Peppaðir í kapphlaupi um pönnukökulax

Jan Petersen með maríulaxinn sinn. Um leið var þetta lax …
Jan Petersen með maríulaxinn sinn. Um leið var þetta lax númer tvö þúsund í Ytri Rangá í sumar. Hann er viku fyrr á ferðinni miðað við síðasta sumar. Ljósmynd/IO

Þegar skráningu í veiðibók í gær í Ytri Rangá var lokið kom í ljós að veiðst höfðu 1.990 laxar. Það vantaði tíu upp á tvö þúsund. Veiðimenn og leiðsögumenn voru meðvitaðir um þetta í morgunsárið. Fátt annað var rætt í morgunmatnum en hver næði pönnukökulaxi númer tvö í ánni. Pönnukökulax er hver lax sem markar nýtt þúsund í veiðitölum. Hvað er betra en nýbakaðar pönnukökur? 

Með þetta bak við eyrað stormuðu veiðimenn með munninn fullan að bílunum og dreifðu sér um ána. Veitt er á 18 stangir í Ytri þannig að hver lax gat orðið sá tvö þúsundasti. Grannt var fylgst með og melduðu menn veidda fiska jafn óðum. Það kom í hlut Færeyingsins, Jan Petersen að landa pönnukökulaxinum. Hann var á Klöppinni og klukkan 9 í morgun setti hann í og landaði laxi númer tvö þúsund í Ytri Rangá í sumar. Laxinn tók Black and blue Sunray. Í tilefni þessa var boðið í pönnukökupartý í hádeginu í Ytri. Þar var Jan Petersen heiðursgestur.

Jan teygir sig eftir þriðju pönnukökunni. Hann var heiðursgestur í …
Jan teygir sig eftir þriðju pönnukökunni. Hann var heiðursgestur í pönnukökupartýinu. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Jan var sennilega sá sem fæstir hefðu veðjað á fyrirfram. Hann hafði ekki veitt lax um ævina. Hefði verið mjög neðarlega hjá veðbönkum ef út í slíkt hefði verið farið. En hann fékk maríulaxinn og um leið þennan merkisfisk.

Veiðin í Ytri er mun betri en í fyrra. Lax númer tvö þúsund veiddist þann 20. ágúst síðasta sumar. Það munar nákvæmlega viku og þegar veiðin er um fjögur hundruð laxar á viku má sjá að hún er töluvert á undan miðað við síðasta sumar.

Ekki friður 2000 heldur lax 2000. Falleg og gómsæt terta …
Ekki friður 2000 heldur lax 2000. Falleg og gómsæt terta í tilefni áfangans. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Ytri Rangá er með flesta laxa það sem af er sumri en um helgina fór Eystri yfir þúsund laxa. Tvær náttúrulegar laxveiðiár eru komnar yfir þúsund laxa. Þar er Miðfjarðará í efsta sæti með 1460 laxa og komin vel yfir heildarveiðina í fyrra, sem var 1334 laxar. Næst á eftir kemur svo Norðurá sem einnig er komin vel yfir heildartölu síðasta árs. Stendur nú í 1175 löxum en fór í fyrra í 1087.

Allir náðu sér í pönnuköku og það voru margar á …
Allir náðu sér í pönnuköku og það voru margar á mann. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Þegar við tölum um náttúrulegar laxveiðiár er átt við ár þar sem villtur lax hrygnir og næstu kynslóðir alast upp í ánni og ganga svo til sjávar. Veiði í Ytri og Eystri byggist á seiðasleppingum. Með þessari aðgreiningu er ekki á nokkurn hátt verið að gera lítið seiðasleppingaánum. Bæði fyrirkomulögin gleðja veiðimenn og það er fyrir öllu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert