Loksins upp úr fimm ára öldudal

Írskur veiðimaður með þúsundasta laxinn í Miðfjarðará. Þessi veiddist í …
Írskur veiðimaður með þúsundasta laxinn í Miðfjarðará. Þessi veiddist í gær í Leirhöfðafljóti. Leita þarf aftur til ársins 2018 til finna sambærilega veiði og hefur verið í sumar í Miðfjarðará. Ljósmynd/Rafn Valur Alfreðsson

Það eru ár og dagur síðan að jafn mikil aukning hefur sést á laxveiði milli ára og staðfest er í þó nokkrum ám. Þær sem eru bókstaflega á flugi eru Miðfjarðará, Norðurá, Kjarrá, Stóra Laxá, Grímsá og Langá bætir hressilega við sig. Fleiri ár eru að bæta mikið við sig.

Bæði Miðfjarðará og Norðurá náðu yfir þúsund laxa í lok júlí. Það hefur ekki gerst síðan sumarið 2018 í báðum þessum ám. Sama er að segja um samanlagða tölu úr Þverá og Kjarrá.

Það eru margar og merkilegar fréttir sem má lesa út úr listanum hér að neðan yfir ríflega tuttugu bestu laxveiðiárnar. Vonandi markar þetta ár endalok fimm ára lægðarinnar sem laxveiði hefur verið í hér á landi og hófst með þurrkasumrinu mikla 2019. Fara þarf aftur til 2018 til að finna sambærilega veiði. Aukningin í ár byggir fyrst og fremst á góðum smálaxagöngum nánast um allt land. Það er ávísun á áhugaverða vorveiði næsta sumar. Mikil og sterk fylgni er milli þess að góðar smálaxagöngur skili góðu magni af stórlaxi ári síðar. 

Það sem margir óttuðust var að laxveiðin væri komin niður í þær tölur sem við höfum séð síðustu ár. Þeir hinir sömu geta nú farið að gæla við að til lengri tíma litið hafi þetta verið öldudalur og við séum nú á leið upp úr honum. Það mun tíminn leiða í ljós en þetta sumar verður betra en síðustu ár og útlitið fyrir næsta ár er ágætt.

Leginn hængur úr Klapparstreng í Laxá í Kjós. Þessi lax …
Leginn hængur úr Klapparstreng í Laxá í Kjós. Þessi lax mætti snemma og ætlaði að tryggja sér góðan stað og hrygnu. Sumarið að styttast í annan endann þó það hafi varla byrjað. Brosleiti veiðimaðurinn er Mark Gudgeon. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

Mikil aukning í Stóru, Kjós og Kjarrá

Ef við horfum á fleiri ár þá vekur athygli sú mikla aukning sem er á veiði í Stóru Laxá. Aukningin milli ára, miðað við sama tíma í fyrra er hvorki meiri né minni en 349%. Stóra er nú á svipuðu róli og hún var á sumarið 2022 þegar hún skilaði sínu næst besta ári með 934 laxa.

Kjarrá er með aukningu upp 139%. Síðustu ár hefur hún oft skilað einna bestu veiðinni síðsumars. Verði svo einnig í ár er hún að fara yfir þúsund laxa.

Laxá í Kjós er með tveir fyrir einn í samanburði við 2023. Aukningin er 96%. Aðeins er misræmi í tölum þar en það skýrist af því að samanburður í veiðitölum við síðasta ár er 2. ágúst en prósentutalan tekur mið af stöðunni eins og hún er núna. Þarna skeikar tveimur heilum veiðidögum. 

Ólík hlutskipti Rangánna

Samanburður á Rangánum er eftirtektarverður. Ytri Rangá er að skila yfir 400 löxum í síðustu viku á meðan að Eystri var með 200. Raunar mátti sjá fréttir í morgun að göngur væru að skila sér í vaxandi mæli í hana og væntanlega koma þær þá fram í næstu vikutölum. En í dag er mikill munur á Rangánum. Ytri bætir töluvert við sig frá í fyrra en Eystri er töluvert undir 2023. Það er veruleg sveifla.

Húnavatnssýslurnar eru að taka betur við sér með smálaxinum sem er að birtast í meira mæli en síðustu ár. Að sama skapi er lítið af stórlaxinum, enda var smálaxinn ekki mikill í fyrra, talandi um fylgni milli ára. Þannig eru þær systur Víðidalsá og Vatnsdalsá að bæta við sig og þá sérstaklega Vatnsdalsá. Hrútafjarðará er að bæta mikið sig og er með þrír fyrir einn miðað við síðasta sumar. 154 núna á móti 51 laxi í fyrra á sama tíma. Fara þarf aftur til 2018 til að finna betri tölur í henni.

Stefnir í metár í Jöklu

Athyglisvert verður að fylgjast með Jöklu í framhaldinu. Hún er á svipuðum stað veiðilega og í fyrra. Tólf prósent aukning milli ára. Síðasta vika gaf góða veiði eða 144 laxa. Í fyrra fór hún hins vegar á yfirfall í byrjun ágúst og þá er lítið í boði nema hliðarárnar. Nú er nokkuð ljóst að hægt verður að veiða Jöklu út ágúst og eins langt fram í september og reglur heimila. Bestu ár í Jöklu hafa gefið rétt yfir 800 laxa. Stefnir nú hraðbyri í það að hún geti bætt þá tölu og sett nýtt viðmið.

Við gerum eina megin breytingu á listanum yfir efstu árnar. Nú birtum við Þverá og Kjarrá sitt í hvoru lagi. Vissulega hefði sameinuð tala sett þær í efsta sætið með 1327 laxa. Hins vegar er nú um hríð búið að bóka veiðina sitt í hvoru lagi og samanburðartölur tiltækar. Með þessum hætti fást betri upplýsingar um hvort svæði fyrir sig. 

Hér er listi yfir tuttugu efstu árnar. Nú er farið að færast fjör í leikinn og veiðin víðast hvar betri en á sama tíma í fyrra. Í nokkrum ám er hún mun betri. Fyrsti dálkurinn er talan í viðkomandi á í lok dags í gærkvöldi, 31. júlí. Dálkur tvö, veiðin í fyrra segir til um hver talan var í loks dags 2. ágúst í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo veiðin síðustu sjö daga, samkvæmt tölum frá angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga. Fjórði og síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu miðað við 31. júlí 2023 þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar.  

Vatnasvæði        Veiddir laxar    Veiðin 2023    Vikuveiðin    Breyting í %

Ytri–Rangá            1191             1085                 415              --  

Miðfjarðará           1033               556                 312             96%

Norðurá                1029               649                 119             63% 

Eystri–Rangá          725               924                 199               --

Urriðafoss              719*              629                   --                --

Þverá í Borgarf.       683               469                 118              48%

Kjarrá                    644               274                 147             139%

Langá á Mýrum       640               397                 137              64%

Selá í Vopnafirði      538                526                104               4%

Laxá á Ásum           520               331                117                --

Elliðaár                   511               375                 72               41%

Grímsá                   476                 283                 85               --

Jökla                      474                 429                144              11%

Laxá í Kjós              467                 208                116              98%

Haffjarðará             451                 557                103               --

Laxá í Leirársveit     445                 171                 90               --

Hofsá                      362                 515                 76             -26%

Víðidalsá                 361                  312                98              25%

Laxá í Aðaldal          360                  283                92              28%

Stóra Laxá              323                  144                 49             349%

Vatnsdalsá              316                   186                78              --

Þverá/Kjarrá væru í efsta sæti ef árnar væru áfram taldar saman með 1327 laxa. Það er 21 laxi meira en lokatalan í fyrra hljóðaði upp á. Það er býsna ábyggilegt að samanlögð tala þeirra fer yfir tvö þúsund laxa en það hefur ekki gerst síðan sumarið 2018.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert