Það eru kátir veiðimenn að opna Stóru–Laxá í Hreppum. Eftir þrjár vaktir er búið að landa 25 löxum á víð og dreif um ána. Nú er bara talað um efra og neðra svæði í Stóru en ekki eitt, tvö, þrjú og fjögur. Fyrstu þrjú svæðin mynd neðra svæðið og fjögur er svo efra svæðið.
Veiðin var sambærileg á báðum svæðum. Fyrstu vaktina gáfu bæði svæði fjóra laxa og það sama var uppi á teningnum á seinni vaktinni. Komnir sextán eftir tvær vaktir. Síðdegið í gær gaf svo níu laxa.
Hrafn H. Hauksson, staðarhaldari við Stóru er að veiða og hann var ekkert að draga úr því. „Þetta er svo geggjað. Við komum upp á Hólmabreiðu og þar var flott grúbba af laxi og það voru allt naglar,“ upplýsti staðarhaldinn í gærkvöldi, nýbúinn að borða andaconfit sem Stefán Viðarsson meistarakokkur eldaði í efra.
„Mér finnst þetta líta vel út. Við sáum í gærkvöldi laxa koma inn í Dagmálahyl og ég myndi skjóta á að þetta hafi verið grúbba upp á tuttugu fiska. Við lönduðum fimm og misstum einhverja. Þvílíkur seinnipartur.“
Stóra er að byrja vel en þar hafa opnanir sveiflast mjög mikið í gegnu árin. Allt frá því að vera daufar yfir í að vera magnaðar. Það verður hins vegar mjög athyglisvert að fylgjast með framhaldinu því oft hefur miðsumarið verið höfuðverkurinn í Stóru. Veiðin hefur svo aftur glæðst í lok tímabils.
Finnur B. Harðarson, er í forsvari fyrir þann hóp sem er með Stóru–Laxá á leigu og hann er jafnframt landeigandi að ánni. Finnur og Stóra–Laxá hafa verið milli tannanna á veiðimönnum í vetur. Ekki síst fyrir óbilandi bjartsýni Finns og dugnað. Búið er að stórbæta alla aðstöðu og aðgengi fyrir veiðimenn. Glæsilegt veiðihús er risið á neðra svæðinu og slóðagerð hefur verið í fullum gangi. Stóra–Laxá klauf sig út úr Veiðifélagi Árnesinga í vetur og er nú sérstakt félag um ána. Finnur og félagar hafa verið óþreytandi að taka á málum sem hafa viðgengist í gegnum árin, eins og malartekja úr henni án leyfis. Þá hefur mikið verið rætt um veiðiaðferðir á Iðu og víðar á vatnasvæðinu neðan við Stóru–Laxá.
Hins vegar eru góðar fréttir af Iðunni en þar fengu veiðimenn fimm laxa í gær á seinni vaktinni og þar af voru fjórir smálaxar. Tveir smálaxar hafa veiðst í Stóru af þessum 25 sem eru komnir. Allt eru þetta jákvæð teikn.
Auðvitað skiptir miklu máli að vel fari um veiðimenn og gott sé að komast að ánni. Stóra spurningin í Stóru er hins vegar hvað mun veiðast. Sveiflur í henni í gegnum árin hafa verið miklar og framlengdur veiðitími í fyrra skilaði mun hærri tölum en hefðbundið veiðitímabil hefði gert.
Það magn af fiski sem nú er mætt og lýsingar á veiðinni gefa góð fyrirheit. Vatnsmagnið er ekki vandamál í byrjun sumars og mun skipta miklu máli. Sporðaköst munu fylgjast grannt með framgangi mála og áhugavert verður að sjá hversu vel átak í fiskrækt og á öðrum sviðum skilar sér í veiðitölum. Þar er óhætt að halda sig við bjartsýnina í það minnsta þar til annað kemur í ljós.
En 25 laxar á þremur vöktum á tíu stangir er flott byrjun og eitthvað sem allar ár og leigutakar, landeigendur og veiðimenn myndu fagna hvar sem er.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |