Óopinbera heimsmeistaraeinvígið í laxveiði er enn í fullum gangi og margvíslegar vendingar hafa átt sér stað síðustu misserin. Tóti tönn, Þórarinn Sigþórsson er sá maður í heiminum sem veitt hefur flesta Atlantshafslaxa eða 21.077. Þannig var staðan fyrir veiðitímabilið. Tóti er búinn að bæta nokkrum við í sumar.
Sá sem er að elta Tóta er Árni Baldursson sem hefur landað hátt í tuttugu þúsund löxum og telur sig vera um 1.500 löxum á eftir Tóta. Árni er ríflega tuttugu árum yngri en tannlæknirinn og telur sig eiga möguleika á að ná honum. Hann segist engu að síður verða hamingjusamur haldi Tóti titlinum.
Árni er mikill aðdáandi Tóta og segir hann mikla fyrirmynd fyrir sig og marga aðra veiðimenn.
Alls konar uppákomur hafa sett svip sinn á einvígið undanfarin misseri. Árni er fótbrotinn sem stendur og allar líkur á að hann missi af veiðitímabilinu. Tóti hefur líka átt við fótamein að stríða en er í dag í fínu formi, eftir því sem Sporðaköst komast næst. Það er því ljóst að þetta einvígi er enn í fullum gangi. Eins og Árni Baldursson orðaði það, „Ég er hérna enn og hann getur ekki bara hallað sér aftur og slakað á. Ég veiddi 170 laxa í fyrra og það er alveg möguleiki á að ég nái honum. Vissulega hefur veiðin minnkað og það meira að segja þó að maður sé að auka ástundun,“ hlær Árni.
Þó að þessum tölum sé haldið saman meira til gamans þá eru þeir félagar Árni og Tóti báðir miklir keppnismenn og þetta verður ekki útkljáð strax. Ferill þessara tveggja ótrúlegu veiðimanna hefur vakið athygli út fyrir landsteina og fleiri en einn blaðamaður hefur rætt þetta við Árna Baldursson.
Hann var gestur Dagmála Morgunblaðsins í gær og þar barst þetta óformlega einvígi þessara tveggja kappa til tals. Í myndbandinu sem fylgir fréttinni fer Árni Baldursson yfir stöðuna eins og hún blasir við honum.
Þátturinn í heild sinni er opinn fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |