Magnaðir dagar í Miðfjarðará

Stærstu laxarnir í Miðfjarðará er tveir 95 sentímetra fiskar. Hér …
Stærstu laxarnir í Miðfjarðará er tveir 95 sentímetra fiskar. Hér er David með annan þeirra. Hundraðkallarnir láta bíða eftir sér. Ljósmynd/Jóhann Birgisson

Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt magnaðir í Miðfirðinum. Fara þarf aftur til ársins 2018 til að finna sambærilegar veiðitölur. Stærsti dagurinn til þessa var föstudagurinn 26. júlí. Þá veiddust hvorki meira né minna en 63 laxar. Laugardagurinn var svo á svipuðum nótum með 58 laxa. Í gær voru aðstæður frekar erfiðar, vaxandi vatn en eins og Rafn Valur Alfreðsson leigutaki sagði hlæjandi í samtali við Sporðaköst, „Það rættist aðeins úr þessu og við bókuðum 49 í gær.“

Tvær megin ástæður liggja að baki þessari miklu veiði. Í fyrsta lagi er meira af fiski heilt yfir að ganga í Miðfjarðará. Síðari ástæðan er ekki veigaminni. Vesturáin sem hefur verið léleg síðustu ár, eða alveg frá þurrkasumrinu mikla 2019 hefur nú náð vopnum sínum og þar er mikið af fiski.

Vesturáin í Miðfirði er á nýjan leik orðin full af …
Vesturáin í Miðfirði er á nýjan leik orðin full af fiski eftir mögur síðustu ár. Vatnið er gott í Miðfirði, enda hefur þetta sumar verið gott upp á vatnsbúskap. Ljósmynd/Jóhann Birgisson

„Já. Þessar tölur höfum við ekki séð í nokkur ár eða frá því 2018. Besti dagurinn til dæmis í fyrra var 25. júlí og þá veiddust 32 laxar. Það var eini dagurinn sem við fórum yfir þrjátíu. Þannig að þetta er frábært og mikil aukning frá síðustu árum,“ upplýsti Rafn Valur í samtali við Sporðaköst.

Síðustu þrír dagar hafa gefið 170 laxa. Engin náttúruleg laxveiðiá á landinu státar af slíkri veiði það sem af er tímabilinu. Aukningin milli ára í Miðfirði er hundrað prósent, eða tveir fyrir hvern einn lax sem hafði veiðst á þessum tíma í fyrra.

Gæðunum er misskipt í Húnvatnssýslunum þetta sumarið. Blanda hefur gefið 161 lax og er niður um 43% frá því í fyrra, sem var lélegt ár í henni. Hrútafjarðará er með 127 laxa og er það aukning upp á tæp tvö hundruð prósent frá síðasta sumri. Víðidalsá sýnir hóflega aukningu frá því í fyrra og er komin með 326 laxa sem er 18 prósent meira en 2023. Vatnsdalsá er að bæta hressilega við sig og sömuleiðis Laxá á Ásum. Eftir stendur Blanda sem menn klóra sér í hausnum yfir. Sumarveiðin í Blöndu er minni en þessir þrír dagar hafa gefið í Miðfjarðará.

Tveimur landað í Grjóthyl sem er einn af lykilstöðum Miðfjarðarár. …
Tveimur landað í Grjóthyl sem er einn af lykilstöðum Miðfjarðarár. Þeir brosa breitt Jim og André enda í mokveiði. Ljósmynd/Jóhann Birgisson

Það má mikið fara úrskeiðis ef Miðfjarðará fer ekki yfir þúsund laxa múrinn á morgun eða á miðvikudag. Hún stendur núna í 928 löxum. Í fyrra náði hún fjögurra stafa tölu í byrjun september. Ef aukningin verður hundrað prósent í lok sumars, eins og staðan er nú, fer hún í 2.600 til 2.700 laxa en hún hefur ekki farið yfir tvö þúsund laxa síðan 2018 þegar lokatalan var 2.719 laxar. Í fyrra gaf hún 1.334 laxa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert