Síðasta holl sem lauk veiði í Miðfjarðará fór yfir hundrað laxa á þremur dögum. Á sama tíma hafa laxagöngur í gegnum teljara í Elliðaánum náð áður óþekktum hæðum.
Fyrsta hundrað laxa holl sumarsins sem Sporðaköst hafa frétt af kom í Miðfjarðará í holli sem lauk veiðum á hádegi í gær. Samtals var landað 106 löxum. Það var hreinlega stuð í Miðfirðinum. Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki sagði í samtali við Sporðaköst að mikið af fiski hefði verið á ferðinni. „Einn morguninn fóru tvær stangir neðst í sjálfa Miðfjarðarána og önnur stöngin spilaði tíu laxa en landaði tveimur. Hin stöngin var á sama róli og landaði einum. Það var alveg nóg að gera hjá þessum mönnum,“ sagði Rafn Valur léttur í bragði.
Mikill munur er á magninu af laxinum sem nú er mættur í Miðfjarðará, eða það sem sést hefur undanfarin ár.
„Hvað er eiginlega í vatninu í Bæjarlæknum?“ spurði Ásgeir Heiðar Sporðaköst í gærkvöldi. Tilefnið var ærið. Nýtt met var slegið í fjölda laxa sem fóru í gegnum teljarann í Elliðaánum á einum sólarhring. Gamla metið var 206 laxar. Fjöldinn í gær var um 440 laxar. Þetta er svipuð bæting á meti eins og ef einhver hlypi hundrað metrana á sex sekúndum. Ásgeir Heiðar sem þekkir manna best til veiði í Elliðaánum benti á þá staðreynd að þrátt fyrir þessa miklu göngu síðasta sólarhring voru fleiri laxar gengnir í Elliðaárnar á sama tíma í fyrra.
Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum annast Elliðaárnar ásamt samstarfsfólki sínu. Hann gerir þessa miklu göngu að umtalsefni á facebooksíðu Laxfiska.
„Metganga í Elliðaánum 12. júlí er 440 laxar gengu upp fiskteljarann. Það er mesti fjöldi laxa sem skráður hefur verið á göngu til hrygningar á einum sólarhring í Elliðaánum. Smálaxar voru í meirihluta að venju en óvenjuhátt hlutfall (tæplega 25%) laxanna voru stórlaxar eða afturbata hoplaxar (73 cm langir eða lengri). Lengdardreifing göngunnar endurspeglar að afturbata hoplaxar sem hafa hrygnt einu sinni eða oftar eru að skila sér í töluverðu magni aftur til hrygningar í Elliðaárnar.
Dimmviðri og rigningar 12. júlí gerðu það að verkum að ganga laxins innan sólarhringsins var óvenju jöfn yfir sólarhringinn, en venjan er að laxinn gangi að mestu upp ána fyrrihluta nætur og síðla kvölds,“ skrifar Jóhannes.
Á sama tíma settu frændur þeirra í Langá einnig met í uppgöngu í laxateljaranum í Skugga. Nú er spurning hversu mikið kemur af laxi eftir þetta. Haldi þetta svona áfram, það er að áfram verði góðar göngur getum við verið að horfa á frábært ár. Nokkuð ljóst má telja að hápunktinum sé náð í áðurnefndum ám, en gott framhald væri afar áhugavert. Þá er ekki síður spennandi hvernig göngur verða fyrir norðan, en þeirra aðal stórstreymi er það sem nær hápunkti 24. júlí.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |