Sá skemmtilegi og þjóðlegi siður hefur orðið til í Ytri–Rangá að skella í pönnukökur þegar þúsundasti laxinn er veiddur. Pönnukökuilmur barst frá veiðihúsinu í gær og var það til heiðurs Danilo Assolari, veiðimanninum sem setti í landaði þúsundasta laxinum.
Fín veiði hefur verið í Ytri–Rangá. Þegar tölur voru birtar á vef Landssambands veiðifélaga síðastliðinn fimmtudag, sem tóku til fjölda laxa miðvikudagskvöldið 24. júlí var Ytri í 776 löxum. Klukkan 19 í gærkvöldi veiddist svo þessi lax sem kom ánni í fjögurra stafa tölu.
Í fyrra var sá þúsundasti aðeins síðar á ferðinni eða 1. ágúst. Veiðin er því betri sem því nemur.
Anna María Kristjánsdóttir bakaði pönnukökurnar og gerir hún það betur en flestir, að sögn þeirra sem hafa notið þeirra.
Það er gaman að því að þegar svona siðir og uppákomur festa rætur. Sporðaköst þekkja bara eitt annað dæmi af þessu tagi en það er austan úr Hofsá þar sem Jóhann Gunnar Arnarsson, butlerinn hefur bakað girnilega tertu af sama tilefni.
Flugan sem þúsundasti laxinn í Ytri tók í gær, er kölluð Peters Choice en þar er vitnað til þess að Pétur leiðsögumaður valdi fluguna fyrir Danilo og hefur hún reynst einkar fengsæl. Gaf til að mynda sex laxa í gær.
Lax númer tvö þúsund í Ytri–Rangá í fyrra veiddist 20. ágúst. Miðað við stöðuna núna þar sem veiðin er meiri þá má telja líklegt að hann veiðist 14. eða 15. ágúst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |