„Hjónabandið hékk á bláþræði“

Ragnheiður Þengilsdóttir með þann stærsta sem veiðst hefur í Víðidalsá …
Ragnheiður Þengilsdóttir með þann stærsta sem veiðst hefur í Víðidalsá í sumar. Hrygna 102 sentímetrar tekin á Bláma í Gapastokk. Ljósmynd/Óli Valur Steindórsson

Þau hjónin Óli Valur Steindórsson og Ragnheiður Þengilsdóttir áttu stressandi, spennuþrungna en umfram allt gleðistund þegar upp var staðið í Víðidalsá í morgun. Ragnheiður setti í stóran lax í veiðistaðnum Gapastokk. Fljótlega sáu þau hjónin sem bæði eru reyndir veiðimenn að laxinn var stór og ekki bara það, heldur risastór.

„Hjónabandið hékk á bláþræði þarna í um það bil tuttugu mínútur. En þetta fór allt vel og ég held að ég verði í náðinni alveg næstu tuttugu árin,“ hló Óli Valur í samtali við Sporðaköst. Hann bætti svo við að í dag væri hann klárlega betur giftur en hún.

Ragnheiður fann enn áhrifin af adrenalíninu þegar Sporðaköst ræddu við hana. „Þetta var bara geggjað og stærsti fiskur sem ég hef veitt. Stærsti hingað til var níutíu sentímetrar í Selá. Þetta var klikkað. Hálftíma barátta og þessi líka fallega hrygna. Þetta var algjör draumur og við náðum að sleppa henni fallega. Óli var á háfnum og sá um að mæla,“ sagði súperkát veiðikona. Hún minntist ekkert á stressið sem Óli var að upplifa en það er líka allt í lagi þegar hlutirnir enda svona vel.

Ragnheiður sýnir Blámann. Í huga ljósmyndarans er þetta bláþráðurinn sem …
Ragnheiður sýnir Blámann. Í huga ljósmyndarans er þetta bláþráðurinn sem minnst er á í fréttinni. Í baksýn er efsti hluti veiðistaðarins sem er Gapastokkur. Ljósmynd/Óli Valur Steindórsson

Bæði voru þau spurð hvort mælingin hefði verið hundrað prósent. Óli fullyrti það og hann er maður með reynslu hefur sjálfur tekið tvo hundraðkalla á veiðiferlinum. Sá stærsti hans mældist 107 sentímetrar og veiddist í Selá. „Hann mældist 102 sentímetrar.“

14. júlí er greinilega dagurinn til að veiða stórar hrygnur í Víðidalsá. Einmitt þennan sama dag í fyrra veiddist 101 sentímetra hrygna í Dalsárósi. Þetta eru gríðarlega verðmætir fiskar og það eru stóru hrygnurnar sem leggja til stærstu og bestu hrognin.

Óli Valur fékk þennan í Neðri-Valhyl. Hann brosir hringinn.
Óli Valur fékk þennan í Neðri-Valhyl. Hann brosir hringinn. Ljósmynd/Ragnheiður Þengilsdóttir

Fín veiði hefur verið síðustu daga í Víðidalsá eftir rólega byrjun. Níu löxum var landað í morgun og fengust þeir á öllum svæðum.

Sporðaköst óska Ragnheiði til hamingju með fiskinn stóra og um leið Óla með áhyggjulaust hjónaband til næstu áratuga.

Þetta er fjórði laxinn sem kemst á hundraðkallalistann í sumar. Það eru færri en tilkynntir hafa verið og hvetjum við alla veiðimenn til að standa vel að mælingum á fiskum og mæla í miðjan sporð fram á trjónu. Fiskur liggur alveg kyrr á hliðinni ef hann hefur vatn til að kjamsa á. Þá er kjörið að leggja málbandið á hann og smella af mynd.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
100 cm Laxá í Aðaldal Björgvin Krauni Viðarsson 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert