„Of stór skammtur af september í sumar“

Aðeins of mikill september í þessu segir Reynir Friðriksson leiðsögumaður …
Aðeins of mikill september í þessu segir Reynir Friðriksson leiðsögumaður við Vatnsdalsá. Lopapeysa og hetta hafa víða verið staðalbúnaður. Vel hefur veiðst í Vatnsdalsá miðað við í fyrra og er hún komin yfir lokatölu síðasta árs. Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Þrátt fyrir að veiðin hafi víða verið góð í síðustu viku sjást merki um að sumarið er að eldast. Ytri–Rangá heldur toppsætinu og engin á er að fara að ógna því þetta árið. Veiðin þar var þriðju vikuna í röð yfir fjögur hundruð laxar. Til samanburðar átti Ytri bara eina slíka viku í fyrra.

Yfirlýsingu vikunnar átti Reynir Friðriksson, leiðsögumaður í Vatnsdalsá. „Fyrst kom maí. Svo kom september, aftur september og september. Handan við hornið er svo september. Aðeins of stór skammtur af september fyrir minn smekk þetta sumarið,“ sagði Reynir í einu af fjölmörgum Snapchat vídeóum í vikunni. Rétt er þó að taka fram að Reynir er jákvæður fram í fingurgóma. Hér var vísað í veðrið sem vissulega hefur vikum saman verið í takt við það sem september býður gjarnan upp á. Sporðaköst tóku stöðuna á honum rétt fyrir hádegi. 

Er september stemming?

„Já. En veistu. Það var að stytta upp. Vissulega allt á floti en þetta verður bara mjög gaman,“ sagði kátur Reynir.

Ef við horfum til næstu sæta á listanum yfir aflahæstu árnar má sjá hreint út sagt magnaðar tölur miðað við síðustu ár. Þverá/Kjarará, Miðfjarðará, Norðurá, Langá, Jökla, Laxá á Ásum og Elliðaár eru allar komnar yfir lokatölur síðasta árs, þó að drjúgt lifi af veiðitímanum. Svo eru nokkrar ár sem standa upp úr. Ef við horfum til Laxár í Dölum má sjá ótrúlegar tölur samanborið við árið í fyrra. Hún gaf vikuveiði upp á 110 laxa og er þar með komin í 654 laxa. Á sama tíma í fyrra hafði hún gefið 150 laxa. Dalabændur geta verið þakklátir fyrir tvennt. Meira er að ganga af fiski og svo hefur vatnsbúskapur verið betri en oft áður í Dölunum. Lax sem oft hefur hinkrað eftir haustrigningum í september til að ganga hefur nú átt greiðari leið upp ána en oft áður. En eins og kom fram hér að ofan hefur verið hálfgerður september í allt sumar, víða um land.

Jökla er að fara að slá met. Mesta skráða veiði í henni er 815 laxar sem veiddust sumarið 2015. Hún er nú komin í 753 laxa með vikuveiði upp á 95. Það má mikið vera ef hún slær ekki metið í þessari viku.

Síðasta vika í Laxá í Aðaldal var frábær. 118 laxar …
Síðasta vika í Laxá í Aðaldal var frábær. 118 laxar veiddir og þar af voru fjórir sem náðu hundrað sentímetrum. Þessi var nálægt því. Lárus Halldórsson fékk þennan á Hólmavaðsstíflu og mældist hann 99 sentímetrar. Hann tók fluguna Sally sem Pétur Steingrímsson hannaði. Ljósmynd/Steingrímur S. Stefánsson

Laxá í Aðaldal hefur gert vel í sumar. Veiðin er mun betri en í fyrra og var það þó ár þar sem Laxá bætti vel við sig. Stefnir í bestu veiði í Aðaldalnum í mörg ár. Fróðlegt verður að sjá hvernig framhaldið verður þar inn i haustdagana sem oft gefa þá stærstu.

Svo er það Stóra–Laxá. Hún er á flugi miðað við síðasta ár. Komin yfir fjögur hundruð laxa en var á sama tíma í fyrra í 184. Meira vatn hefur hjálpað og svo er spurning hvort Finnur Harðarson leigutaki og landeigandi hafi náð að berja Iðu veiðimenn til frekari sleppinga á laxi. 

Þverá/Kjarará eru nú aftur sameinaðar í veiðitölum og rjúka þar með upp í annað sætið. Veiðin í ár er tvöföld miðað við það sem þær höfðu gefið í fyrra og sýnir glögglega hversu miklu betra ár 2024 er samanborið við síðasta ár. Að senda frá sér sameiginlegar veiðitölur fyrir svæðin á nýjan leik er væntanlega fyrst fremst vegna markaðslegra aðstæðna. Þegar veiðin á hvoru svæði var birt aðskilin var það betri upplýsingagjöf. Kjarrá er nú nefnd Kjarará og er það vísun í eldri tíma.

Hér er listi yfir tuttugu efstu árnar. Listinn er nú farinn að taka á sig afgerandi mynd og veiðin víðast hvar betri en á sama tíma í fyrra. Í nokkrum ám er hún mun betri, jafnvel miklu betri. Fyrsti dálkurinn er talan í viðkomandi á í lok dags í gærkvöldi, 14.ágúst. Dálkur tvö, veiðin í fyrra segir til um hver talan var í loks dags 16. ágúst í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo veiðin síðustu sjö daga, samkvæmt tölum frá angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga. Fjórði og síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu milli ára miðað við 16. ágúst 2023 þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar.  

Vatnasvæði        Veiddir laxar    Veiðin 2023    Vikuveiðin    Breyting í %

Ytri–Rangá            2138             1781                464               --  

Þverá/Kjarará        1734              890                 238             97%

Miðfjarðará           1488               791                 198             96%

Norðurá                1290               752                 115             73% 

Eystri–Rangá         1117             1426                 242               --

Selá í Vopnafirði      895               819                 208             12%

Langá á Mýrum       840               458                   74             85%

Jökla                      753               435                  95              74%

Urriðafoss               719*             661                   --                --

Laxá á Ásum           714               476                  93                --

Hofsá                     672                727                154             -5%

Laxá í Dölum          654                155                110               --

Elliðaár                  637                 444                 43               44%

Grímsá                   625                357                 40               --

Haffjarðará             625                723                 59              --

Laxá í Aðaldal         584                 450               118              36%

Laxá í Kjós             552                 239                 28             106%

Víðidalsá                550                 388                 42              48%

Laxá í Leirársveit*  501                  197                 56              --

Vatnsdalsá             445                  237                55               --

Stóra Laxá             405                  184                46               --

*Vantar nýjar veiðitölur.

Við skoðum fleiri ár á morgun og hvernig veiðin hefur gengið í þeim í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert