„Stórar stelpur“ og frí frá United

Denni og Catherine Polli sem veiddi fyrsta laxinn í Selá …
Denni og Catherine Polli sem veiddi fyrsta laxinn í Selá sumarið 2024. Þrír laxar veiddust á opnunardegi við erfið skilyrði og voru það allt hrygnur. Sú stærsta 97 sentímetrar. Ljósmynd/SRI

„Stórar stelpur“ glöddu veiðimenn í Selá, að sögn Helgu Kristínar Tryggvadóttur hjá Six Rivers Iceland, sem rekur og annast þessu Vopnafjarðarperlu ásamt fleiri ám. Selá opnaði í gær og þremur hrygnum var landað á opnunardegi. Allar voru þær stórar en ein bar af og mældist hún 97 sentímetrar. Það er hrygna úr efstu hillu, svo vitnað sé í orðfæri íþróttafréttamanna. Og fyrst við erum farin að tala um íþróttafréttamenn þá er gaman að sjá Jim Ratcliffe hefur tekið sér frí frá vangaveltum og uppbyggingu á fyrrum stórveldinu Manchester United. Jim er orðinn stór eigandi þar og hefur nú tekist á hendur annað gríðarstórt verkefni. Hann hefur einsett sér að reyna að bjarga Atlantshafslaxinum með aðgerðum á NA–horni Íslands, sem flestir veiðiáhugamenn þekkja.

Jim Ratcliffe kastar í Selá. Með honum er George sonur …
Jim Ratcliffe kastar í Selá. Með honum er George sonur hans. Þeir feðgar eru hér í núvitund og lausir við hugsanir um knattspyrnu eða slíka hluti. Ljósmynd/SRI

Hitt verkefnið og mögulega er það enn stærra er að koma Manchester United í fremstu röð á nýjan leik í enskri og evrópskri knattspyrnu. Hvort verkefnið skyldi nú vera meira krefjandi?  

Sá merkisatburður átti sér stað í opnun Selár að fyrsti laxinn kom úr Djúpabotnum, nánar tiltekið Djúpabotn Efri. Var það hrygna sem mældist 81 sentímetri. „Gísli og Denni muna ekki eftir að fyrsti fiskur sumarsins komi úr öðrum veiðistað en fossinum. Annar fiskur dagsins veiddist svo í fossinum. Glæsileg og sjaldséð 97 sentímetra hrygna. Þriðji fiskurinn, 80 sentímetra hrygna veiddist svo á Eiríksbreiðu,“ upplýsti Helga Kristín í samtali við Sporðaköst. Hún bætti við. „Þrátt fyrir sjötíu rúmmetra og kulda var opnunardagurinn í Selá góður og setti spennandi tón fyrir veiðitímabilið. Við erum vongóð um að þegar aðstæður batna fylgi mjög góð veiði í kjölfarið.“

Fumlaus og nákvæm vinnubrögð hjá Denna við mælingu á fyrstu …
Fumlaus og nákvæm vinnubrögð hjá Denna við mælingu á fyrstu hrygnunni. Hún er á ný komin í skjól í djúpum faðmi Selár. Ljósmynd/SRI

Þegar Helga Kristín vitnar í Gísla og Denna þá eru það þeir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri SRI og Sveinn „Denni“ Björnsson leiðsögumaður í Selá til fjölmargra ára.

Rennsli í Selá upp á 70 rúmmetra er afskaplega mikið. Aðspurð sagðist Helga Kristín á þessum tíma vilja veiða hana í 25 til 30 rúmmetrum. En flestar ár á landinu eru vatnsmiklar þessa dagana og biðin eftir sumrinu lengist. Dag er tekið að stytta og allt er eins og það á að vera.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert