„Tímaspursmál hvenær drekarnir taka“

83ja með 87 sentímetra. Carl Racie fékk heldur betri niðurstöðu …
83ja með 87 sentímetra. Carl Racie fékk heldur betri niðurstöðu en hann var að búast við. Karlinn ætlaði að kasta á urriða og var með netta stöng. Þessi stórlax var hins vegar afar velkominn. Ljósmynd/Ármann Kristjánsson

„Sá stærsti ennþá er bara 91 sentímetri. Við erum búin að sjá drekana og það er einungis tímaspursmál hvenær þeir koma á land," sagði Ármann Kristjánsson landeigandi og leigutaki hins svokallaða miðsvæðis í Laxá í Aðaldal í samtali við Sporðaköst í morgun. Þar er um að ræða þriggja stangasvæði sem jarðirnar Jarlsstaðir og Tjörn eiga.  

Svæðið sameinar það besta sem Laxá hefur að geyma. Stóra laxa og bolta urriða. Víst er að byrjunin í laxinum lofar góðu og er prósentutalan í samanburði við árið í fyrra ævintýraleg. Á þessum tíma í fyrra voru komnir fimm laxar á land og mikið af urriða. Nú snýst þetta aðeins við. Sextán laxar komnir í bók. „Oftast byrjar laxveiðin hjá okkur í kringum 20. júlí en ég man ekki eftir svona góðri byrjun í háa herrans tíð,“ upplýsti kampakátur Ármann í samtali við Sporðaköst. Hann átti sögu handa okkur frá því í gær, þegar einn 83 ára kappi lenti í óvæntu atviki.

Þetta var barátta sem stóð í rúman hálftíma. Það er …
Þetta var barátta sem stóð í rúman hálftíma. Það er ekki sjálfgefið að landa svo kröftugum fiski á silungagræjur. Ljósmynd/Ármann Kristjánsson

„Heyrðu. Hann Carl Racie sem var að veiða hjá mér í gærmorgun. Hann er á veiðum með hópi af mönnum sem eru hjá mér, í Reykjadalsá og fleiri svæðum hjá fluguveidi.is. Félagi hans var búinn að reisa lax á Dýjaveitum nokkrum sinnum. Carl var farin að leiðast biðin svo hann fór á Jónsabreiðu sem er rétt fyrir neðan, að eltast við silung með stöng fyrir línu fimm og fluguna Gretti. Jónsabreiða geymir mjög stóra urriða en ég man bara eftir einum laxi veiddum þar áður og það var Jón heitinn frá Hjarðarhaga sem fékk hann fyrir um 20 árum síðan. En í fimmta kasti hjá Carl kom rosaleg taka og eftir þrjátíu mínútna baráttu var þessum glæsilega 87 sentímetra laxi landað. Það er ekki fyrir alla að landa svo stórum laxi á fimmu og hvað þá þegar að menn eru orðnir 83 ára gamlir líkt og Carl er.“ Ármann hafði gaman af og Carl er líklegast pabbi Tim Racie sem fékk hundrað sentímetra endurkomulaxinn í Mýrarkvísl í síðustu viku.

Flugan Grettir. Falleg urriðafluga en hún getur veitt fleira eins …
Flugan Grettir. Falleg urriðafluga en hún getur veitt fleira eins og kom í ljós. Ljósmynd/Aðsend

„Annars er það að frétta af Jarlsstöðum og Tjörn að laxinn mætti seint og það gekk brösuglega að ná þeim fyrsta á land, en eftir að það gerðist 20. júlí höfum við verið að fá allt upp í fimm á dag sem er eitthvað sem við erum himinlifandi með. Silungsveiðin hefur svo verið nokkuð stöðug í allt sumar þegar menn hafa farið beinlínis að eltast við urriða. Það er einn sjötíu sentímetra urriði kominn á land en stærsti laxinn er ekki nema 91cm og kom á Dýjaveitum í gær. Við erum búnir að sjá drekana svo það er bara tímaspursmál þangað til að þeir fara að koma á land.“ Ármann segir að svæðið hafi ekki verið stundað að fullu fram til þessa og því gæti veiðin hafa verið enn meiri hefði það verið gert.

Flugan Grettir eftir að 87 sentímetra lax er búinn að …
Flugan Grettir eftir að 87 sentímetra lax er búinn að naga hana í hálftíma. Ljósmynd/Ármann Kristjánsson

Í byrjun fréttarinnar sögðum við að prósentuaukningin milli ára væri ævintýraleg en um er að ræða fáa fiska enn sem komið er. Aukningin frá því í fyrra er 220%. Forvitnilegt verður að sjá hvort framhald verður á.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert