Laxveiðisumarið 2024 fer betur af stað en mörg undanfarin ár. Allir vonuðu þetta en bara einn maður var nokkuð viss um gott ár. Það sem meira er að hann er fiskifræðingur og þeir hafa hingað til ekki verið þekktir fyrir afdráttalausar spár.
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og vaktari Vesturlands taldi góðar líkur á að veiðin í sumar myndi standa undir meðalári. Meðalár hljómar ekki spennandi, eða hvað? Laxveiðin í fyrra hefur verið kortlögð niður á fisk. Smálaxar á Vesturlandi voru 7.106 og stórlaxar 1.569. Samtals veiði upp á 8.675 laxa. „Það var lítið af stórlaxi í fyrra enda hafði smálaxinn verið undir meðallagi árið á undan. Smálaxinn er uppistaðan í þeim bata sem blasir við núna. Þessi bati virðist vera alveg frá Suðurlandi inn í Húnaflóann. Þetta kemur fyrst fram hér á Vesturlandinu og svo síðar fyrir norðan,“ upplýsir hann.
Undanfarin fimm ár hafa verið léleg í laxveiðinni og ekki náð meðalári. Sigurður Már er að vonast eftir meðalári í sumar. „Hvort að það getur orðið eitthvað betra en það, ég hreinlega veit það ekki. Við erum ekki með mikið af stórlaxi og þetta er háð því hvað smálaxinn dregur þetta langt áfram. Auðvitað spilar inn í hvernig veiðiskilyrði verða og hvernig mönnum gengur að ná því sem komið er. En ég tel að það verði miklu meira af laxi í ánum en verið hefur.“
Ef veiðin stendur undir meðalári þýðir það tvöföldun á veiði miðað við árið í fyrra. Meðaltalið segir fjórtán þúsund smálaxar á Vesturlandi á móti ríflega sjö þúsund í fyrra. Hafa ber í huga að meðaltalið sem vitnað er til er meðaltal frá árinu 1974 og enn og aftur, hér er talað um Vesturland.
Síðustu ár sem fóru yfir meðaltalið voru 2013 og 2015. Þá var sumarið 2018 einnig gott og nálgaðist meðaltalið. Síðan hefur þetta verið hálfgerð eyðimerkurganga og margir laxveiðimenn orðnir langþreyttir og þurftu að grafa nokkuð djúpt eftir bjartsýninni í vetur. Þetta fólk er nú að rétta úr kútnum.
Sporðaköst hafa ítrekað vitnað til spálíkansins sem Sigurður Már og félagar hafa sett saman og þá ekki síst fyrir atbeina Jóhannesar Guðbrandssonar. Það byggir á hitatölum á fæðuslóð seiða SV af landinu. Nú gerðist það síðasta sumar að hitinn á þessu svæði hækkaði um eina gráðu sem risastórt í líffræðilegu samhengi. Það var þessi hitahækkun sem gaf Sigurði Má tilefni til bjartsýni. Sjá má viðhengda frétt til að fá nákvæmar útfærslu á spálíkaninu og hverju fiskifræðingurinn spáði. Þá fylgir einnig tengill á spjallþátt þar sem Sigurður Már fer yfir spálíkanið í smáatriðum.
Sporðaköst ætla nú bara að leyfa sér að óska þér til hamingju. Þú spáðir og það virðist vera að rætast.
„Já, takk fyrir það. Ég var nú svolítið nervus fyrir að láta þetta frá mér. En ég ákvað að láta þetta fara því ég var nokkuð viss um að þetta myndi verða betra ár. Undanfarin fimm ár hafa verið mjög erfið í veiði og það einhvern veginn eiga allir inni fyrir þessum bata. Veiðimenn, landeigendur og allir sem að þessum bransa standa. Það er athyglisvert að sjá að þessi bati er eingöngu bundinn við Ísland, virðist mér. Það virðist lítið vera að gerast í öðrum löndum í Evrópu. Fréttir frá Noregi eru ekki uppörvandi og ég hef lítið heyrt frá Bretlandi og það segir mér að lítið er að gerast.
Ísland hefur lengi haft ákveðna sérstöðu í þessu. Hluti af beitarsvæðinu fyrir lax á Suðurlandi og vestur um, alveg norður í Húnaflóa er í Irmingerhafi. Svæðið sem Noregur og Bretland treysta á í þessu samhengi er Noregshaf og það er aðskilið okkar beitarsvæði. Austurlandið og NA–landið er örugglega að hluta til háð því sama svæði og það verður forvitnilegt að sjá hvað þessir landshlutar gera í sumar. Vonandi gengur vel þar og vissulega er farið mjög vel með árnar þar. Hins vegar er stórlax mun hærra hlutfall af stofninum og þar með veiðinni á því svæði.
En það er agalega skemmtilegt að fylgjast með þessu núna. Til dæmis eins og Andakílsáin sem ég hef vaktað að þar var holl sem veiddi milli þrjátíu og fjörutíu laxa á tveimur dögum á tvær stangir. Þannig að hún er að nálgast áttatíu laxa. Það er svolítið eins og þegar hún opnaði eftir umhverfisslysið sem varð þar.“
Fréttir hafa verið að berast víða af meiri laxagengd en í fyrra. Veiðitölur í Borgarfirði eru mun hærri en á sama tíma fyrir ári. Smálaxinn er mæta í töluvert meira magni en undanfarin ár. Um það vitna bæði veiðitölur og gögn úr laxateljurum.
„Að mínu mati er þetta þannig að þegar sjórinn er í lagi þá gengur allt betur. Bæði náttúrulega framleiðslan í ánum og þar sem menn eru í ræktun. Þegar umhverfið er erfitt þá gengur einfaldlega ekkert og það er ekki hægt að redda ám með sleppingum þegar sjórinn er erfiður. Þá ýkjast bara sveiflurnar ef að menn eru í mikilli fiskrækt á borð við gönguseiðasleppingar. Slíkar sleppingar ganga betur ef að sjórinn er í lagi líka.“
En hvernig líður fiskifræðingi í hjartanu þegar hann kemur með djarfa spá og hún virðist vera að ganga eftir?
„Ég er bara mjög glaður og fyrst og fremst fyrir hönd allra þeirra sem koma að auðlindinni. Ef að laxinn er að skila sér vel í sumar þá gengur lífið betur í kringum þennan bransa. Ég er mjög ánægður að þessi niðursveifla skuli vera búin í bili. Það er mjög góð tilfinning.“
En þetta er líka jákvætt fyrir næsta sumar. Þá ættum við að fá meira af stórlaxi, er ekki svo?
„Jú það eru góðar líkur á því. Menn hafa stundum sagt í gegnum tíðina í lélegum smálaxaárum að hann komi jafnvel á næsta ári sem stórlax. En það gerist ekki. Afföllin eru komin fram og þau reddast ekki eftir á. En á næsta ári ætti að koma meira af stórlaxi.
Ég bara veit það eftir langa yfirlegu í þessu fagi hvað sjórinn er ofboðslega mikilvægur í þessu samhengi. Hann er í raun eins og rofi, kveikt eða slökkt, eftir aðstæðum. Það eru ekki allir endilega sammála mér jafnvel ekki samstarfsmenn. Framleiðslan í ánum og umgengni um auðlindina skiptir auðvitað líka máli. Það þarf að vera næg framleiðsla en svo snýst þetta á endanum um hvernig sjórinn fer með seiðin, hvernig þeim reiðir af.“
Sigurður Már horfir til Elliðaánna sem dæmi um þær miklu sveiflur sem sjást milli ára. Endurheimtur geta hlaupið á 5% og í góðu ári allt upp í 20% hvað varðar endurheimt seiða. Ef þúsund seiði fara út koma fimmtíu aftur sem fullvaxnir laxar í slæmu ári. Í góðæri koma hins vegar tvö hundruð aftur. Það er himinn og haf þar á milli.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |