Barðist við laxinn í Svartá í 90 mínútur

Báðar búnar á því. Berglind með hrygnuna löngu úr Svartá. …
Báðar búnar á því. Berglind með hrygnuna löngu úr Svartá. Viðureignin tók eina og hálfa klukkustund. Þegar horft er til lengdar er þetta stærsti lax á Íslandi það sem af er sumri. Ljósmynd/Örn Kjartansson

Stærsti lax sumarsins til þessa, allavega sá lengsti veiddist í Svartá í Húnavatnssýslu að kvöldi 21. Júlí. Hann mældist 111 sentímetrar og var hrygna. Fiskurinn er mjósleginn og hafa komið fram efasemdir um mælinguna. „Ég læt ekki pirraða veiðikalla hafa af mér sannleikann,“ sagði veiðikonan Berglind Ólafsdóttir þegar Sporðaköst spurðust fyrir um fiskinn og báru undir hana gagnrýnina.

Þau hjónin Berglind og Örn Kjartansson voru að veiða í Svartá með fjölskyldunni. Það var komið kvöld og rigningarsuddi. Berglind var að gera sig klára að veiða Krókeyrarhyl og þau urðu sammála um að reyna fluguna Von. Það varð úr og Örn sagðist ætla upp í bíl og fylgjast aðeins með leikjum í Bestu deildinni í knattspyrnu.

Mjög fljótlega setur Berglind í fisk. Hún ákvað að vera ekkert að kalla eftir athygli frá Erni. „Ég ætlaði bara að landa þessum laxi og veifa honum svo framan í hann. En það bara gerðist ekki neitt. Ég gat ekki haggað þessum fiski,“ sagði Berglind í samtali við Sporðaköst.

Hjónin taka seinni sprettinn niður úr Keyrisvaði. Aftur um þrjú …
Hjónin taka seinni sprettinn niður úr Keyrisvaði. Aftur um þrjú hundruð metrar. Örn með háfinn klárann og Berglind heldur stönginni í hæstu stöðu. Ljósmynd/Skjáskot

Örn var niðursokkinn í fótboltann en eftir hátt í tuttugu mínútur fer hann að kanna stöðuna. „Þá sé ég bara að það er allt í keng. Ég stekk og næ í háfinn og ætlaði að háfa fiskinn. Þegar ég er að nálgast hann verður allt vitlaust. Hann rýkur niður úr hylnum og það nánast kviknar í hjólinu. Við verðum að hlaupa, hlaupa eins og andskotinn.“ Með það var hann rokinn og Berglind líka.

Berglind er frekar nýlega byrjuð í laxveiði. „Ég var einmitt að hugsa þegar fiskurinn rýkur af stað hvað gerist ef lína bara klárast og þá öskraði Örn á mig að við þyrftum að hlaupa. Þarna var ég strax orðin þreytt í hendinni af átökunum. En þetta var rétt að byrja.“

Laxinn staðnæmdist í næsta veiðistað fyrir neðan sem heitir Keyrisvað. Þar lagðist hann. „Ég var ekki búinn að sjá hann almennilega en hann lagðist í hylinn Berglind hreyfði hann ekki. Hann var þar klesstur í botninn í einhverjar tuttugu mínútur. Ég komst ekki að honum með háfinn vegna straumsins. Svo grynnir hann aðeins á sér og ég næ honum hálfum inn í háfinn og sé þá fyrst hversu svakalegur fiskur þetta er. Hann rýkur aftur af stað niður ána. Þarna vissum við að þetta var eitthvað annað,“ segir Örn.

Hjónin þreytt og sæl. Margir hafa efast um mælinguna en …
Hjónin þreytt og sæl. Margir hafa efast um mælinguna en eins og Örn lýsir. Þetta er lengsti lax sem hann hefur séð. Hún var mjóslegin en mælingin er þessi. Ljósmynd/Örn Kjartansson

Berglind var orðin virkilega þreytt þegar hér var komið sögu, eftir stöðug átök við fiskinn í hart nær klukkustund. „Svo rauk hann aftur niður úr þessum hyl. Ég spurði Örn þá, hvað heldurðu að þetta standi eiginlega lengi. Hann svaraði að við hefðum allt kvöldið. Ókei sagði ég.“ Þau hlæja bæði.

Örn bendir á að þetta hafi í raun verið keppni í þolinmæði og það versta sem gæti gerst væri að hún myndi slíta úr laxinum.

Næsta roka hjá laxinum var meira en tvö hundruð metrar. Þau hlupu eins og fætur toguðu. Berglind hélt stönginni eins hátt og hún mögulega gat því mikið var af stórgrýti í ánni. „Sennilega voru þetta einhverjir þrjú hundruð metrar og þá var hann loksins orðinn þreyttur. Ég komst þá aftan að honum og náði honum loksins í háfinn. Þarna var klukkan að detta í tíu. Þetta var búið að taka einn og hálfan klukkutíma. Það voru náttúrulega allir orðnir nötrandi af þreytu og geðshræringu. Þú getur bara ímyndað þér eftir þessa atburðarás.“ Aðrir fjölskyldumeðlimir voru komnir á staðinn til fylgjast með og aðstoða ef hægt væri.

Berglind viðurkennir að hún var orðin virkilega aum í hendinni, enda var hún með einhendu og segist hafa verið með harðsperrur í marga daga á eftir. En loksins var hann kominn í háfinn.

Laxinn sem Örn veiddi í Aðaldalnum 2016 er einum sentímetra …
Laxinn sem Örn veiddi í Aðaldalnum 2016 er einum sentímetra styttri en hrygnan sem Berglind fékk. Hann er uppstoppaður og í öndvegi á heimilinu þeirra. Laxinn fékk Örn eftir að hann hafði verið nýttur í klak. Ljósmynd/Örn Kjartansson

„Þetta var svo skrítið. Ég hef ekki séð lengri lax á ævinni og ég á sjálfur 110 sentímetra lax úr Höfðahyl frá stórlaxaárinu 2016 í Aðaldalnum og fékk gullmerki frá Pésa eftir að Hermóður landaði honum með mér. En svo var komið að því að mæla fiskinn og ég mældi hann fyrst í háfnum. Þá var hann 109. En aðeins boginn og við ákváðum að taka hann upp á bakkann og mæla hann almennilega. Þá mældist hann 113. Það skrítna við þennan fisk er að hún var með stóran sporð en svo var hún bara mjó strax á stirtlunni og er öll á lengdina. Auðvitað eftir á að hyggja hefðum við átt að taka mynd af mælingunni, hvort sem var vídeó eða ljósmynd, en við gerðum það ekki. Vorum bara geggjað sátt á þessu augnabliki,“ upplýsir Örn.

Hann hringdi í Markús leiðsögumann við Blöndu og sagði við hann að þetta hljómaði ótrúlega en fiskurinn hefði bara verið svona langur. Örn segir að Markús hafi strax vitnað til endurkomuhrygnu sem veiddist í fyrra í Blöndu og mældist 110. Sá lax var mjög mjósleginn og vakti upp spurningar hjá mörgum.

Hér sést að þessi fiskur er mjög langur. Svipuð hrygna …
Hér sést að þessi fiskur er mjög langur. Svipuð hrygna veiddist í Blöndu í fyrra og var hún 110 sentímetrar. Ljósmynd/Örn Kjartansson

„Ég var að reyna að halda því fram að hann væri 109 svo að ég væri enn með stærsta laxinn í fjölskyldunni en í samtali við Markús urðum við ásáttir að fara milliveg á mælingunum þannig að við skráðum hana 111.“

Eins og fyrr segir var það flugan Von sem gaf þessa hrygnu. Berglind segir það í raun toppa söguna því dóttir þeirra heitir einmitt Ísey Von.

Flugan Von sem hrygnan féll fyrir í túbuútfærslu. Það toppaði …
Flugan Von sem hrygnan féll fyrir í túbuútfærslu. Það toppaði allt að dóttir þeirra heitir Ísey Von. Ljósmynd/Berglind Ólafsdóttir

Ert þú Berglind búin að fatta að hvað þetta er merkilegur fiskur?

„Nei. Ég held ekki. Ég er svo ný í þessum heimi. Ég hef upplifað það að missa fisk sem var áætlaður yfir tuttugu pund, í Aðaldal. Þá sagði leiðsögumaðurinn við mig að menn biðu jafnvel í fjörutíu ár eftir að setja í svona fiska og sumir upplifa það aldrei. En þetta var gaman og kom skemmtilega á óvart.“

En það hefur verið umræða um að miðað við myndir af fiskinum þá geti hann ekki verið 111 sentímetrar. Hvað segirðu um það?

„Ef maður veit sannleikann eins og ég í þessu tilviki þá er svo óréttlátt að lúffa fyrir fólki sem er eitthvað pirrað. Ég ætla ekki að láta einhverja pirraða veiðikalla hafa af mér sannleikann. Mér er alveg sama. Ég veit sannleikann og fjölskyldan mín veit hann líka. Mér finnst þetta æðislegt sport og ég kyssi alltaf fiskana mína á bakið og þakka þeim fyrir að hafa leyft mér að vera í þeirra návist.“

Örn bætir við. „Það eru alltaf einhverjir sem efast um mælingar og við það verður ekki ráðið. Ég var að segja við Berglindi að aðalatriðið er að við upplifðum þetta ævintýri og þennan fisk og þetta er bara lengdin á honum. Það er ekkert annað hægt að segja.“

Þau settu í fimm laxa og lönduðu fjórum og fengum nokkra silunga í túrnum. Örn hefur veitt Svartá í fjölmörg ár og viðurkennir að hún hafi átt betri tíma. Þau urðu vör við laxa frá veiðihúsi og niður úr. Ekkert þar fyrir ofan. Svartá hefur gefið 52 laxa og er það aðeins betri veiði en á sama tíma í fyrra. Svartá er síðsumarsá og gæti átt eftir ágætar vikur ef laxinn mætir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
100 cm Laxá í Aðaldal Björgvin Krauni Viðarsson 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert