Drepum við of mikið af smálaxinum?

Nýgenginn, silfurbjartur smálax sem Helga Garðarsdóttir veiddi í Sjávarfossi í …
Nýgenginn, silfurbjartur smálax sem Helga Garðarsdóttir veiddi í Sjávarfossi í Straumfjarðará í fyrra. Öllum laxi í Straumfjarðará í sumar hefur verið sleppt. Ljósmynd/Óttar Finnsson

Smálax á Íslandi er orðinn undir líffræðilegum viðmiðunarmörkum, þegar kemur að hrygningarstofni eftir að tekið hefur verið tillit til veiðiálags. Stutta útgáfan gæti verið – Við erum að drepa of mikið af smálaxi.

Hefðbundið mynstur í mörgum af laxveiðiánum á Íslandi er að vernda stórlaxinn. Sleppa skal öllum laxi yfir 67 til 70 sentímetra. Misjafnt eftir ám. Víða má hins vegar drepa einn smálax á dag á stöng. En hvað þýðir það þegar kemur að fjölda þeirra laxa sem eru drepnir? Tökum dæmi um veiðiá þar sem veitt er á átta stangir. Hér þarf að hafa í huga að göngumynstur laxa er misjafnt eftir landshlutum. Smálaxinn mætir til dæmis fyrr í Borgarfjörðinn en í ár fyrir norðan. En áfram með dæmið. Ef drepa má einn smálax á dag á stöng, þá getur sú tala hæglega hlaupið á hundruð laxa yfir sumarið. Segjum að í ímynduðu ánni okkar byrji smálax að sjást í töluverðu magni upp úr 10. júlí. Átta stangir nýta sér rétt sinn til að hirða einn lax á dag, alla tuttugu dagana. Það gerir samtals 160 smálaxa. Ef sama staða er uppi allan ágúst mánuð bætast við 240 laxar. Gefum okkur að fyrstu tíu dagarnir í september skili sömu niðurstöðu. Þá bætast við 80 smálaxar. Samtals gerir þetta 480 smálaxa. Hvað skyldu margir smálaxar í heildina hafa gengið í ána? Ef þeir eru fimm þúsund skiptir þetta sennilega litlu máli. Ef þeir eru innan við þúsund er þetta orðið mjög hátt hlutfall.

Á ráðstefnu Hafrannsóknastofnunar sem haldin var í maí og kallaðist Upptaktur að veiðisumri fór Hlynur Bárðarson yfir þá vinnu sem vinnuhópur á vegum Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) hefur unnið. Sá hópur hefur skoðað stöðu laxastofna í löndum við Atlantshafið. Vinnan er framkvæmd fyrst og fremst til að svara spurningum sem NASCO ber fram og lúta að veiðiþoli hinna ýmsu stofna. NASCO er N–Atlantshaf verndarstofnunin þegar kemur að villtum fiskistofnum.

Hlynur Bárðarson flytur erindi sitt á Upptakti að veiðisumri sem …
Hlynur Bárðarson flytur erindi sitt á Upptakti að veiðisumri sem Hafrannsóknastofnun stóð fyrir 16. maí. Hlynur greindi frá því að smálax er undir viðmiðunarmörkum hvað varðar hrygningarstofn að teknu tilliti til veiðiálags. Ljósmynd/Sporðaköst

Stofnunum er skipt upp í tvennt. Annars vegar smálax, eða lax sem hefur dvalið eitt ár í sjó og hins vegar laxar sem hafa dvalið tvo eða fleiri vetur í sjó og flokkast sem stórlax. Fyrst er lagt mat á stofninn. Nær hann þeim mörkum sem talin eru ásættanleg. Bæði stórlax og smálax á Íslandi eru yfir þeim mörkum. Því næst er tekið tillit til veiðiálags. Þá er fundinn út væntanlegur hrygningarstofn. Þar eru viðvörunarljós farin á blikka á Íslandi. Þegar kemur að stórlaxinum er hrygningarstofninn metinn gulur. Eða nálægt hættumörkum. Þegar kemur að smálaxinum er ástandið versnandi og hefur síðustu tvö árin verið undir viðmiðunarmörkum. Orðinn rauður. Sumarið 2022 var smálaxastofninn á Íslandi talinn um 94% af því sem viðmiðunarmörkin taka til. Ástandið versnaði svo sumarið 2023 og fór þá niður í 89%.

Nú er útlit fyrir gott smálaxaár og þá væntanlega skiptir skiptir hóflegt smálaxadráp minna máli en í þeim árum sem smálaxaganga er af skornum skammti. Þá komum við aftur að því sem sagði ofar í greininni. Hversu hátt hlutfall af göngunni erum við að drepa?

Afskaplega misjafnt er hvaða reglur gilda í veiðiám, þegar kemur að veiða og sleppa eða kvóta sem má drepa. Jafnvel getur verið erfitt að fá svör við nákvæmlega þeim spurningum og jafnvel er þetta feimnismál hjá sumum leigutökum.

Feðgar. Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár ásamt Andra Frey Björnssyni …
Feðgar. Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár ásamt Andra Frey Björnssyni syni sínum með fallegan lax úr Hnausastreng í Vatnsdalsá. Stórlaxinum er undantekningarlaust sleppt í mörgum ám. Spurningin er hvort minnka þurfi dráp á smálaxi?

Ef við kíkjum inn á angling iQ sem er rafræn veiðibók sem margar ár notast við má sjá hvernig þetta hlutfall er, það sem af er sumri. Auðvitað er sumarið rétt að byrja og smálaxinn er rétt að byrja að ganga á NV–horninu svo dæmi sé tekið. Hins vegar eru orðnar góðar göngur af honum í Borgarfirði og þær munu aukast næstu daga og vel fram í júlí. En kíkjum á nokkrar ár, hvernig staðan er. Þessar upplýsingar eru færðar inn af veiðimönnum sjálfum og eru það besta sem hægt er að styðjast við.

Vatnasvæði        Veiddir laxar     Sleppingar í %

Elliðaár                     42                   95%

Úlfarsá (Korpa)          18                   67%                  

Leirvogsá                   5                      0%

Laxá í Kjós                52                   71%

Langá á Mýrum         52                    65%

Straumar                  27                     4%

Brennan                   85                     59%

Þverá                       147                   71%

Kjarrá                       54                    91%

Norðurá                   308                    85%

Straumfjarðará           11                   100%

Haukadalsá               30                     50%

Hrútafjarðá                 5                     80%

Víðidalsá                   17                     88%

Vatnsdalsá                34                      93%

Blanda                      21                     100%

Stóra–Laxá                62                    100%

Eins og fyrr segir er þetta snemma veiðitíma. Forvitnilegt verður að skoða þessar tölur þegar líður nær hausti. Tölurnar sem hér er stuðst við miða við hádegi í dag.

Eitt sem vekur athygli eru mismunandi reglur á sama vatnasvæði. Þannig eru Straumarnir í Borgarfirði með aðeins fjögur prósent sleppt af veiddum löxum, á meðan að Norðurá er í 85%. Hvergi er þessi munur þó meiri en þegar við horfum á Stóru–Laxá. Veiðin í Hvítá við Iðu hefur lotið öðrum lögmálum en í Stóru–Laxá. Leigutaki Stóru hefur líka gagnrýnt veiðimenn og veiðiaðferðir í Hvítá, harðlega. Reglur hafa verið hertar á Iðu svæðinu en þar má enn drepa eitthvað af fiski. Sá fiskur gengur ekki upp í Stóru–Laxá en á sama tíma fara veiðimenn á Iðu eftir hertari reglum.

Þar sem er leyfilegt að drepa lax eru menn í fullum rétti að gera slíkt. Það þarf að gæta að sér í umræðunni og það má ekki glæpavæða það athæfi að ná sér í lax í soðið eða reyk þar sem það er leyfilegt. Ef á að breyta reglum í átt að meiri sleppingum þurfa þær reglur að koma frá leigutökum og landeigendum. Slíkt þarf að gerast áður en veiðileyfi er seld og kynna reglur fyrir þeim sem kaupa veiðileyfi.

Staðan í Noregi ætti að vera íslenskum veiðimönnum víti til varnaðar. Þar hafa stjórnvöld lokað 33 laxveiðiám. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lítið hefur gengið í árnar af laxi og það sem hefur þó komið er drepið að stórum hluta. Allt önnur veiðistjórnun er í Noregi en á Íslandi. Veitt er allan sólarhringinn og veiðimenning þar er önnur en hér. Veiða og sleppa er í mun minna mæli en á Íslandi. 

Það kemur frá stjórnvöldum í Noregi að loka ánum og er það byggt á viðvörunum vísindamanna. Sporðaköst minnast þess ekki að yfirvöld á Íslandi hafi gripið til lokana á ám ef lítið hefur gengið af laxi í einstakar ár, eða upp koma fordæmalausar aðstæður á borð við þurrka eða hita.

Rétt er að hafa í huga að vinnuhópurinn sem vitnað er til hér að ofan á vegum ICES kann í hugum einhverra að virka bara hópur vísindamanna að fjalla um tölfræði, en sagan segir okkur að alþjóðasamfélagið horfir til þessara niðurstaðna. Hvalveiðibann á sínum tíma rann undan rifjum ICES þó að vitað sé að þeir stofnar sem Íslendingar veiða úr séu langt frá útrýmingarhættu.

Þarna eru viðvörunarbjöllur að hringja þó svo að ekki heyrist hátt í þeim enn sem komið er. Við getum minnkað veiðiálag en erfiðara er eða nánast ómögulegt að stýra því hvað kemur mikið til baka af laxi. Kannski er rétt að auka enn frekar sleppingar á laxi og hlúa að smálaxinum.

Hér fyllast þeir sem eru á móti veiða og sleppa vandlætingu, enda er sú veiðistjórnun mjög umdeild meðal veiðimanna. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að auknar sleppingar draga úr veiðiálagi og geta mögulega komið hrygningarstofni smálax úr því að vera rauður og þar með undir þeim mörkum sem miðað er við, yfir í að vera gulur eða blár og mæta þessum sömu viðmiðunarmörkum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert