Sjötti staðfesti hundraðkall sumarsins

Lengdin sést svo vel hér og hausinn er stór og …
Lengdin sést svo vel hér og hausinn er stór og veiðiugginn einnig. Ljósmynd/Valgarður Ragnarsson

Einn af þekktustu stórlaxastöðum landsins stóð undir nafni í morgun. Valgarður Ragnarsson var með veiðimenn í leiðsögn i Víðidalsá og það fylgir því alltaf eftirvænting að veiða Dalsárós. Það er óvenju gott vatn í Víðidalsá miðað við árstíma og fiskurinn því dreifður. Flugan sem varð fyrir valinu í fyrstu yfirferð var Arion, flottúba. Veiðimaðurinn sem fyrstu fór í Dalsárós var enn að vinna út línu þegar flugan var tekin með látum. Alveg efst í strengnum.

„Þessi gerði allt sem við var að búast. Fór í landið hinu megin og við gáfum bara slakt og leyfðum honum að djöflast þar. Þetta var viðureign sem stóð í um tuttugu mínútur og við lönduðum þessum hæng niður á Skipstjórabreiðu,“ upplýsti Valli í samtali við Sporðaköst. Skipstjórabreiða er næsti veiðistaður fyrir neðan Dalsárós og ekki óalgengt að þessum stærstu íbúum Víðidalsár sé landað neðan við ósinn sjálfan þó að þeir taki þar.

Glæsilegur hængur úr Dalsárósi í Víðidalsá. Þetta eru fiskarnir sem …
Glæsilegur hængur úr Dalsárósi í Víðidalsá. Þetta eru fiskarnir sem svo margir veiðimenn eru að eltast við. Ljósmynd/Valgarður Ragnarsson

Mælingin var vönduð og Valli sagðist hafa lagt fiskinn í mölina og mælt hann „upp á millimetra,“ og hann stóð nákvæmlega 101 sentímeter. „Þessi fiskur er búinn að vera einhvern tíma í ánni og aðeins vottaði fyrir roða á kviðnum. Ég gerði það til gamans að mæla laxinn í sporðhorn og þá var hann 104 sentímetrar. Það sýnir hversu miklu munar á þessum stóru fiskum að mæla þá rétt og það í miðjan sporð.“

Sporðaköst taka ofan fyrir svona mælingu enda er þetta rétta mælingin. Þetta er sjötti fiskurinn sem nær hundrað sentímetrum í sumar á Íslandi sem Sporðaköst fá nægilega staðfestingu á. Vel kann að vera að þeir séu fleiri en þá hefur vantað vitni eða mæling ekki tekist nægilega vel. Einnig þarf að fara saman hljóð og mynd í þeim skilningi að myndir sýni hversu stór laxinn er í raun. Í fyrra voru komnir átta hundraðkallar á listann og árið þar áður tólf. Fer saman að enn sem komið er virðist minna af þessum allra stærstu og hertar kröfur Sporðakasta.

Þykktin. Eins og höfrungur. Þessi tók fluguna Arion.
Þykktin. Eins og höfrungur. Þessi tók fluguna Arion. Ljósmynd/Valgarður Ragnsson

Þetta er fiskur númer tvö í Víðidal í þessum flokki í sumar. Þá hafa Laxá í Aðaldal, Mýrarkvísl, Blanda og Kjarrá gefið einn hver. Stærsti lax sumarsins til þessa veiddist í Laxá í Aðaldal og var það 106 sentímetra fiskur.

Víðidalsá hefur gefið 343 laxa það sem af er sumri og það er 23% betri veiði en á sama tíma í fyrra þegar hún stóð í 278 löxum, samkvæmt rafrænu veiðibókinni angling iQ. Hollið sem hætti á hádegi í dag var með um níutíu laxa og er það fín veiði miðað við þær væntingar sem menn geta haft á þessum þriðja áratug aldarinnar þegar kemur að laxveiði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka