Óhætt er að segja að Sæmundará í Skagafirði hafi opnað á jákvæðum nótum. Veitt var á tvær stangir í opnun og lönduðu þær tíu löxum. Þegar líður á tímabilið er stöngum fjölgað í þrjár.
Þetta er góð opnun og betri en í mörgum af þekktari nöfnum á NV-landi, eins og Laxá á Ásum, Blanda, Víðidalur og fleiri. En auðvitað skiptir máli að aðstæður í þeim ám voru einkar erfiðar í opnun. Mikið vatn og litað á köflum.
Sæmundará opnar seint miðað við margar ár en tímasetning á opnun skiptir miklu máli. Veiðin í opnun var dreifð en efsti veiðistaður Fjallfoss gaf flesta fiska eða þrjá. Það er í raun dæmigert að fyrstu laxarnir taka strikið alla leið á efstu staði og þar veiddu þeir veiðifeðgar Freyr Frostason og Frosti Bergsson þrjá af þessum tíu löxum.
Stærsti laxinn veiddist í Melshyl og tók hann Sunray Shadow. Hann mældist 87 sentímetrar. Smálaxinn er mættur í Sæmundará og er það góðs viti. Fimm af löxunum í opnunarhollinu voru smálaxar og voru þeir virkilega vel haldnir.
Sunray var sterkasta flugan í opnun og gaf hún níu af tíu löxum. Fáar flugur eru betri til að leita að laxi þegar er gott vatn og ný fiskur er að skríða.
Spennandi opnun og áhugavert verður að sjá hvert framhaldið verður. Veiðin í Sæmundará hefur sveiflast töluvert milli ára og hefur farið í fjögur hundruð laxa þegar best lætur. Meðalveiði síðustu tíu ár í henni er 247 laxar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |