„Stórar stelpur“ glöddu veiðimenn í Selá, að sögn Helgu Kristínar Tryggvadóttur hjá Six Rivers Iceland, sem rekur og annast þessu Vopnafjarðarperlu ásamt fleiri ám. Selá opnaði í gær og þremur hrygnum var landað á opnunardegi. Allar voru þær stórar en ein bar af og mældist hún 97 sentímetrar. Það er hrygna úr efstu hillu, svo vitnað sé í orðfæri íþróttafréttamanna. Og fyrst við erum farin að tala um íþróttafréttamenn þá er gaman að sjá Jim Ratcliffe hefur tekið sér frí frá vangaveltum og uppbyggingu á fyrrum stórveldinu Manchester United. Jim er orðinn stór eigandi þar og hefur nú tekist á hendur annað gríðarstórt verkefni. Hann hefur einsett sér að reyna að bjarga Atlantshafslaxinum með aðgerðum á NA–horni Íslands, sem flestir veiðiáhugamenn þekkja.
Hitt verkefnið og mögulega er það enn stærra er að koma Manchester United í fremstu röð á nýjan leik í enskri og evrópskri knattspyrnu. Hvort verkefnið skyldi nú vera meira krefjandi?
Sá merkisatburður átti sér stað í opnun Selár að fyrsti laxinn kom úr Djúpabotnum, nánar tiltekið Djúpabotn Efri. Var það hrygna sem mældist 81 sentímetri. „Gísli og Denni muna ekki eftir að fyrsti fiskur sumarsins komi úr öðrum veiðistað en fossinum. Annar fiskur dagsins veiddist svo í fossinum. Glæsileg og sjaldséð 97 sentímetra hrygna. Þriðji fiskurinn, 80 sentímetra hrygna veiddist svo á Eiríksbreiðu,“ upplýsti Helga Kristín í samtali við Sporðaköst. Hún bætti við. „Þrátt fyrir sjötíu rúmmetra og kulda var opnunardagurinn í Selá góður og setti spennandi tón fyrir veiðitímabilið. Við erum vongóð um að þegar aðstæður batna fylgi mjög góð veiði í kjölfarið.“
Þegar Helga Kristín vitnar í Gísla og Denna þá eru það þeir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri SRI og Sveinn „Denni“ Björnsson leiðsögumaður í Selá til fjölmargra ára.
Rennsli í Selá upp á 70 rúmmetra er afskaplega mikið. Aðspurð sagðist Helga Kristín á þessum tíma vilja veiða hana í 25 til 30 rúmmetrum. En flestar ár á landinu eru vatnsmiklar þessa dagana og biðin eftir sumrinu lengist. Dag er tekið að stytta og allt er eins og það á að vera.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |