Hnúðlax veiddist í Langá í síðustu viku. Þetta er eini staðfesti hnúðlaxinn sem Sporðaköst hafa upplýsingar um í sumar. Hnúðlaxahængurinn veiddist á Breiðunni fyrir neðan Skuggafoss. Kristján Friðriksson, staðarhaldari við Langá staðfesti þetta og sendi okkur mynd af gripnum. Hann sagði jafnframt að ekki hefði orðið vart varið fleiri hnúðlaxa.
Alla jafna er hnúðlaxinn á ferðinni á þeim árum sem bera upp á oddatölu. Það er vegna þess að lífsferill hnúðlaxa er tvö ár. Þeir ganga í árnar um svipað leiti og Atlantshafslaxinn en hrygna heldur fyrr. Seiðin fara út að vori næsta ár og eru agnarsmá þegar þau halda til sjávar. Hrygning hnúðlaxa er staðfest í fjölmörgum ám á Íslandi og má búast við töluverðu magni af honum næsta sumar þegar seiðin snúa aftur sem fullvaxta hnúðlaxar.
Uppruni hnúðlax er rakinn til Rússlands, þar sem sleppt var miklu magni af hnúðlaxi á síðustu öld. Var þeim stofni upphaflega sleppt á oddatölu ári. Rússnesk ættaði hnúðlaxinn hefur dreift sér víða um Evrópu og verið í mikilli sókn. Þannig eru nyrstu ár Noregs, sem hafa orðið harðast úti smekkfullar af þessari nýju og framandi tegund annað hvert ár.
En Rússar létu ekki þar við sitja og slepptu hnúðlaxi síðar á ári sem ber upp á slétta tölu. Sá stofn hefur verið í sókn og er það ein helsta martröð Norðmanna að sá stofn nái útbreiðslu eins og oddatölustofninn. Borið hefur á aukningu í nyrsta hluta Noregs en ekki orðið viðlíka sprenging í fjölda eins og gerst hefur á oddatölu árunum.
Það er mikilvægt að fylgjast með útbreiðslu hnúðlax á Íslandi og tilkynna slíka veiði til Hafrannsóknastofnunar og koma þeim fiskum sem veiðast til rannsóknar þar.
Vel er fylgst með hnúðlaxi og útbreiðslu hans í nágrannalöndum okkar þar sem laxveiði er stunduð. Sú útbreiðsla sem oddatölu stofninn hefur náð vekur mönnum áhyggjur. Gripið hefur verið til þess ráðs í þeim laxveiðiám í Noregi sem næst er Rússlandi að loka þeim þegar göngurnar ná hámarki. Tugþúsundir hnúðlaxa hafa gengið í þessar ár og hafa þær verið óveiðanlegar fyrir veiðimenn sem eru að leita að Atlantshafslaxi.
Hnúðlax er ein af fimm tegundum Kyrrahafslaxa og margir undrast hversu vel hnúðlaxinum hefur gengið að komast af í Atlantshafinu á meðan að upprunalegi laxinn hefur átt undir högg að sækja.
Áhugavert væri að fá upplýsingar og ábendingar ef menn veiða hnúðlax eða hafa gert það í sumar.
Veiðin í Langá í sumar hefur verið góð, eftir afar lélegt sumar í fyrra. Hún er nú komin í 752 laxa en var á sama tíma í fyrr í 427 löxum. Lokatalan síðasta sumar var 709 laxar. Síðasta góða ár í Langá var 2018.
Ár Heildarveiði
2023 709
2022 1077
2021 832
2020 1086
2019 659
2018 1635
2017 1701
2016 1433
2015 2616
Metárið samkvæmt angling.is voru 2970 laxar árið 2008. Tölurnar hér að ofan er fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, angling.is
Afar líklegt er að Langá fari vel yfir þúsund laxa í sumar en ólíklegt að hún nái tölum á borð við það sem var 2018. Það ár var Langá í 1090 löxum 8. ágúst. En það stefnir í fínt ár 2024.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |