„Áhyggjufíkn og fullkomnunarótti“

Hrafn Ágústsson segir vorið og sumarið hafa verið viðburðarík í …
Hrafn Ágústsson segir vorið og sumarið hafa verið viðburðarík í Laxá í Þing. Kjarnorkurvetur, nýrenningur og stækkandi fiskur. Ljósmynd/Caddisbræður

Eitthvert mesta ævintýraland sem til er í heiminum til að veiða stóra staðbundna urriða, er Laxá í Þingeyjarsveit. Bæði Mývatnssveitin og Laxárdalurinn eru mögnuð svæði og ekki má gleyma sambærilegum svæðum aðeins neðar eins og Torfunum og raunar fleiri svæðum.

Hrafn Ágústsson annar Caddis-bræðra hefur verið mikið fyrir norðan í sumar. Sporðaköst fóru yfir stöðuna með honum fram til þessa en sumarið og ekki síst vorið hafa verið ákaflega viðburðarrík fram til þessa.

„Þetta er búið að vera ansi áhugavert. Byrjaði með rosahvelli. Norðan slagviðri og snjókoma, eitthvað sem menn hafa ekki séð í fimmtíu ár. Það fór heil vika í þetta. Ég var einmitt í holli í Mývatnssveitinni þegar þetta skall á. Áin var svo hreinlega óveiðanleg í viku á eftir. Svo tók við smávor og allir voru fastir í drullu og ekki hægt að komast á veiðistaði. Loks fór hún á flug og bæði Mývatnssveitin og Dalurinn eru búin að vera í hörkuformi, veiðilega séð,“ sagði Hrafn Ágústsson aðspurður um hvernig lífið hefði verið fyrir norðan fram til þessa. Hann er ekki búsettur þar en búinn að fara nokkrar ferðirnar til þessa og hefur drukkið þetta í sig.

Jolli frændi landar einum. Eyjólfur Sverrisson kominn með einn af …
Jolli frændi landar einum. Eyjólfur Sverrisson kominn með einn af þessum stóru í háfinn. Ljósmynd/Hrafn Ágústsson

Samanborið við fyrri ár. Betra eða svipað og venjulega?

„Ég held að þetta sé með því betra á báðum svæðunum. Við sjáum að það er stækkandi fiskur í Mývatnssveitinni. Rosalega vel haldnir og stórir og menn eru að þakka það aukningu í veiða og sleppa. Hann virðist ná að stækka meira, fiskurinn, og þeim fjölgar sem ná þessari góðu stærð.

Komin ný sending í Dalinn

Í Laxárdalnum er komin ný sending af því sem þeir kölluðu í gamla daga, nýrenning. Það eru silfurbjartir 50 til 55 sentímetra svona rúgbíboltar, alveg í bunkum. Þessir fiskar hafa ekki sést þarna í nokkur ár og þetta er mikil ráðgáta. Það er farin í gang rannsókn á þessum fiskum. Menn velta fyrir sér hvort hann sé að koma ofan að eða neðan að. Því þessi fiskur var ekki 30 til 40 sentímetrar í fyrra á sömu stöðum og hann er núna. Hann er að koma einhvers staðar að. Þannig að næsta ár lítur mjög vel út. Þá er þessi fiskur orðinn fimm til tíu sentímetrum stærri. Þetta eru ofboðslega skemmtilegir stangveiðifiskar. Hnausþykkir þriggja til fimm punda fiskar.“

Hefurðu kenningu?

„Þetta er mikil ráðgáta. Líklega er þetta þannig, ef ég horfi á þetta út frá mér, að það eru rosalega góðir hrygningarstaðir í Laxárdal. Sterk urriðaóðöl eru þekkt í Dalnum. Hann vill hrygna á grynningum í ákveðinni möl í ákveðnum straumi og þessi skilyrði er víða að finna efst í flóum og við hólma. Heimamenn eru sammála því að þarna sé víða að finna góð skilyrði fyrir hrygningu.

Erlendur veiðimaður með nýrenning. Þetta eru svakalega þykkir fiskar og …
Erlendur veiðimaður með nýrenning. Þetta eru svakalega þykkir fiskar og sterkir. Frábærir fiskar fyrir sportveiðimenn. En hvaðan koma þeir? Ljósmynd/Hrafn Ágústsson

Þessi fiskur er núna að koma á uppeldisslóðirnar sínar sem verðandi hrygningarfiskur og að byrja taka þátt í tilhugalífinu í ár eða næsta ár, en hann er mættur á svæðið. Hvert fer hann í millitíðinni, hvert fara þessir fiskar? Þeir eru á þessum stöðum, mjög líklega sem seiði en færa sig svo eitthvað þar sem eru betri skilyrði á uppvaxtartímanum. Annað hvort fer hann upp eftir eða niður eftir. Það getur verið að hann færi sig niður á neðri hluta dalsins. Það er þekkt að þar er smærri fiskur.

„Það er kominn nýrenningur“

Í gamla daga var þetta þannig þegar talað var um nýrenninginn að efsti bærinn, Ljótsstaðir, varð fyrst var við þetta. Þá var hringt í sveitasímann og tilkynnt. „Það er kominn nýrenningur,“ því þetta var besti matfiskurinn. Þá var stutt í að hann kæmi neðar og neðar. Þannig að hann gæti svo sem verið að koma bæði ofan að og neðan að. En þetta segir okkur að ástandið á ánni, þegar að svona gerist, hlýtur að hafa verið gott.

Þessi fiskur hefur ekki tekið þátt í hrygningu því eftir hana verða þeir brúnir og fá á sig hrygningarlitinn. Það sem er svo áhugavert við Laxárurriðann er að hann verður seint kynþroska þannig að hann notar alla orkuna í að stækka. Þegar hann er orðinn fimmtíu til sextíu sentimetrar þá er hann tilbúinn til að fara að hrygna. Víðast er þessu öðru vísi farið. Hann verður kynþroska svo snemma og þá fer öll orkan í það. Undantekningin er Þingvallavatn og fiskur sem hegðar sér svona verður stærri.“ Hrafn hefur sökkt sér í fróðleik um urriða í Laxá og það er meira.

„Þessi stofn hrygnir bara annað hvert ár og notar þá hitt árið til vaxtar og viðhalds. Með því að sleppa úr öðru hverju ári þá lifir stofninn betur af. Í erfiðu ári, þegar reynir á fiskinn, þá sleppa þeir betur sem ekki eyddu síðustu orkudropunum í hrygningarferlið sem er bæði strangt og krefjandi. Hluti af stofninum er þar af leiðandi alltaf í pásu og hugsar bara um að stækka og efla sig.“

Kjarnorkuvetur var upplifunin hjá Hrafni. Dauðir fuglar um allt og …
Kjarnorkuvetur var upplifunin hjá Hrafni. Dauðir fuglar um allt og lítil stemning í lífríkinu nokkurn tíma á eftir. Ljósmynd/Hrafn Ágústsson

„Eru draumafiskarnir“

Hrafn segir að fyrir þá sem stunda stangveiði séu þetta draumafiskar. Verða stórir og þessir silfruðu urriðar sem verða jafnvel sextíu til sjötíu sentímetrar og slepptu úr hrygningu, þeir eru svakalega sterkir og oftar en ekki nást þeir ekki.

Veiðin hefur verið góð í sumar. Mývatnssveitin er búin að gefa um 2.300 fiska og sleppihlutfallið er 83% sem veit á gott upp á framhaldið. Í Laxárdalnum hafa veiðst tæplega 700 urriðar og sleppihlutfall er 100%. Meðalstærðin í Mývatnssveitinni er 52 sentímetrar en en í Dalnum 58 sentímetrar. Þessar tölur styðja við það sem sagt er um svæðin. Fleiri og minni upp frá í Mývatnssveitinni en færri og stærri niður frá, í Dalnum.

Hvað með lífríkið, annars?

Hrafn hlær. „Við vorum einmitt að ræða þetta um daginn. Við veiðimenn erum áhyggjufíklar. Það er alltaf eitthvað. Ef það er ekki veðrið þá er það birtan og svo enda margir á að kenna veiðifélaganum um ef þeir finna ekkert annað. Okkur finnst alveg vanta nú, eða það mætti koma ein varggusa. Það kom ein í júní en þetta eru svo stórir fiskar. Þeir þurfa svo mikið til að viðhalda sér. Við sáum í fyrra að fiskurinn var orðinn frekar grannur upp úr miðjum júlí en þá kom varggusa í lok júlí og þeir bættu á sig einu til tveimur pundum á stuttum tíma. Þetta var alveg rosalegt. Þó að þetta sé þreytandi fyrir þá sem eru að veiða á meðan að mývargurinn er við ána, þá gerir þetta rosa mikið fyrir lífríkið og ekki síst fuglana.

Var líkast kjarnorkuvetri

Þegar spurt er um lífríkið þá fór þessi norðanhvellur afar illa með fuglastofna við ána. Lífríkið er í miklum sárum eftir þetta. Fyrst eftir veðrið þá var ástandið eins og eftir kjarnorkuvetur. Allt morandi í dauðum fuglum og lítil stemning í náttúrunni. Snjór víða og þetta var mjög skrítið því hitinn var kannski tólf gráður og sól.

En nú sjáum við að endurnar eru að verpa aftur. Þannig að fuglinn er seinn til. Það kæmi sér líka vel fyrir hann að fá mývarg núna. Mér er sagt að þessar göngur af mýinu geti verið ein til þrjár í góðu sumri en vaninn er tvær.“

Einn af þessum allra stærstu. Þessi fiskur hefur tekið pásu …
Einn af þessum allra stærstu. Þessi fiskur hefur tekið pásu í eitt ár frá hrygningu og sett alla orku í vöxt og viðhald. Glæsilegt dýr. Ljósmynd/lánsmynd

Veiðin dettur gjarnan niður þegar mývargurinn gýs upp. Eins og Hrafn bendir á þá keppa heimahnýttar flugur vart við klasa af gómsætum mýflugum sem renna hjá í milljarðavís. Hins vegar þegar framboðið minnkar þá virka þessar heimagerðu betur.

„Eins og ég segi við erum áhyggjufíklar. Þegar mýið gengur yfir þá er fiskurinn að stækka og það nýtist okkur betur síðar. En við ræddum í einu hollinu í sumar að við erum svo spennt og viljum svo lenda í góðum aðstæðum að á milli þess sem áhyggjufíknin sækir á okkur þá grípur marga veiðimenn fullkomnunarótti. Að aðstæður verði á einhvern hátt ekki nægilega góðar.“ Hrafn hlær og þetta geti verið eitthvað sem margir veiðimenn tengja við. Áhyggjufíkn og fullkomnunarótti.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert