Merktir laxar flökkuðu milli áa

Hrygna veidd í Svartbakkahyl í Miðfjarðará í Bakkafirði og merkt …
Hrygna veidd í Svartbakkahyl í Miðfjarðará í Bakkafirði og merkt þann 8. júlí. Þessi lax veiddist svo aftur þremur vikum seinna í Selá. Ljósmynd/SRI

Merkilegar og óvæntar upplýsingar hafa komið fram í einu af mörgum rannsóknarverkefnum Six Rivers Iceland í Vopnafjarðaránum og nágrannaám. Staðfest hefur verið að í fjögur skipti hefur merktur lax veiðst í annarri á. Sem sagt gengið til sjávar og úr ánni sem hann veiddist í og fundið nýjan ós og gengið í aðra á en hann var merktur í.

Þetta kemur fram í frétt sem Six Rivers Iceland hefur sent frá sér. Þar er greint frá því að laxar hafi verið merktir með slöngumerkjum í ám félagsins. Upphaflega hugmyndin var að kanna hlutfall endurveiði. En svo kom fleira áhugavert í ljós. Í frétt SRI segir meðal annars:

„Eitt af því sem við höfum mikið verið að velta fyrir okkur er hversu hátt endurveiðihlutfall væri í ánum hérna á svæðinu. Í fyrra var ákveðið að merkja hundrað fiska með slöngumerkjum í Selá til að átta sig betur á þessu. Fiskarnir voru merktir frá 27. júní til 15. ágúst, flestir í júlí. Út úr þessu kom að 30% fiskanna veiddust aftur. Að meðaltali liðu 34 dagar frá því að þeir voru merktir þangað til þeir endurveiddust. Frá þeim stað sem þeir voru merktir og svo þeim stað sem þeir endurveiddust voru að meðaltali 5.8 km á milli.“

Hér má sjá ferð tveggja laxa sem veiddust merktir í …
Hér má sjá ferð tveggja laxa sem veiddust merktir í annarri á en þeir voru merktir í. Fjólubláa línan sýnir för hængs sem veiddist í Selá og var merktur þar. Hann veiddist svo aftur í Hafralónsá. Svarta línan er ferðalag hrygnu úr Selá í Hofsá. Kort/SRI

Stefán Hrafnsson er einn þeirra sem vinnur við ræktun og rannsóknir á vegum félagsins. Hann segir að það sem kom mest á óvart var að tveir af þessum hundrað merktu fiskum veiddust seinna um sumarið í öðrum ám. Annarsvegar var það 78 sentímetra hængur sem var merktur þann 27. júní á Brúarbreiðu í Selá sem er um þrjá kílómetra frá sjó, sá fiskur veiddist svo 4. ágúst í Laxahyl í Hafralónsá sem er rúmlega tuttugu kílómetra frá sjó.

Hinsvegar var það 73 sentímetra hrygna sem merkt var þann 29. júní í veiðistaðnum Narra í Selá sem er 2.2 kílómetra frá sjó. Veiddist svo aftur í Skorarhyl í Hofsá þann 22. ágúst en Skorarhylur er á efsta svæðinu í Hofsá.

„Þetta vakti upp nokkrar spurningar og var ákveðið að fara í frekari merkingar í sumar. Nú höfum við merkt um fimm hundruð fiska í ám Six rivers og hefur hver á sinn lit á merkjum til að auðvelda okkur að sjá ef fiskarnir eru að flakka á milli áa. Þetta verkefni hefur verið unnið í samvinnu við viðskiptavini Six Rivers Iceland og leiðsögumanna í hverri á.

Þetta er sama hrygnan og á fyrstu myndinni, þá nýgengin …
Þetta er sama hrygnan og á fyrstu myndinni, þá nýgengin í Miðfjarðará. Á þessari mynd sem tekin er 31. júlí veiddist hún í Neðri-Djúpabotn í Selá. Ljósmynd/SRI

Gaman er að segja að nú þegar hefur fiskur sem merktur var í Selá veiðst í Hofsá. Einnig veiddist fiskur í Selá sem hafði verið merktur í Miðfjarðará í Bakkafirði. Okkur þykir þetta mjög spennandi og verður gaman að sjá hvað gerist í ágúst og út haustið,“ sagði Stefán. 

Stefán vill koma þeirri ósk á framfæri við veiðimenn sem eru að veiða í öðrum ám á svæðinu hérna í kring að hafa augun opin og láta vita ef þeir veiða merktan fisk og helst að senda mynd af merkinu og upplýsingar um hvar hann er veiddur. Þeir veiðimenn sem kunna að setja í slíkan fisk eru vinsamlegast beðnir um að láta vita og senda tölvupóst á Stefán Hrafnsson – stebbi@laxinn.is

Hér má sjá að þessar ár eiga upptök sína á …
Hér má sjá að þessar ár eiga upptök sína á nánast sömu stöðum. Það kann að vera ein ástæðan fyrir því að laxinn flakkar á milli. Kort/SRI

Það sem vekur einna mesta athygli Sporðakasta er sú staðreynd að merktu laxarnir voru búnir að yfirgefa seltuna og komnir í ferskt vatn. Samt sneru þeir sjávar og þá aftur í seltuna og fundu sér nýjan ós og gengu þar langt inn í land.

Upptök þessara áa eru á sama svæðinu, koma jafnvel af sömu heiðinni og þegar horft er til þess að laxinn fer að hluta til eftir lykt þegar fer á heimaslóðir þá er viðbúið að lyktin í þessum ám sé svipuð, jafnvel sú sama.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert