„Jökla hefur komið mér þægilega á óvart“

Þröstur Elliðason hóf ræktun laxastofns í Jöklu sumarið 2007, eftir …
Þröstur Elliðason hóf ræktun laxastofns í Jöklu sumarið 2007, eftir að Kárahnjúkavirkjun var gangsett. Nú er Jökla við það að verða sjálfbær með framleiðslu seiða. Eitthvað sem kemur öllum ofurlítið á óvart. Nú stefnir í metveiði í Jöklu. Ljósmynd/ÞE

Nýjasta laxveiðiáin á Íslandi, ef svo má taka til orða, er Jökla. Hún er komin á kortið, ekki bara hjá íslenskum veiðimönnum heldur líka úti í heimi. Þröstur Elliðason hóf ræktun í ánni eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og tilkomu Hálslóns sem safnar vatni úr Jökulsá á Dal, Jökulsá á Fljótsdal og úr nokkrum þverám. Kárahnjúkavirkjun er langstærsta virkjun á Íslandi.

Með því að Jökulsá á Dal var virkjuð breyttust skilyrði og segja má að Jökla hafi orðið til fljótlega eftir að þessum miklu framkvæmdum lauk, árið 2007 og virkjunin var gangsett. Þar sem áður beljaði fram kolmorrauð jökulá er nú að finna allt að því tæra vatnsmikla á sem komið hefur í ljós að getur hæglega fóstrað mikið af laxi.

Eins dauði er annars brauð. Hið fornkveðna sannast áþreifanlega í Jöklu þessa dagana. Á meðan að Landsvirkjun hefur áhyggjur af vatnsstöðu í virkjunarlónum þá nýtur Jökla góðs af því. Hinn erfiði nágranni sem virkjunin er, hefur nefnilega hin síðari ár farið á svokallað yfirfall. Þá verður Hálslónið fullt og rennur þá umframvatn í Jöklu og hún verður óveiðandi gruggugt stórfljót, eins og nánast eins og menn þekktu hana áður. En nú horfir til þess í fyrsta skipti frá veiðitímabilinu 2015 að ekkert verði yfirfallið. Allavega ekki á þeim tíma sem laxveiði er stunduð. Í fyrra varð yfirfall í byrjun ágúst en 2022 varð það ekki fyrr en í byrjun september. 

Breskir og spænskir veiðimenn hafa verið í Jöklu síðustu daga …
Breskir og spænskir veiðimenn hafa verið í Jöklu síðustu daga og veitt vel. Markaðsstarf erlendis hefur skilað árangri og sérstaklega elska Bretar þessu grænbláu á sem er í dag full af fiski. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Heildarveiðin í Jöklu í fyrra var 525 laxar. Það er veiði með hliðarám Jöklu sem eru Kaldá, Fögruhlíðará og Laxá. Eftir yfirfall er hægt að veiða þessar ár, en veiðin þar er mun minni en í sjálfri Jöklu á meðan að hún er veiðanleg. 2. ágúst í fyrra var Jökla í 429 löxum og vikuveiðin hafði verið 102 laxar. Svo kom yfirfallið. Næstu tvær vikur gaf vatnasvæðið 2 laxa hvora viku og endaði 4. október í 525 löxum. En hvað segir Þröstur Elliðason um stöðuna núna?

Hin íslenska Kharlovka

„Það er góður gangur hjá okkur núna. Það eru að veiðast tuttugu til þrjátíu laxar á dag og hún er komin vel yfir lokatöluna í fyrra. Veiðin er að nálgast sex hundruð laxa og í gær lönduðu veiðimenn hér tuttugu löxum. Vandamálið núna er kannski það að við náum ekki að veiða nema hluta af þeim veiðistöðum sem í boði eru. Þetta er svo langt og mikið veiðisvæði. Við erum búin að fá fisk í Tregluhyl sem er 82 kílómetra frá sjó.“ Þröstur viðurkennir að þetta sé lúxus vandamál. Staðirnir sem í boði eru miðað við stangafjölda eru svo margir.

„Við náum ekki að veiða nema hluta af þeim stöðum sem í boði eru. Menn verða að velja og það eru alltaf margir staðir sem eru skyldir eftir á hverri vakt. Maður veltir því oft fyrir sér ef veitt væri á tólf til átján stangir og keyrt allan daginn alla daga hvaða veiðitölur maður myndi þá sjá. Þetta er eitthvað sem er gaman að leika sér með í huganum.“

Útlendingar hafa hrifist af Jöklu. Þröstur hefur heyrt tvenns konar samlíkingar frá veiðimönnum. Henni hefur verið lýst sem Kjarrá á sterum og aðrir hafa talað um The Icelandic Kharlovka, sem er þekkt laxveiðiá á Kólaskaga. „Þetta er allt svo stórkallalegt. Gljúfrin og grjótið. Þetta er allt svo risavaxið enda búið að slípast til undan gríðarlegu vatnsmagni í hundruð ára. Þetta landslag er eins og það hafi lent í grófri mulningsvél,“ segir Þröstur.

Stórlax sem veiddur var um helgina í Steinboga. Helgi Héðinsson …
Stórlax sem veiddur var um helgina í Steinboga. Helgi Héðinsson hampar þessum fallega hæng. Sleppihlutfall í Jöklu er 92% í sumar. Ljósmynd/ÞE

Einkum fellur Jökla í kramið hjá tvíhendu elskandi Bretum sem vilja veiða mikið og stórt vatn. Þröstur hefur lagt mikið í markaðssetningar á ánni í einmitt Bretlandi og það starf er að bera ávöxt. „Bretarnir elska hana. Þetta er mjög þægileg létt tvíhenduá. Tólf til þrettán feta stangir henta vel og líka einhvendur og núna er nánast öll veiðin á flotlínu og mikið á hitch. Hún vinnur þetta vel með veiðimanninum. Það er í henni þægilegur straumur og það þarf ekki mikið að vera að strippa eða vinna fluguna. Þetta er býsna hefðbundið. Fjörutíu og fimm gráður og dauðarek. Einn Breti sem var að kveðja núna veiddi bara á hitch í þrjá daga og hann landaði ellefu löxum og missti einhverja. Hann brosti hringinn,“ hlær Þröstur.

Jökla komið honum á óvart

Hvaða stofn er í henni? Hvernig varð Jökla að þessari laxveiðiá?

„Frá því að ég byrjaði árið 2007 þá höfum við verið að taka laxa í klak úr hliðaránum, Laxá, Fögruhlíðará og Kaldá. Ég fékk svo líka leyfi til að nota seiði úr Breiðdalsá. Það voru einhverjir fiskar fyrir sem voru í hliðaránum en þetta er upphafið. Seiði úr löxum úr hliðaránum og úr Breiðdal.“

En þegar þú horfir til baka trúðir þú því að þetta myndi ganga upp? 

„Já og nei. Ég var náttúrulega að vona að þetta myndi virka. En ég bjóst ekki við að Jökla sjálf myndi fóstra svona mikið af villtum seiðum eins og raun varð á. Jökla núna er að verða sjálfbær og tveir þriðju af veiðinni er fiskur sem úr náttúrulegri hrygningu í sjálfri Jöklu. Það er eitthvað sem ég átti ekki von á. Við erum enn að sleppa seiðum í Jöklu en það er mjög minnkandi. Við höfum hins vegar aukið sleppingar í hliðarárnar og það er til að bregðast við ef og þegar yfirfall kemur. Þá er hægt að veiða hliðarárnar þó Jökla sjálf verði óveiðanleg. En ég verð að viðurkenna að þetta kom mér aðeins á óvart. Fyrstu rannsóknir voru heldur ekki jákvæðar um að Jökla gæti orðið sjálfbær. Menn óttuðust að yfirfallið kæmi í veg fyrir það. En blessunarlega hefur annað komið á daginn. Þó að verði yfirfall þá er það ekki það sama og var í gamla daga. Vatnsmagnið er minna og þó að hún verði kakó þá verður botnfall í lóninu og þetta er ekki það sem var fyrir virkjun. Þannig að Jökla er að framleiða mikið af seiðum og þau komast á legg.“

Klárir í hádegismat. Þröstur hefur farið með hádegismatinn til veiðimanna …
Klárir í hádegismat. Þröstur hefur farið með hádegismatinn til veiðimanna til að spara akstur milli vakta. Hér er verið að gera allt klárt í aðstöðu björgunarsveitarinnar Jökuls. Útigrillið logar og stutt í veislu. Ljósmynd/ÞE

Hver eru næstu skref í Jöklu til að halda áfram þessu uppbyggingastarfi?

„Það er af nógu að taka en ég á mjög gott samstarf við veiðifélagið og eitt af því sem við erum að meta er hversu mikla seiðasleppingar eiga að vera í hliðarárnar til að halda uppi góðri veiði þó að komi til yfirfalls. Aðstaða fyrir veiðimenn er stöðugt að batna og hefur verið að gerast síðustu ár. Stóra spurningin er hvað hægt er að gera varðandi stangafjölda? Við byrjum sumarið með sex stangir og förum svo í átta og jafnvel fleiri þegar líður á sumarið og ekki er komið yfirfall. Jökla í dag, eins og göngur hafa verið myndi bera miklu fleiri stangir. En svo vofir alltaf yfir okkur yfirfallið og að ætla að byggja upp aðstöðu fyrir mikli fleiri veiðimenn er áhættusamt ef er kannski bara hægt að nýta þá aðstöðu í einn og hálfan mánuð. Ef ekki væri yfirfall væru hér pottþétt tólf eða fleiri stangir. Sumir segja að hægt væri að fara í allt að 24 stangir.

Stuðlagil er í Jöklu. Þröstur segir allt umhverfið á þessum …
Stuðlagil er í Jöklu. Þröstur segir allt umhverfið á þessum slóð stórkallalegt og risavaxið. Engu líkara sé en að svæðið hafi lent í risastórri mulningsvél. mbl.is/Jón Pétur

Við gerum það núna þegar fiskur er orðinn dreifður um alla á, að við tökum hádegismat í aðstöðu björgunarsveitarinnar Jökuls sem er miðsvæðis í dalnum. Erum þar með útigrill og huggulega stund þar og spörum mönnum aksturinn til og frá veiðihúsinu.“

Víða ókannaðir veiðistaðir

Eru þið búnir að kortleggja alla veiðistaði?

„Nei. Langt í frá og það eru enn veiðistaðir sem ég hef ekki haft tækifæri til að skoða en þar hafa menn verið að veiða fiska. Svæðið er svo stórt og mikið og margir veiðistaðir gríðarstórir sem tekur langan tíma að veiða. Á móti kemur að ég efast um að nokkur á á landinu sé með minna veiðiálag en er í Jöklu. Við sjáum vel í veiðistaðnum Hólaflúð þar sem er ákveðið stopp fyrir fiskinn hvað þetta eru miklar göngur. Hann hinkrar gjarnan aðeins á Hólaflúðinni og við Steinboga og svo týnast þessir fiskar. Ég er sannfærður um að margir laxar sem ganga í Jöklu sjá aldrei flugu allan veiðitímann. Jafnvel aldrei á ævinni.“

Bestu árin í Jöklu og hliðaránum hafa gefið ríflega átta hundruð laxa. Það má mikið vera ef Jökla fer ekki yfir þúsund laxa í sumar og gefi þar með metveiði. Þröstur er spenntur og vonast til að sjá hana í fjögurra stafa tölu áður en ágúst klárast. Miðað við veiðina síðustu daga er það vel raunhæft.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert