Klár í þann stóra? Undirlínan í lagi?

Flesta veiðimenn dreymir um þá allra stærstu. Því stærri þeim mun meiri líkur á að þeir sleppi. Nils Folmer Jorgensen, danski stórveiðimaðurinn lenti í ævintýri, ja eða martröð þegar hann setti í mjög stóran lax í Aðaldalnum fyrir tveimur vikum eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi sem hann tók upp og deildi á facebook síðu sinni. Hann gaf okkur leyfi til að birta það. Heyra má á hljóðinu að karlinum er ekki um sel.

Þetta gerist á veiðistaðnum Eskeyjarflúð. Eftir að vera búinn að missa nánast alla undirlínuna brá hann á það ráð að vaða út í eyjuna og gat unnið aðeins af línunni til baka en það var bara tímabundið. Botninn þarna er líka erfiður. Hraun og hvassar nibbur. Nils var með vikugamla línu og undirlínu og hún einfaldlega skarst í sundur á hraunbotninum. Hátt í tvö hundruð metrar fóru. Ef þú sérð línu í Laxá í Aðaldal liggja í vatninu gæti verið hyggilegast að setja hana inn á fluguhjól og festa hana áður en þú togar í. Aldrei að vita hvort eitthvað er á hinum endanum.

Eitt af því sem oft gleymist er að huga að undirlínunni. Við leituðum til Ólafs Vigfússonar, Óla í Veiðihorninu og spurðum hvort veiðimenn væru vakandi fyrir þessum hluta veiðibúnaðar.

Hann svaraði því til að heilt yfir væru menn meðvitaðir um að kanna undirlínuna og að hún entist ekki að eilífu.

„Eitt sinn var sagt að fluguhjól skiptu litlu máli, þau væru aðeins línugeymsla en það var í þá daga að öll hjól voru nánast bremsulaus.

Margt hefur breyst síðan þá, með tilkomu vandaðra veiðihjóla með öflugan, hnökralausan bremsubúnað sem hægir á og stoppar stærstu fiska.

Í dag vita allir veiðimenn að það skiptir máli að vera með góðan bremsubúnað. Bæði þegar þreyttir eru stórir fiskar en einnig skiptir miklu máli að bremsuátak sé mjúkt og án hnökra þegar fiskar eru þreyttir með grönnum taumum, líka smærri fiskar.

Á þessum tíma var líka talað um að undirlínan væri bara uppfylling á hjólið undir flugulínuna. En það er nú öðru nær eins og margir hafa sem betur fer fengið að kynnast. Það er einmitt þegar mest á reynir að það kemur í ljós hve mikilvæg góð undirlína er, frágangur og samsetningar.

Sjálfur hef ég landað spretthörðustu fiskum vel yfir 50 pund og reyndar upp í 100 pund ef út í það er farið.

Ég hef upplifað að sjá 250 metra af 60 punda undirlínu hverfa á ógnarhraða og séð ofan í stál á næstum tómu fluguhjólinu á hálfri mínútu jafnvel þegar öflugustu fluguhjólin mín eru með nánast læstri bremsu.

Að þessu sögðu má vera ljóst að undirlínan, frágangur hennar og samsetningar skiptir miklu máli þar sem von er á baráttu við stóra fiska,“ upplýsti Óli í samtali við Sporðaköst. 

En hvað þarf að hafa í huga, eða passa upp á varðandi undirlínuna?

„Það eru nokkur atriði. Í fyrsta lagi þá má gjarnan skipta henni út á nokkurra ára fresti jafnvel þó aldrei hafi reynt á hana í baráttu við fisk. Undirlínan blotnar og þornar til skiptist og það er líklegra en ekki að hún fúni með árunum og þoli því ekki þau átök sem hún á að vera gerð fyrir.

Það er gott fyrir fyrstu veiðiferð á vorin að taka flugulínuna sjálfa af hjólinu og þrýsta með fingri á undirlínuna á spólunni. Ef hún er ekki þétt vafin á hjólið er hætta á að hún geti grafist niður við átök, allt verður fast og metfiskurinn sleppur.

Þegar þetta er gert er rétt að nota tækifærið og skoða samsetningu undirlínu og flugulínu. Það má gjarnan kippa þéttingsfast í línuna og undirlínuna til þess að athuga hvort samsetningin sér traust.

Það er einnig rétt að skoða hvort línan hafi grafist undir sjálfa sig á hjólinu. Það er hætta á að vafningurinn færist niður eftir línunni á spólunni og flækist þar.

Öll þessi atriði er rétt að skoða áður en haldið er til veiða að minnsta kosti í fyrsta veiðitúr ársins.

Fjöldi viðskiptavina okkar kemur með hjólin til okkar fyrir veiðiferð og fær sérfræðingana í Veiðihorninu til þess að yfirfara búnaðinn. Það hefur sýnt sig að það margborgar sig að hafa hjólin, línurnar, samsetningar og síðast en ekki síst undirlínuna í lagi þegar sá stóri tekur rokurnar út.“

En svo eru aðstæður og uppákomur sem hreinlega verður ekki ráðið við. Þá erum við aftur komin að myndbandinu sem fylgir fréttinni. Eins við nefndum í upphafi þá rispaðist undirlínan hjá Nils á grófum hraunbotninum og þó að hún hafi verið ný af nálinni þá þoldi hún ekki hvassar hraunnibburnar. 

Nú styttist í að þeir stóru fari að taka aftur. Síðsumar og haust sem sumir kalla krókódílatíma. Ef undirlínan er gömul eða langt síðan að þú skoðaðir hana þá er þetta tíminn til að bæta úr því.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert