Þau gerast enn ævintýrin í veiðinni, sem betur fer. Stefán Bjarnason og veiðifélagi hans áttu síðustu vakt veiðitúrs í Laxá í Dölum í morgun. Stefán var alveg við það að hætta við í gærkvöldi og keyra í bæinn og skella sér í golf, þar sem hann átti bókaðan rástíma klukkan fjögur í dag. Það varð þó úr að hann ákvað að bíða og sjá stöðuna á ánni í morgunsárið. Mikil rigning var í Laxárdal í gær og var áin farin að taka töluverðan lit í gærkvöldi.
Stefán gerði klárt í morgun og keyrði upp í Svarfhólsgrjót þar sem hann vissi að var mikið af laxi. Hann leit á hitamælinn í bílnum. Sjö gráður upp á íslenskar sumarmáta. Hann var alveg við það að segja þetta gott. Lítil Green but var undir, smápadda. „Eitt rennsli,“ hugsaði hann með sér. Svarfhólsgrjót eru langur veiðistaður. Hátt í tvö hundruð metrar. Hann stakk hendinni ofan í vatnið og hún var í mesta lagi fimm gráður, áin. „Ég var svona hálfnaður niður staðinn þegar ég sá fisk brjóta yfirborðið. Ég kastaði á hann og hann tók með það sama. Ég landaði honum og sá þá annan aðeins neðar. Kastaði á hann og hann tók líka. 85 sentímetra fiskur. Þá hringdi félagi minn sem var í Kristnapolli og spurði hvort eitthvað væri að frétta. Ég sagði honum að ég væri að landa fiski númer tvö. Hann dreif sig upp eftir til mín,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.
Þetta var bara forsmekkurinn að því sem beið þeirra. Svarfhólsgrjótin eru teppalögð af laxi en hratt fallandi vatnið sem hafði glætt Laxá súrefni og hreyft við fiskinum, gerði það að verkum að „allt í einu bara vaknaði allur veiðistaðurinn,“ lýsir Stefán. Þeir félagar settu í hvern laxinn á fætur öðrum og þess á milli sem þeir þreyttu laxa og lönduðu og slepptu voru eltingar og stökk um allan hyl.
„Maður lendir ekki oft í svona ævintýri í veiðinni,“ fullyrti Stefán. Þegar upp var staðið höfðu þeir sett í þrjátíu laxa og landað 22 – öllum í Svarfhólsgrjótunum. Laxá í Dölum á þetta til við þessi skilyrði. Áin vex og þegar hún sjatnar og tærist á nýjan leik þá geta oft gerst þar ótrúlegir hlutir. Þetta hefur sérstaklega verið þekkt þegar haustrigningar byrja eftir þurrt og vatnslítið sumar. En að setja í þrjátíu í sama hylnum er fáheyrt.
Stefán fór bara á þennan eina veiðistað, alla vaktina. Til hvers að færa sig úr bullandi veiði? Allir laxarnir voru teknir á smápöddur í yfirborði.
„Hvernig hefði það símtal orðið ef þú hefðir farið í bæinn í gær og hringt eftir vaktina og fengið þessar fréttir, áður en þú byrjaðir golfið?“ spurði félagi hans hlæjandi þegar vaktinni var lokið og þeir voru að taka saman. Stefán viðurkennir að það símtal hefði verið erfitt og hann sjálfsagt aldrei fyrirgefið sér að fara heim.
„Ég er búinn að veiða í ansi mörg ár og það var eitthvað sem togaði mann í þetta þó að ég efaðist um árangur þegar ég var að byrja. En þetta er eitt það sérstakasta sem ég hef lent í veiðilega séð,“ sagði Stefán.
Það er gott að lenda í að taka tvo laxa í sama hyl, sérstaklega þegar komið er fram á sumar. Að fá þrjá eða jafnvel fjóra í beit, sem sagt hvern á eftir öðrum er frábært og gerist ekki oft. Hins vegar að setja í þrjátíu í sama stað og aldrei hvíla hylinn er eitthvað sem er ekki hægt að flokka nema sem ævintýri. Stefán segist sannfærður um að þeir hefðu getað haldið áfram svona eitthvað inn í daginn.
Hér skiptir án efa máli að þeir héldu sig báðir við smáar flugur og veiddu bara í yfirborðinu. Þungar flugur hefðu vissulega líka gefið fisk við þessar aðstæður en líklega hefði komið meiri styggð að fiskinum og hæpið að þeir hefðu sett í svo marga.
Smá heilræði í lokin. Notiði smáflugur og stundum minni en þið teljið gáfulegt. Laxinn sér betur og lengra en við höldum og yfirborðsveiði truflar hylinn minna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |