Norsk stjórnvöld ásamt vísindamönnum munu endurmeta stöðuna í þeim 33 laxveiðiám sem lokað var í landinu með stuttum fyrirvara vegna þess hve lítið gekk af laxi í þær. Nyrstu fylkin í Noregi þurftu ekki að sæta lokunum en þar eru menn að bregðast við stöðunni engu að síður.
Landeigendur að ánum Konfjordselva og Storelva kynntu í dag hertar veiðireglur að fengnum ábendingum frá norsku umhverfisstofnunni um að gæta sérlega vel að laxinum í ár. Þessar ár eru ekki lokaðar en engu að síður tóku nýjar reglur gildi klukkan 18 í dag.
Heimillt er að drepa einn lax undir 68 sentímetrum á stöng á dag. Veiðum skal hætt eftir að fiskur er drepinn.
Allar laxar 68 sentímetrar og stærri eru verndaðir samkvæmt nýju reglunum og er skylt að sleppa þeim aftur og gæta þá sérstaklega að leiðbeinginum um hvernig lax skal meðhöndlaður við slíkt tækifæri.
Einungis léttar græjur eru leyfðar, samkvæmt reglunum. Væntanlega tekur það til þess að veitt sé í yfirborðinu með smáflugum.
Heimillt er að setja í og sleppa tveimur fiskum á dag og skal veiði hætt eftir það.
Í rökstuðningi með þessari ákvörðun segja samtök leigutaka að líffræðileg rök séu á bak við þessar nýju reglur. Í Kongfjordselva hefur gengið lítið af meðal stórum og stórum löxum í sumar. Þetta eru því varúðarráðstafanir til að tryggja að áin nái þeim viðmiðum sem sett eru varðandi hrygningarstofn.
Svo segir í yfirlýsingu landeigenda. „Við skiljum að þessar aðgerðir geti verið hamlandi fyrir veiðimenn. Við erum þó gæfusöm að enn eru veiðimenn að veiða árnar okkar og þeir hafa upp til hópa staðið með okkur í gegnum árin og virt þær ákvarðanir sem við höfum tekið. Í ljósi þess berum við fullt traust til veiðimanna að þeir axli ábyrgð og hafi hagsmuni villta laxins að leiðarljósi. Í ár þurfa hjörtu okkar að slá enn hraðar fyrir villta laxinn.“
Viðbúið er að fleiri ár í Noregi taki upp þessar reglur eða hliðstæðar þar sem þær eru runnar undan rifjum norsku umhverfisstofnunarinnar með stuðningi samtaka veiðifélaga.
Þann 5. júlí verður tekin ákvörðun um frekari lokanir í laxveiðiám í bróðurparti landsins. Sitt sýnist hverjum um hvert framhaldið verður en afar líklegt er ef að leyfð verði veiði á nýjan leik verði það með hertari reglum á borð við þær sem nefndar voru hér að ofan.
Þetta mun reynast mörgum laxveiðimanninum í Noregi erfitt, þar sem gríðar sterk hefð er fyrir því að veiða sér til matar og ein ástæða þess að ánum var lokað er að sá fiskur sem þegar var mættur hafði verið drepinn í stórum stíl. Það verður átak að ná Norðmanninum á einni svipstundu í veiða og sleppa.
Hrun varð í laxveiði í Noregi í fyrra og er það lélegasta ár sem sést hefur þar, þegar kemur að laxveiði. Veiðin í júní var svo langt undir því sem var í slæma árinu í fyrra. Því greip norska umhverfisstofnunin til þeirra ráða að loka 33 laxveiðiám í landinu. Margar þeirra eru meðal þekktustu veiðiáa í heiminum. Ljóst er hvert svo sem framhaldið verður að þessi staða er álitshnekkir fyrir Noreg sem laxveiðiland. Munu veiðimenn þora að panta og greiða fyrirfram veiðileyfi þar næsta ár? Það ár ber upp á oddatölu og ef að líkum lætur mun hnúðlax verða fyrirferðamikill í norsku ánum og þá sérstaklega þeim sem eru í nyrsta hluta landsins. Þetta eru vissulega óvissutímar í þessu þekkta laxveiðilandi.
Endurmat stöðunnar mun liggja fyrir um helgina.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |