað út þessa litlu stofna sem þurfi alla mögulega vernd sem hugsast getur.
Er þetta framtíðin á Íslandi að við munum neyðast til að loka laxveiðiánum?
„Ef við náum ekki að stíga niður fæti og stöðva þann uppgang sem virðist framundan í eldinu, með þeim aðferðum sem beitt er þar í dag, þá held ég að ég verði að segja já. Það er ekkert sem eldismenn hér eru að gera öðruvísi en í Noregi. Þeir eru vissulega búnir að segja að ekkert eigi að sleppa eða koma upp sjúkdómar. En það hefur bara ekki staðist. Af hverju ætti raunveruleiki íslenskra laxveiðiáa og laxastofnsins að verða öðruvísi en í Noregi?“
Gunnar Örn segir að þetta snúist svo mikið um magnið af fiski í sjókvíum. Ef þeir væru kannski bara einhverjar þúsundir þá væri vandamálið ekki svo yfirvofandi og ógnandi og hægt að ráða við það. En sjötíu milljónir laxa, það horfir öðruvísi við.
Samkvæmt þessum tölum þá þyrfti 3,500 hrygningarstofna af villta íslenska laxinum til að fylla eldiskvíarnar.
„Það sem má segja um Ísland, þó svo að einhverjir hafi skoðanir á stangafjölda í einstökum ám, ekki nógu mikið af veiða og sleppa og ýmiskonar gagnrýni verið sett fram. Þá verður það ekki af okkur tekið að við höfum stýrt þessum stofnum okkar og umgengist þá betur heldur en nokkur af okkar nágrannaþjóðum. Við höfum umgengist þessa stofna miklu, miklu betur og það gerir þessa stöðu enn grátlegri.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |