„Sjóbirtingur er mættur á allt svæðið“

Syðri-Hólmi í Tungufljóti. Hér er vel haldin 78 sentímetra hrygna. …
Syðri-Hólmi í Tungufljóti. Hér er vel haldin 78 sentímetra hrygna. Mætt snemma í ferskavatnið. Ekki ólíklegt að sett verði í þessa aftur í haust. Ljósmynd/Fish Partner

„Það er mættur sjóbirtingur á allt svæðið, hér fyrir austan. Það er líka mjög gott vatn í öllum ám og allt önnur staða en var í fyrra,“ sagði Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner sem leigir Tungufljót, Vatnamót og Geirlandsá í Vestur Skaftafellssýslu.

Hann telur þetta vera í fyrra fallinu en ekkert óvenjulegt. Fyrst og fremst horfir hann til þess að mikið og gott vatn geri það að verkum að fiskurinn gengur fyrr úr jökulvatninu og upp í ferskvatnið eins og til dæmis í Tungufljótinu. Hann var þar við veiðar ásamt Bandaríkjamönnum í gær og fyrradag. Fyrri daginn fengu þeir fjóra sjóbirtinga og einn lax. „Það er fiskur í öllum hyljum og það er kannski óvenjulegt á þessum tíma. Fyrstu göngurnar láta oft sjá sig um miðjan júlí og svo verður hlé á fram til mánaðamóta. En nú er fiskur mættur á þessa helstu staði.“ Kristján var staddur við Búrhyl í Tungufljóti þegar við spjölluðum við hann. Var með símann í annarri hendi og flugustöngina í hinni. „I saw one jumping at the tail of the pool,“ kallaði hann skyndilega til annars gestsins. Sem sagt, það stökk einn neðst í hylnum.

Kristján Páll með annan úr Syðri-Hólma. Þeir fengu líka birtinga …
Kristján Páll með annan úr Syðri-Hólma. Þeir fengu líka birtinga í Hlíðarvaði og í Búrhyl. Gott vatn í Tungufljótinu eftir rigningasumar býður upp á allt aðrar aðstæður en blöstu við í byrjun í fyrra. Ljósmynd/Fish Partner

Fiskur er mættur í Eldvatnið, eins og við greindum frá fyrir nokkrum dögum. Kristján kíkti við í Vatnamótunum og tók nokkur köst og hann varð var við fisk þar. 

„Þetta er allt önnur staða en var hér á sama tíma í fyrra. Ég man ekki eftir því að fiskur hafi verið búinn að dreifa sér svo snemma og ég tengi það fyrst og fremst hversu gott og mikið vatn er í öllum ám á svæðinu. Það er fiskur hér í öllum hyljum og ég hef ekki séð það fyrr á þessum tíma. Í fyrra var vatnsleysi að hrjá okkur og sérstaklega voru Vatnamótin erfið. Uppárnar voru mjög heitar og þó að fiskurinn væri á svæðinu var lengi vel engin taka. Nú lítur þetta betur út.“ 

Kristján og félagar fengu tvo sjóbirtinga í Syðri–Hólma og einn í Hlíðarvaði og þann fjórða í Búrhyl. Þegar við kvöddum Kristján var hann að fara að kasta á fiskinn sem stökk. „Þetta er ekki hægt lengur. Ég verð að veiða með báðum höndum. Hann stökk neðst á breiðunni, rétt fyrir ofan vaðið. Okei, bæ,“ og svo var hann rokinn.

Gott vatn og mjög mikið af smáum og millistórum sjóbirtingi sem var að veiðast í vorveiðinni gefur góð fyrirheit fyrir sjóbirtingsveiðina sem er að hefjast næstu daga í öllum þessum spennandi sjóbirtingsám fyrir austan. Stóru sleggjurnar voru ekki mjög áberandi í vorveiðinni en spennandi verður að sjá hversu miklu hann hefur bætt við sig í sjávarbeitinni í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert