Fáheyrð mokveiðiveisla í Dölunum

Hnallþykkur smálax úr Kristnapolli í Laxá í Dölum í gær. …
Hnallþykkur smálax úr Kristnapolli í Laxá í Dölum í gær. Elísa Sverrisdóttir var einn af veislugestum í mokveiðinni. Síðustu tveir dagar hafa gefið 116 laxa í Dölunum á sex stangir. Ljósmynd/Þórður Ingi Júlíusson

„Ég hef aldrei upplifað svona magnaða veiði í Laxá á þessum tíma sumars. Við höfum gjarnan verið að sleikja hundraðið um verslunarmannahelgina en nú er hún komin í 417, svo maður sé nákvæmur,“ upplýsti Skjöldur Orri Skjaldarson, leiðsögumaður í Laxá í Dölum til margra ára, í samtali við Sporðaköst.

Það hefur verið mögnuð mokveiðiveisla í Laxá frá því á föstudag að áin fór að sjatna eftir miklar rigningar. Við sögðum frétt af upphafinu á þessari kærkomnu veislu í fyrradag, þegar tveir veiðimenn settu í þrjátíu laxa og lönduðu 22 í einum og sama veiðistaðnum. Það reyndist einungis vel útilátinn forréttur. Föstudagurinn skilaði samtals 64 löxum í bók og er það mesta veiði sem Sporðaköst hafa frétt af á einum degi í sumar. Miðfjörðurinn státaði fram til þessa af flestum löxum á einum degi. Þeir voru sextíu og þrír en þar er veitt á tíu stangir en aðeins sex í Laxá í Dölum.

Fyrir kunnuga má sjá hversu vatnsmikil Laxá var í gær …
Fyrir kunnuga má sjá hversu vatnsmikil Laxá var í gær en í baksýn eru Höskuldsstaðastrengir. Hilmar Hansson fékk þennan einmitt þar. Nánast allir laxarnir voru smálaxar og teknir á flugur sextán og átján. Ljósmynd/Oddný Elín Magnadóttir

Morgunvaktin í gær skilaði 34 löxum og þegar við heyrðum hljóðið í leiðsögumanninum seint í gærkvöldi sagði hann að hlutirnir hefðu róast mikið. „Það voru ekki nema átján, á seinni vaktinni,“ hló hann. Þessir tveir dagar skila samtals 116 löxum og eins og fyrr segir koma Laxá í 417 laxa.

„Ég man ekki eftir að hafa séð svona mikið af laxi í henni á þessum tíma sumars. Og það er bara að bæta í. Krókurinn var tómur í morgun, en var svo orðinn fullur af fiski seinni partinn. Þetta er nánast allt á flugur númer sextán og átján. Ég veit um einn sem tók flugu númer tólf og örfáir á fjórtán. Svo voru held ég fjórir á litla Sunray. Sextán og átján var það sem var að virka.“

Oddný Elína Magnadóttir fékk þennan á efri pallinum í Höskuldi. …
Oddný Elína Magnadóttir fékk þennan á efri pallinum í Höskuldi. Þau Oddný og Hilmar voru komin með nítján laxa á stöngina eftir þrjár vaktir. Erfitt að komast í betri veiði en það. Ljósmynd/Hilmar Hansson

Skjöldur segir mikinn mun á að vera í leiðsögn þegar staðan er svona eða á sama tíma í fyrra. „Brandarabókin var orðin helvíti þreytt og maður píndi sig til að trúa því á hverjum morgni að í dag myndi þetta gerast.“ Hann hlær. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegur tími og Skjöldur segir að lítið hafi rignt í Laxárdal fyrr en gusan kom aðfaranótt föstudags og áin óð upp. „Það er fiskur á öllum stöðum, frá Matarpollum og upp í Sólheimafoss. Vanalega er hlutfallið hjá okkur þrjátíu prósent af stórlaxi og sjötíu prósent smálax. Nú er hins vegar yfir níutíu prósent smálax og þeir eru svakalega flottir. Þykkir og skemmtilegir á stöng. Mikið 65 til 66 sentímetrar.“ Skjöldur er með tvo breska veiðimenn í leiðsögn í Dölunum.

Það gæti orðið stuð næsta vor þegar stórlaxinn mætir.

Skjöldur svarar ekki beint. Bara löng, allt að því sælustuna. „Ohhhh. Já. Svona smálaxaár er tvöfaldur lottóvinningur því að svo fylgir gott stórlaxaár á eftir, ef allt er eðlilegt. Vonandi verður smálaxinn líka bara góður á næsta ári.“

Einhver mesta september veiði sem menn hafa komist í er í Laxá í Dölum, þegar haustrigningar loksins hefjast eftir fremur þurr sumur. Þá hafa margir gert þar ævintýralega veiði. Nú fer saman að Laxá fékk mikla vatnshækkun og mikið af fiski er í henni og að ganga í strauminn sem er um verslunarmannahelgina.

Laxá er að sjatna nú en hún fær miðað við veðurspár aðra rigningargusu á morgun og þá getur ævintýrið í Dölunum haldið áfram.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert